145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

byggingarsjóður Landspítala.

4. mál
[17:46]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um byggingarsjóð Landspítala. Þetta er 4. mál þessa þings á þskj. 4. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Svandís Svavarsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir, Katrín Jakobsdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Ögmundur Jónasson. Þingflokkur Vinstri grænna stendur sem sagt sameinaður að frumvarpinu.

Ég vil láta þess getið í byrjun umræðunnar að hæstv. heilbrigðisráðherra kom að máli við mig og lét mig vita af því að hann gæti því miður ekki verið viðstaddur umræðu um þetta mál, sem hann hefði annars haft áhuga á að vera, sökum annarra skyldustarfa og met ég það við hæstv. ráðherra að koma því á framfæri. Hins vegar mættu að ósekju vera fleiri hv. þingmenn eða aðrir hæstv. ráðherrar við umræðuna um forgangsmál stjórnarandstöðunnar.

Ég ætla fyrst að gera grein fyrir almennum röksemdum fyrir málinu og fjalla síðan um einstaka greinar þess og nokkur önnur atriði.

Hér er um ræða endurflutning á frumvarpi sem var lagt fram á síðasta þingi en málið náði ekki fram að ganga þá. Ég hygg að það hafi þó farið út til umsagnar og gengið eitthvað á milli nefnda þannig að nokkur vinna er til staðar við skoðun á málinu. Efnisleg staða á málinu er enn óbreytt hvað varðar óvissu um fjármögnun nýbyggingar Landspítalans. Má þar meðal annars vitna til þess að ríkisfjármálaáætlun til næstu fjögurra ára, sem hæstv. fjármálaráðherra lagði hér fram síðastliðið vor og var afgreitt að lokum á þinginu, gerði ekki ráð fyrir því að jafnstór fjárfesting og þessi rúmaðist innan þess ramma sem þar var teiknaður upp. Hann var reyndar mjög þröngur og ekki var gert ráð fyrir því að ríkið hefði til fjárfestinga árlega nema sem næmi 1,2% af vergri landsframleiðslu, sem er sögulega séð lágt hlutfall. Af greinargerð sem fylgdi tillögunni mátti ráða að inni í þeim tölum eða því svigrúmi var til dæmis ekki gert ráð fyrir stofnkostnaði við nýbyggingar meðferðarkjarna eða aðalbyggingar Landspítala – háskólasjúkrahúss í nágrenni við 45–50 milljarða kr.

Þörfin fyrir endurnýjun á húsakosti Landspítalans er hins vegar vonandi nokkuð óumdeild. Ég held að sá þáttur málsins sæti ekki deilum að við verðum að taka af skarið og hefjast handa um að koma okkur upp sómasamlegu húsnæði fyrir þessa miðlægu kjarnastarfsemi í heilbrigðismálum þjóðarinnar þar sem er þjóðarspítali okkar. Menn deila um ýmsa aðra þætti málsins eins og staðsetningu sem ég vík aðeins að síðar. Hér er sem sagt lagður til einn kostur sem við stöndum frammi fyrir og eigum mögulegan til þess að tryggja á næstu nokkrum árum fjárframlög fjárveitingar til þess að geta ráðist í þetta þjóðþrifaverkefni, sem sagt með því að framlengja eða öllu heldur endurvekja auðlegðarskatt, nokkra skattlagningu á eignir allra ríkasta hluta landsmanna sem innheimtur yrði um nokkur ára skeið í þessu skyni. Ég kem betur að því síðar þegar ég ræði efni einstakra greina.

