145. löggjafarþing — 5. fundur,  14. sept. 2015.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

7. mál
[19:39]
Horfa

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sem lagt er fram enn á ný. Það hefur verið lagt fram nokkrum sinnum áður og flestir þekkja það betur frá 1. flutningsmanni sem var á síðasta kjörtímabili og er því miður ekki með okkur hér, hv. fyrrverandi þm. Pétur Blöndal, sem fékk hv. þingmenn úr ýmsum flokkum í þinginu með sér á málið.

Ég ætla ekki að halda langa ræðu um þetta mál en vil hins vegar hvetja þá sem hafa áhuga á lífeyrismálum til að skoða greinargerðina, sem er einstaklega vel unnin og einstaklega fróðleg því að hún fer yfir sögu lífeyrissjóðanna í stuttu máli, hvaðan þessar hugmyndir eru komnar og af hverju framkvæmdin er eins og hún er í dag.

Það er hins vegar mikilvægt að við séum öll meðvituð um að það er mikið lán fyrir okkur að vera með íslenska lífeyrissjóðakerfið. Við erum ein af sex þjóðum innan OECD sem geta sagt að þær eigi einhverja eign í lífeyrissjóði. Það gerir samkeppnisstöðu okkar miklu sterkari en annarra. Frumvarpið miðar ekki að því að umbylta því kerfi sem nú er, það snýr fyrst og fremst að því að skerpa á ákveðnum grundvallaratriðum sem ég ætla að fara yfir hér.

Í 1. gr. er sérstaklega tekið fram:

„Lífeyrissjóður er eign sjóðfélaga sinna. Innstæða eða réttindi samkvæmt samningi um tryggingavernd eru eign rétthafa.“

Þarna er skýrt tekið fram það sem ég held að flestir séu sammála um að sé í orði en þó kannski ekki í framkvæmd, að viðkomandi sjóðfélagi eigi þau réttindi sem hann fær með því að greiða inn í viðkomandi lífeyrissjóð.

Í 2. gr. er lífeyrissjóði gert skylt að upplýsa um áunninn og væntanlegan lífeyrisrétt viðkomandi sjóðfélaga og hlut hans í hreinni eign til greiðslu lífeyris.

Síðan er í 3. gr. tekið skýrt fram að viðkomandi sjóðfélagi fer með atkvæðisrétt eftir eign sinni og réttindum. Allt ber að sama brunni, þ.e. að skerpa á eign lífeyrissjóðanna, þeir eru eign sjóðfélaganna, þeir kjósa sér stjórn og verða eðli máls samkvæmt að vera upplýstir um hve mikla fjármuni þeir eiga og hve miklar eignir þeir eiga í viðkomandi lífeyrissjóði.

Einhver kynni kannski að segja: Er ekki fullkominn óþarfi að leggja svona mikla áherslu á að viðkomandi einstaklingar viti hvað þeir eiga mikið í lífeyrissjóði? Hugsunin á bak við það er einfaldlega sú að skerpa skilning landsmanna á lífeyrissjóðunum þannig að fólk sé meðvitað um hversu mikla fjármuni þarna er um að ræða.

Það er ekkert sjálfgefið að við höfum lífeyri þegar við erum komin á lífeyrisaldur og það er svo sannarlega ekki þannig í öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við. Það var svo sannarlega ekki þannig hér á árum áður. Það er einmitt farið yfir það í greinargerðinni hvenær fyrsti lífeyrissjóðurinn var stofnaður, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins árið 1921, en rætur hans ná aftur til ársins 1851.

Til að fólk sé meðvitað um gildi lífeyrissjóðanna verða menn eðli málsins samkvæmt að skilja samhengið. Það er ekki hægt að útskýra það betur en svo að fólk fái upplýsingar um sinn lífeyrissjóð og sína eign.

Þetta mál á sér hliðstæðu að því leytinu til að til eru lífeyrissjóðir á Íslandi og hafa verið til í langan tíma þar sem nákvæmlega þessi grundvallarprinsipp eru til staðar og hefur þeim alla jafna vegnað vel. Þess eru þó dæmi að ekki hafi gengið vel hjá lífeyrissjóðum með þetta fyrirkomulag en það sama á við um þá lífeyrissjóði þar sem enn eru fulltrúar atvinnurekenda og launþega með fólk í stjórnum.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að við klárum þetta mál en þetta er fyrsta þingmannamálið sem þingflokkur Sjálfstæðisflokksins leggur fram á þessu þingi. Það er mjög mikilvægt að málið fái þinglega meðferð til þess að við fáum það samþykkt en í það minnsta er mjög mikilvægt að umræðan verði tekin. Ég held að það sé sérstaklega mikilvægt fyrir alla en þó einkum ungt fólk að það átti sig á mikilvægi lífeyrissjóða og þeim réttindum sem það fær með því að greiða inn í viðkomandi lífeyrissjóð. Það hvetur til sparnaðar og ýtir undir skilning á efnahagslífinu og mikilvægi langtímasparnaðar.

Það gerir það líka að verkum að það er meiri sátt, að ég tel, um lífeyrissjóðina þegar fólk hefur skilning á eðli þeirra og hvað það þýðir fyrir hvern einstakling að eiga réttindi í lífeyrissjóði.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég hvet þá aðila sem hafa áhuga á þessum málum til að kynna sér greinargerðina og fylgiskjöl með henni sem skrifuð eru af Pétri Blöndal. Þetta var eitt af baráttumálum hans sem hann lagði gríðarlega vinnu í. Þegar Pétur Blöndal lagði vinnu í eitthvað var það gert af heilum hug og af mikilli þekkingu. Fá mál þekkti Pétur betur en lífeyrismálin þó að hann þekkti mörg mjög vel og kom líka vel fram styrkur hans sem tryggingastærðfræðings í þessu máli og öðrum sambærilegum málum.

Virðulegi forseti. Ég legg til að þessu máli verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar.