145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

byggingarsjóður Landspítala.

4. mál
[18:27]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um byggingarsjóð Landspítala þar sem lagt er til að byggingarsjóður Landspítalans verði fjármagnaður með auðlegðarskatti á árunum 2017–2021.

Ég tel það vera mjög góða leið til þess að hrinda því í framkvæmd sem svo lengi er búið að ræða um, að byggja nýjan Landspítala eða að bæta það húsnæði og byggja við kjarnastarfsemi Landspítalans frá því sem nú er. Ég er ekki viss um að það sem kemur fram í ríkisfjármálaáætlun dugi til þess að hrinda þessum framkvæmdum af stað sem skyldi, það er bara ekki nægilegt fjármagn sem er áætlað í það og engin vissa um það næstu árin eins og þetta lítur út núna. Þess vegna leggjum við þingmenn Vinstri grænna þetta frumvarp fram þar sem við teljum að þetta sé góð leið til þess að fjármagna byggingu nýs Landspítala. Það þekkja allir þær aðstæður sem þarna eru. Landspítalinn er starfræktur, hefur mér verið sagt, á 17 stöðum út um borg og bý hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er óásættanleg vinnuaðstaða sem slík og dýrt í rekstri. Landspítalinn er orðinn mjög viðhaldsfrekur. Komið hafa upp ýmis dæmi um sveppasýkingar og annað því um líkt sem auðvitað er ekki boðlegt á hátæknisjúkrahúsi þjóðarinnar. Það er heldur ekki ásættanlegt þegar í pípunum er að endurbyggja Landspítalann að það þurfi frá ári til árs að vera að setja í viðhald 3 milljarða, allt að því og kannski meira, sem hefði verið hægt að nýta þá í framkvæmd spítalans eða nýbyggingu. Þess vegna má ekki dragast lengur að ráðast í þær framkvæmdir. Þessi leið er mjög góð til þess að gera það í ákveðnum og öruggum skrefum og vera ekki að draga lappirnar í þessu efni eins og því miður virðist vera frá því að núverandi stjórnvöld tóku við.

Margt spilar inn í þarna. Við þekkjum harða kjarabaráttu starfsfólks á Landspítalanum, hvort sem það eru læknar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar eða aðrar stéttir þar, að átt hefur sér stað mikil kjarabarátta í heilbrigðisgeiranum og þar eru vinnuaðstæður á höfuðsjúkrahúsi landsmanna sem spilar líka inn í að mikil óánægja er hjá heilbrigðisstarfsfólki sem starfar þar og allar aðstæður skipta máli þegar fólk er að ræða þar líka um kaup og kjör. Allt hangir þetta saman. Við megum ekki við því sem þjóð að missa frá okkur fjölda menntaðra einstaklinga, heilbrigðisstarfsfólk, hvort sem það heitir sjúkraliði, hjúkrunarfræðingur, læknir eða annað það starfsfólk sem starfar á hátæknisjúkrahúsinu okkar eða í öðrum heilbrigðisstofnunum. Rætt hefur verið um staðsetninguna og ég tel að það mál eigi að vera útkljáð. Mér finnst ekki gott að hæstv. forsætisráðherra sé að hringla með það mál núna eins og hann hefur gert og tel að það sé ekki til þess fallið að ýta undir að menn klári núna en fari ekki að velkjast með það áfram í kerfinu. Búið er að taka þessa ákvörðun og þó það megi alltaf segja að það hafi verið betra að byggja nýjan Landspítala fá grunni þá er þó búið að velta þessu finnst mér það lengi fyrir sér að við eigum að standa við þá niðurstöðu að byggja eigi þetta kjarnahúsnæði upp við Hringbraut.

Varðandi þá fjármögnun sem við í Vinstri grænum leggjum hérna til, auðlegðarskattinn, hafa þær vangaveltur svo sem verið í umræðunni af hverju þeir sem eiga þetta miklar eignir eigi að standa undir byggingu nýs Landspítala sem á að þjóna öllum landsmönnum. Ég tel mjög eðlilegt að þeir efnamestu komi þar sterkt inn og að aðrir landsmenn sem ekki greiða auðlegðarskatt haldi auðvitað áfram að greiða sína skatta og skyldur og það fjármagn nýtist til velferðarkerfisins, meiri fjármunir eru þá til skiptanna þar. Auðvitað greiða allir landsmenn í rekstur þá Landspítalans nú og framtíðinni. Ég tel því þetta vera eitthvað sem þeir sem hafa þessar miklu eignir ættu að vera stoltir af að geta lagt sinn skerf til að byggja nýjan Landspítala hratt og örugglega. Ég efast ekkert um að stærstur hluti þess fólks sem þarna fellur undir að greiða auðlegðarskatt á þessum árum muni gera það með glöðu geði.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég tel þetta bara vera stórt og mikið mál sem þingið ætti að sameinast um og geta hrint þessari framkvæmd af stað og séð fyrir endann á því og verið þarna með örugga fjármögnun til þess að sameiginlega verkefnis allrar þjóðarinnar til framtíðar.