145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

virðisaukaskattur.

8. mál
[19:33]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir framsöguna. Ég er nú ekki beint komin upp í andsvar heldur vil ég bara nýta tækifærið til að lýsa ánægju minni og fullum stuðningi við það flotta mál sem þingmaðurinn hefur lagt fram.

Þetta er afar jákvætt mál og eins og hann segir í ræðu sinni er mjög mikilvægt að íþróttahreyfingin og æskulýðsfélög — það er afar jákvætt að brugðist hafi verið við umsögnum og æskulýðsfélögum komið þarna inn því að öll starfsemi barna í íþróttastarfi og æskulýðsfélögum hefur ákveðið forvarnagildi. Það þekkir maður og hefur líka séð með því að starfa í kringum börn og unglinga til fjölda ára, þetta hefur mjög jákvæð áhrif og því fagna ég þeirri uppbyggingu sem lögð er til með frumvarpinu, þetta er svona hvati til uppbyggingar.

Þeir sem stunda íþróttir eða eru í æskulýðsstarfi, mjög margir, eru oft vel skipulagðir einstaklingar með góðan námsárangur og það helst allt í hendur. Það er líka hægt að horfa til þess að nú er þjóðin að eldast, eldri borgarar eru ört stækkandi hópur í samfélaginu og þá hlýtur þörfin að vera meiri fyrir uppbyggingu mannvirkja fyrir íþróttir eða æskulýðsstarf.

Ég mundi telja að það hefði jákvæð áhrif á lýðheilsu landans ef þannig má orða það, þ.e. hvort það sé ekki einmitt markmiðið með frumvarpinu að bæta lýðheilsu og efla það góða starf sem unnið er hjá íþrótta- og æskulýðsfélögum víðs vegar um landið.