Mikill undirbúningur hefur átt sér stað undir endurnýjun á húsakosti Landspítalans, í raun og veru á síðastliðnum tíu árum að minnsta kosti, og nú er svo komið, sem betur fer, að fyrir liggja fullbúnar áætlanir um nýbyggingar við Hringbraut og í undirbúningi er fullnaðarhönnun yfir sjálfa kjarnastarfsemi spítalans. Sömuleiðis hafa menn unnið að því að móta áætlanir um endurnýjun þess hluta núverandi húsakosts sem verður nýttur fyrir starfsemina, en miðað við núverandi stöðu mála er alveg ljóst að eiginlegar framkvæmdir munu ekki hefjast að óbreyttu nema tekið verði af skarið um það og tryggt að þær verði hægt að fjármagna. Menn geta sett inn 500 millj. kr. eða milljarð til þess að ljúka kannski hönnun eða öðru slíku, en það er alveg ljóst að þegar framkvæmdir hefjast þarf jafnvel tugi milljarða þau árin sem mest yrðu umleikis því að það er auðvitað ekki hagkvæmt að dreifa svona framkvæmd yfir mjög langan tíma. Ráðast þarf í sjálfa meginbygginguna og reisa á eðlilegum byggingarhraða og þá er alveg ljóst að til fellur mikill kostnaður á eins og hálfs til þriggja ára tímabili. Nú þekkjum við úr sögunni mörg fordæmi þess að menn hafa ráðist í mikilvæg þjóðþrifaverkefni með því að afla sérstaklega til þess tekna og eyrnamerkja málaflokkunum slíkar tekjur. Nægir þar að nefna nefskattinn sem gengur til Framkvæmdasjóðs aldraðra, markaðar tekjur sem hafa um árabil runnið til þessa málaflokks og hafa verið tekjustofninn sem fjármagnar nauðsynlega uppbyggingu í þjónustu við aldraða, ekki síst byggingu hjúkrunar- og dvalarheimila. Menn hafa almennt látið sig hafa það og ég held að ekki hafi verið miklar deilur um að framlengja þann skatt og viðhafa hann þó að hann sé auðvitað ekki sérstaklega til fyrirmyndar ef út í það er farið, flatur nefskattur á alla einstaklinga. Við getum nefnt dæmið um sérstaka skuldabréfaútgáfu ríkisins með skattalegum hvötum þegar menn luku við hringveginn, og þannig mætti áfram telja. Hér er því ekki verið að finna upp hjólið hvað það varðar og ég leyfi mér að fullyrða að þjóðin hefur fullan skilning á því að það kann að vera réttlætanlegt og nauðsynlegt að grípa til sérstakra ráða til að lyfta þessu grettistaki, sem er satt best að segja ekkert óskaplegt grettistak, séð í ljósi þjóðarauðs Íslendinga um þessar mundir og landsframleiðslu sem er að nálgast 2.000 milljarða, að byggja meðferðarkjarnahús fyrir Landspítalann upp á 45–50 milljarða. Það er nú ekki þannig að menn eigi að mikla það óskaplega fyrir sér. En staðan hefur verið sú að menn hafa borið því við að þessi áform séu í biðstöðu vegna þess að takmarkað svigrúm innan ríkisfjármálanna rúmi þau ekki. Út af fyrir sig mætti benda á að núverandi ríkisstjórn hefur þegar afsalað miklu meiri tekjum á ári hverju en þyrfti til þess að byggja spítalann bara með því að sleppa auðlegðarskattinum, lækka veiðigjöld, henda út orkuskatti, fella niður tolla, vörugjöld, lækka tekjuskatt á miðtekjur og svo framvegis. En gott og vel, ef það verður til þess að koma aftur skriði á þessi mál erum við alla vega með þá tillögu að fara þá leið á nýjan leik að endurvekja auðlegðarskatt, þ.e. að allra ríkustu fjölskyldurnar eða einstaklingarnir í landinu leggi sérstaklega af mörkum í krafti auðs síns. Ég kem betur að þeirri útfærslu sem honum er þá fyrirhuguð í þessu frumvarpi í lítillega breyttri mynd frá því sem var.

Um sameiningu Landspítalans á einn stað þarf varla og vonandi ekki að ræða. Landspítalinn er rekinn á mörgum stöðum en ekki bara tveimur eins og oft mætti ætla af umræðunni, þ.e. að öll starfsemin sé annars vegar við Hringbraut og hins vegar í Fossvogi, en svo er nú ekki. Spítalinn er í reynd með starfsemi á miklu fleiri stöðum, en meginsjúkrahússtarfsemin fer þó fram á þessum tveimur stöðum með gríðarlegu óhagræði sem því fylgir. Af þeirra ástæðu einni er mjög brýnt að sameina spítalann. Í því er falið ótvírætt rekstrarhagræði og um leið er verið að koma starfseminni inn í nútímahúsnæði sem samræmist kröfum tímans. Það skyldi enginn vanmeta í þessum efnum hversu brýnt það er orðið fyrir okkur að byggja yfir sérhæfða nútímaheilbrigðisþjónustu eins og hún er og gerir kröfur til í dag. Þrátt fyrir okkar gamla, góða og glæsilega Landspítala, sem verður að sjálfsögðu passað upp á, hefur svo mikið vatn til sjávar runnið og þróunin og breytingarnar eru svo örar, meðal annars í vissum, mjög sérhæfðum og dýrum og fyrirferðarmiklum búnaði sem í sumum tilvikum er erfitt og jafnvel ekki hægt að koma inn í núverandi húsnæði. Það má til dæmis segja, ef nú loksins er að rætast úr með kaup á jáeindaskanna eða öllu heldur að þiggja að gjöf jáeindaskanna til Íslands, að gott hefði verið að hafa nýtt og stórt meðferðarkjarnahúsnæði sem væri meðal annars vel hannað fyrir slík tæki og tól.

Með því er líka séð fyrir því að okkar sérmenntaða fagfólk á þessu sviði komist í fyrsta flokks húsnæði, fái fyrsta flokks vinnuaðstæður og það sé aðlaðandi og spennandi valkostur að vinna á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Því er nú ekki aldeilis að heilsa í dag, samanber þær fréttir sem til dæmis hafa komið um heilsuspillandi aðstæður á skrifstofum sérfræðilækna, myglusveppi, leka glugga, skrifstofur í gámum og allt hvað er. Veruleikinn er sá — ég man ekki nákvæmlega hlutfallstölurnar — að 30–40% að minnsta kosti af húsakosti Landspítala – háskólasjúkrahúss eru ónýt, hann er ekki boðlegur og í raun er verið að kasta peningum í að reyna að halda við og sinna lágmarksviðhaldi á húsnæði sem á sér enga framtíð sem slíkt í þessari starfssemi.

Ég held því fram að þetta séu líka mikilvæg viðbrögð við þeim vanda sem þegar blasir við og kemur að því að tryggja mönnun þessarar starfsemi, nógu erfiður er nú sá slagur samt hvað varðar samkeppni um hæft fólk, launakjör og því um líkt, eins og við þekkjum, þótt ekki bætist við að vinnuaðstæðurnar og vinnuumhverfið sé óaðlaðandi og tæpast boðlegt. Ég býð satt best að segja ekki í það hvernig ástandið hefði verið á Landspítalanum ef að þetta ljós hefði þó ekki logað undanfarin ár að í sjónmáli væri að hefjast handa um byggingu nýs spítala. Ég veit það vel af samtölum við fólk sem þarna vinnur og er ágætlega tengdur inn á Landspítala – háskólasjúkrahús að bygging nýs spítala hefur logað eins og ljós í myrkrinu þegar að þessi starfsemi hefur átt í mjög að vök að verjast vegna ónógra fjárveitinga, vegna bágra kjara, mikils vinnuálags og slíkra hluta.

Þá að tekjustofninum sem hér er lagður til, þ.e. auðlegðarskattinum sem hér er lagt til að verði framlengdur, að vísu í lítillega breyttri mynd, og er nú skaði að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, sem gerði einmitt auðlegðarskatt að umræðuefni um fyrra þingmál, sé á brott horfinn því að hann taldi að þeir sem greiddu auðlegðarskattinn væru aðallega fátækar eða tekjulágar ekkjur. Það er gömul mantra sem Sjálfstæðisflokkurinn kann mjög vel að fara með þegar hann er að búa til eitthvert hugmyndafræðilegt skjól fyrir það að eignafólk og efnafólk eigi alls ekki að borga skatta. Þá er alltaf hægt að finna einhvern snúning á því að það sé svo ósanngjarnt, til dæmis að tekjulágar ekkjur lendi í því að greiða auðlegðarskatt. Það sama var notað gegn eignarsköttunum á sínum tíma sem sjálfstæðismenn skírðu upp og kölluðu ekknaskatt. Hér er ekki um að ræða almennan eignarskatt að ræða heldur skatta á auð sem er yfir verulega háum mörkum í augum alls venjulegs fólks, þ.e. að einstaklingar með skuldlausa eign upp á 75 millj. kr. og hjón með skuldlausa eigin upp á 100 millj. kr. greiði í skatt segjum 1,25% af þeim auði sem þar er fyrir ofan. Þannig að ekkjur hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar hafa nú verið býsna efnaðar ef þær hafa greitt einhvern auðlegðarskatt að marki, eða hitt sem líklegra er — jú vissulega geta einstaklingar, sem eiga mjög stóra og verðmæta fasteign skuldlaust, lent örlítið upp í eignarskattsmörkunum, en ég hygg að það sé sjaldgæft að menn eigi hér íbúðarhús fyrir mikið meira en 100 millj. kr. eða svo. Og vel að merkja, menn greiða einungis af því sem þar fyrir ofan þannig að oftast er þá um að ræða mjög óverulegar fjárhæðir.

