145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

fullgilding bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum (OPCAT).

6. mál
[18:54]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. flutningsmanni Birgittu Jónsdóttur fyrir ræðu hennar. Ég er einn af meðflutningsmönnunum þessarar tillögu til þingsályktunar um að Alþingi feli ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd valfrjálsa bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, sem var, líkt og flutningsmaður rakti, samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í lok árs 1982 og Ísland undirritaði 23. september 1983, ásamt því að hefja án tafar undirbúning við innleiðingu hennar hér á landi.

Ég held að þessi samningur Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, sé með mikilvægari samningum sem gerðir eru og það er alveg gríðarlega mikilvægt að meðal þjóðanna séu til reglur um hvað má gera og þá sérstaklega hvað ekki má gera.

Með þessari þingsályktunartillögu er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að fullgilda valfrjálsa bókun við þennan pyndingarsamning. Það er svolítið áhugavert þegar kemur að svona alþjóðasamningum að skoða tímalínurnar. Fram kemur í greinargerð að samningur Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1984 og hann fullgiltur af Íslands hálfu árið 1996, þannig að hér er svo sem ekki um alveg glænýtt mál að ræða.

Svo var hins vegar samþykkt á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 2002 valfrjáls bókun við pyndingarsamninginn sem tók gildi árið 2006, sem þáverandi utanríkisráðherra Íslands undirritaði strax í september árið 2003, þó með fyrirvara um fullgildingu. Og nú, heilum 12 árum síðar, erum við að ræða það hér í þinginu að þessa bókun þurfi að fullgilda. Mér finnst alltaf dálítið undarlegt hversu langan tíma það tekur að klára mál eins og þetta sem, líkt og hv. flutningsmaður Birgitta Jónsdóttir nefndi í framsöguræðu sinni, er ekki pólitískt í eðli sínu. Ég hefði því haldið að að stórum hluta snerist þetta um að koma hlutunum í framkvæmd, koma þeim í ferli og klára þá. En í bókuninni er sem sagt kveðið á um eftirlit sjálfstæðra aðila sem sé falið að heimsækja reglulega stofnanir þar sem frelsissviptir einstaklingar eru vistaðir, í þeim tilgangi að koma í veg fyrir grimmilega eða vanvirðandi meðferð eða hreinlega pyndingar.

Frelsissviptir einstaklingar eru auðvitað sá hópur samfélagsins sem er í hvað viðkvæmastri stöðu og á hvað erfiðast með að bera hönd fyrir höfuð sér ef þessir einstaklingar lenda í þeirri aðstöðu að vera beittir einhvers konar grimmilegri eða vanvirðandi meðferð. Þess vegna er svo mikilvægt að brautirnar séu til og séu virkar og hafi einhverja lögformlega stöðu. Mér finnst gríðarlega alvarlegt það sem kemur fram í greinargerð með þingsályktunartillögunni, þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í athugasemdum nefndar Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum, frá 8. júlí 2008, við þriðju skýrslu Íslands um framkvæmd pyndingarsamningsins, lýsir nefndin áhyggjum af því að engu lögformlegu eftirliti hafi verið komið á fót til að fylgjast með stofnunum sem vista frelsissvipta einstaklinga og hvetur nefndin til þess að valfrjálsa bókunin verði fullgilt eins fljótt og auðið er.“

Það eru þó nokkur ár síðan þetta var og ég er þeirrar skoðunar að við sem störfum hér inni eigum að taka okkur saman í andlitinu og samþykkja þessa þingsályktunartillögu. Við eigum að fela ríkisstjórninni að fullgilda hina valfrjálsu bókun og stíga þar með, að því er ég tel, stórt skref í þá átt að koma þessum málum í réttan og góðan farveg og treysta þannig betur stöðu frelsissviptra einstaklinga. Ég held að við séum flest, ef ekki öll sem hér störfum sammála um að fangelsisvist eigi að vera betrunarvist en ekki refsingarvist. Til að ná árangri í þeim málum er alveg gríðarlega mikilvægt að þeir einstaklingar sem afplána refsingu séu ekki beittir vanvirðandi meðferð, og án þess að ég ætli að gefa mér eitthvað um að þannig sé það í dag, þurfum við auðvitað að hafa allar brautir virkar sem hafa eftirlit með því að svo sé ekki. Ég vona því að þessi þingsályktunartillaga verði samþykkt hér fljótt og örugglega.