Hverjir eru hinir eiginlegu greiðendur auðlegðarskatts þegar það er skoðað, eins og það birtist í álagningu ríkisskattstjóra undanfarin ár? Það var tiltölulega fámennur hópur sem bar uppi obbann af greiðslunum. Það voru milljarðamæringarnir, þeir sem áttu 1.000 eða 3.000 milljarða eða eitthvað slíkt sem greiddu vissulega talsverðar fjárhæðir. Síðan var nokkur fjöldi sem rétt sleikti eignamörkin og greiddi af 5 millj. kr. eða 10 millj. kr. sem voru umfram frítekjumörkin í hreinni skuldlausri eign. Til að mæta þeirri gagnrýni, sem á vissulega alveg rétt á sér og ég hef aldrei gert lítið úr, að það kunni að vera ósanngjarnt að leggja að jöfnu þá sem eiga að uppistöðu til hina hreinu eign í íbúðarhúsnæði til eigin nota og hina sem eiga mjög miklar hlutabréfaeignir eða fjármunaeignir þá er lögð til sú breyting að þegar um er að ræða að hluti af hinni hreinu eign sem myndar stofn til eignar auðlegðarskatts, er í húsnæði viðkomandi aðila til eigin nota, þ.e. húsnæði sem viðkomandi býr í, skuli dragast frá 30 millj. kr. frá í tilviki skattskylds einstaklings og 40 millj. kr. í tilviki skattskyldra hjóna.

Með öðrum orðum, það kemur viðbótarfrítekjumark inn gagnvart auðlegðarskattstofninum þegar um er að ræða íbúðarhúsnæði viðkomandi til eigin nota. Það mun væntanlega leiða til þess að greiðendum auðlegðarskatts svona útfærðum mundi fækka allverulega, þ.e. talsvert stór hópur mundi detta niður fyrir frítekjumörkin, eða fríeignarmörkin er nú réttara að tala um hér, en eftir stæðu hinir sem ættu mjög miklar fjármunaeignir, eignir í hlutabréfum og öðrum verðmætum sem mynduðu stofn til slíks auðlegðarskatts. Lauslega áætlað, ég undirstrika að það er lauslega áætlað, mundi þetta lækka tekjur af auðlegðarskatti um svona 1 milljarð króna, 1.000 millj. kr. plús/mínus. Það er svolítið erfitt að reikna það nákvæmlega út nema hafa til þess gögn frá fyrstu hendi úr álagningu hjá skattinum, en miðað við fjöldann sem greiddi eignarskatt og ef maður gefur sér að um helmingur þeirra að minnsta kosti mundi nýta slíkt frítekjumark, ætti þetta ekki að vera fjarri lagi. Engu að síður er ljóst, til að koma til móts við þá gagnrýni að fólk sem aðallega á eign sína í eigin húsnæði, að engin ástæða er til að ætla að tekjur af skattinum svona útfærðum og með þessari breytingu yrðu minni en 9–10 milljarðar kr. árlega þegar hann kæmi þá til greiðslu að ári liðnu.

Það eru sterkar vísbendingar um að auðlegð þessa hóps landsmanna fari ört vaxandi. Sú þróun var vel komin í gang með býsna sterkum hætti síðustu tvö árin sem auðlegðarskattur var lagður á eða kom til greiðslu, að skattstofninn var að stækka. Með öðrum orðum, þrjú til fimm þúsund ríkustu fjölskyldurnar eða einstaklingarnir á Íslandi auka auð sinn hratt þessi missirin. Í fyrsta lagi má horfa til hluta eins og vaxandi verðmætis hlutabréfa í skráðum félögum eða almennt í fyrirtækjum. Það hefur verið alveg ágæt ávöxtun á fjármunum, eins og við sjáum á ávöxtun fjárfestingarsjóða og séreignarsparnaðarsjóða og annarra slíkra hluta. Í þriðja lagi og ekki síst er það auðvitað þessi hópur sem nýtur umfram alla aðra góðs af því þegar hagkerfið tekur við sér og er í uppsveiflu. Það liggur í hlutarins eðli að það eru blómatímar fyrir þá sem eiga mikinn auð fyrir, eiga í fyrirtækjum, eru í viðskiptum eða ávaxta fé sitt og fjárfesta miklar fjármunaeignir, þegar hagkerfið eflist, þeir auka auð sinn hratt við slíkar aðstæður. Ég hef því ástæðu til að ætla að jafnvel þó að menn lækkuðu skatthlutfallið þó nokkuð væri eftir sem áður tiltölulega auðvelt að innheimta 8–10 milljarða kr. árlega með auðlegðarskatti, jafnvel með lægra skatthlutfalli en gert var á árunum sem hann var við lýði, 11 til og með 16, eins og hann upphaflega lagður á. Það vildi ég segja um tekjustofninn sem þarna er lagður til.

Það er augljóst mál að með innheimtu auðlegðarskatts á mildara formi og jafnvel með lægra skatthlutfalli en var á sínum tíma af vaxandi auði þeirra sem mundu greiða hann er mjög auðvelt að afla tekna til þess að byggja meðferðarkjarna nýs Landspítala – háskólasjúkrahúss á um fimm ára tímabili. Skatturinn væri lagður á í mjög þjóðhagslega mikilvægum og gildum tilgangi og þar af leiðandi er engin ástæða til að óttast um lögmæti hans. Á það reyndi fyrir dómi á sínum tíma, það var ósáttur aðili sem ekki var sáttur við að leggja sitt af mörkum með þessum hætti til að byggja upp Ísland sem lét reyna á það fyrir dómi hvort hann kæmist undan skattinum en skatturinn hélt í einu og öllu og var dæmdur lögmætur enda þekkt að svigrúm stjórnvalda til málefnalegrar skattlagningar er mjög mikið.

Þá aðeins að einstökum greinum frumvarpsins. Það er í sjálfu sér einfalt í sniðum. Þó er rétt að fara nokkrum orðum um að gert er ráð fyrir því samkvæmt 1. gr. og reyndar einnig 2. og 3. gr. að stofnaður verði sérstakur byggingarsjóður Landspítala sem verði sjálfstæður sjóður í vörslu fjármála- og efnahagsráðuneytis. Hann verður starfræktur í því skyni að fjármagna nýbyggingar og meiri háttar endurnýjun húsakosts Landspítala, aðalsjúkrahúss og háskólasjúkrahúss okkar. Hlutverk þessa sjóðs yrði eingöngu það að taka við tekjum sínum og eftir atvikum ávaxta þær samkvæmt lögunum. Sjóðnum yrði jafnframt heimilt að taka við frjálsum framlögum, enda væru þau afhent sjóðnum kvaðalaust í þeim tilgangi að renna til uppbyggingar Landspítala. Fjármunum yrði eingöngu varið til endurgreiða ríkissjóði útlagðan stofnkostnað vegna nýbyggingar og meiri háttar endurnýjunar húsakosts Landspítala eftir því sem framkvæmdum mundi vinda fram og fjármunir leyfðu.

Tekjur af auðlegðarskatti samkvæmt ákvæði til bráðabirgða nr. XXXIII í lögum um tekjuskatt, sem endurvakin eru í 6. gr. frumvarpsins, rynnu til byggingarsjóðs Landspítala. Það má spyrja: Hvers vegna að stofna sérstakan sjóð og marka tekjur? Jú, það er einfaldlega vegna þess að með lagaumgjörð af þessu tagi væri hafið yfir allan vafa og eytt allri tortryggni um að þessir fjármunir eins og þeir legðu sig rynnu til þessa verkefnis, þeir færu ekki í ríkissjóð heldur í sérstakan byggingarsjóð, færu á sérstakan reikning samkvæmt sérlögum og að óheimilt væri að ráðstafa þeim til nokkurra annarra verkefna, þannig að þeir sem að greiddu auðlegðarskattinn væru vissir í sinni sök að hann rynni þá til þessa þarfa verkefnis. Ég ætla að leyfa mér að trúa því að rétt eins og langflestir sættu sig við að greiða auðlegðarskatt til að hjálpa við að byggja upp Ísland eftir hrunið mundu langflestir með nokkuð glöðu geði greiða auðlegðarskatt í fimm ár til þess að byggja nýjan Landspítala – háskólasjúkrahús.

4. gr. gerir ráð fyrir því að sjóðnum væri heimilt að greiða fyrir fram að einhverju leyti á undan tekjum með því að taka þá lán eða minnsta kosti að veita skuldbindingar um slíkar greiðslur út á væntar tekjur, en þó aldrei meira en 4/5 af því sem áætlanir gerðu ráð fyrir að hann mundi fá á grundvelli sinna mörkuðu tekna. Það er haft með í því tilfelli ef að slíkar aðstæður kæmu upp væri innbyggður ákveðinn sveigjanleiki í kerfið og ríkið gæti þá ekki borið fyrir sig að það þyrfti að bíða eða staldra við í byggingaráformunum af því að tekjurnar væru ekki allar í húsi. Lögin öðlast að sjálfsögðu þegar gildi og svo kemur 6. gr. sem framlengir og breytir nokkuð gildi þeirra bráðabirgðaákvæða í tekjuskattslögunum sem auðlegðarskatturinn byggði á á sínum tíma.

Auðlegðarskattur eða stóreignaskattur er vel þekkt fyrirbæri og er lagður á víða í löndum í kringum okkur, bara á mismunandi formi. Er kannski nærtækast að nefna þar Noreg þar sem að um áralangt bil, ég veit nú ekki alveg hversu langt aftur, hefur verið lagður sérstakur auðlegðarskattur á ríkasta hluta norsku þjóðarinnar. Hann heitir á því máli formúuskattur eða „formueskatt“ af því að auður er þar formúur, það er reyndar til í íslensku líka. Þó að einstaka öfgahægrimenn hafi verið að nudda stundum á móti þessum skatti í Noregi er tiltölulega breið samstaða um að leggja hann á í hinum olíuríka Noregi. Ekki er það nú vegna þess að þeir séu í einhverjum sérstökum vandræðum með ríkisfjármál sín eða voru það að minnsta kosti ekki fyrr en olíuverðið féll. Iðulega er ríkissjóði skilað með um 15% afgangi og Norðmenn lögðu það til hliðar í sjóðinn, en þeir lögðu ekki af formúuskattinn, auðlegðarskattinn. Af hverju ekki? Af því að í norskum stjórnmálum fannst mönnum bara réttlátt og eðlilegt að hafa þetta svona, að ríkasta fólkið í landinu legði sérstaklega af mörkum, í staðinn væri þá annaðhvort hægt að hlífa tekjulægsta fólkinu aðeins meira við skattlagningu eða gera betur í velferðarþjónustunni og svo framvegis. Það er auðvitað pólitísk hugsun á bak við það.

Í þriðja lagi, frú forseti, örfá orð um staðsetningarmálið sem verið hefur mjög til umræðu að undanförnu og hefur aftur vaknað upp sú umræða þannig að maður er svolítið hugsi yfir því. Í mínum huga er það afgreitt mál fyrir alllöngu síðan. Ég skil mjög vel að um það geti verið og hafi verið skiptar skoðanir hvar ætti að bera niður í þeim efnum en niðurstaðan eftir áralangan undirbúning og mörg samtöl og samræður og margar skýrslur varð alltaf sú sama, að skynsamlegasti kosturinn væri að byggja við Hringbraut. Sérstaklega var það eftir hrun þegar menn fóru að endurskoða nokkuð fyrri áform og reyna að aðlaga þau betur að okkar þáverandi og sumpart núverandi efnahagslega veruleika, að leita aðeins hagkvæmari lausna í þessu og kostur væri og eitthvað sem hægt væri að ráðast í og ekki þyrfti frekari undirbúning. Allt á það við um staðsetninguna við Hringbraut, þar er öllu skipulagsferli lokið, það er allt klárt sem að því snýr.

Ríki og borg og stjórnendur Landspítala eru sammála um þessa niðurstöðu, samanber blaðagrein sem kom frá hæstv. ráðherra, borgarstjóra og forstjóra Landspítalans. Það er alveg ljóst að ef menn ætla að fara að stofna því aftur í óvissu með umræðum um allt aðra nálgun, allt aðra lausn, gæti orðið stórslys, þ.e. að áformin mundu frestast um fjöldamörg ár því að það þyrfti að byrja á grunni, fyrst að velja hinn nýja stað, tryggja þar land ef það væri ekki land sem ríkið ætti, fara með það algerlega í gegnum skipulagsferli frá grunni. Síðan þyrfti að hanna algerlega frá grunni aftur nýja byggingu og væntanlega þyrfti, ef menn væru að falla frá því að nota nokkuð af eldra húsnæði spítalans, að gera nýjar húsrýmisáætlanir og nýja þarfagreiningu á því öllu saman miðað við byggingu „komplett“ spítala á nýjum stað. Í hinum besta heimi allra heima þegar menn ættu nóga peninga er það flott lausn að byggja nýjan spítala frá grunni með öllu og vera ekkert að nota eldri hús, sum hver eru að vísu nýleg eins og barnaspítalinn. En ég held, og það hefur orðið mín niðurstaða eftir að hafa farið í gegnum þessi mál aftur og aftur, að þetta sé sá raunhæfi kostur sem við höfum fyrir framan okkur, getum ráðist í og að hann sé góður. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að það verði góð lausn fyrir Landspítala – háskólasjúkrahús að fá nýja og stóra meðferðarkjarnabyggingu og yfir mikilvægustu hluta starfseminnar og nýta svo það besta af núverandi húsnæði. Ég hef áhyggjur af hinu þó að það séu ýmis gild rök í máli þeirra sem tala fyrir því að best hefði kannski verið að byggja alveg frá grunni, en ég óttast að sá biti yrði stór, dýr, honum yrði erfitt að kyngja, en mest óttast ég þó það óvissuástand og það millibilsástand sem kæmi upp á meðan menn væru þá að fara með málið yfir í þann farveg. Gleymum þá ekki því að þá kæmi upp gjörbreytt staða hvað það snertir að starfræksla Landspítalans yrði kannski næstu tíu árin í húsnæði sem ætti síðan að afskrifa. Þá yrði auðvitað ekki vel séð að leggja mikla peninga í viðhald og úrbætur á meðan ef húsnæðið ætti síðan að fara í önnur not þegar menn gætu loksins flutt einn góðan veðurdag yfir í glænýjan spítala.

Um það ætla ég ekki að hafa fleiri orð en legg til að lokum þessarar umræðu að málið gangi til hv. velferðarnefndar og vil færa fyrir því þau rök að þangað fór þetta mál í fyrra og þangað hafa önnur þingmál sem tengjast byggingarmálum Landspítalans farið. Vissulega eru hlutar þessa máls skattatæknilegs eðlis og mætti færa fyrir því rök að það mætti að ósekju ganga til efnahags- og viðskiptanefndar sem fer með skattamál. Sömuleiðis er þetta auðvitað stórt fjárhagsmál og fjárlaganefnd getur vel gert tilkall til þess að það sé að hluta til að hennar verksviði. En það tel ég þá einfaldast að leysa með því að velferðarnefnd sem hefur haft þessi mál leiti álits þessara nefnda, annarra eða beggja. Mín tillaga er því sú sama og í fyrra, frú forseti, að málið gangi til hv. velferðarnefndar.