145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Haustið einkennist oft af ákveðinni eftirvæntingu og gleði yfir því að snúa aftur til starfa endurnærður að loknu sumarfríi. Börn og ungmenni snúa aftur í skóla sína og við taka nýjar áskoranir, nýtt námsefni sem byggir þó ofan á það sem áður hefur verið til umfjöllunar, kannski nýir skólafélagar eða jafnvel nýr kennari. Syndir fyrri ára eru að einhverju leyti gleymdar eða fyrndar og tækifæri er til þess að setja sér markmið fyrir veturinn og bæta það sem ekki var nógu vel gert veturinn á undan.

Við hér á Alþingi erum kannski að sumu leyti í svipaðri stöðu. Nýtt þing og nýjar áskoranir blasa við okkur í formi nýrra þingmála sem nauðsynlegt er að kynna sér og setja sig inn í, en einnig gamlir kunningjar í formi endurfluttra mála í bland. Við munum takast á um þessi mál og það er eðlilegt. Við erum málsvarar ólíkra sjónarmiða og vorum kjörin af þjóðinni til að halda þeim til haga. Ég vona að við berum gæfu til þess að halda pólitíkinni og umræðu um hana í forgrunni á þessu þingi. Við eigum ekki að þurfa að eyða tíma okkar og kröftum í að takast á um mál eins og dagskrána. Það gerum við hins vegar einungis með öflugu samráði þar sem stjórnarandstaðan er höfð með í ráðum í stað þess að vera látin standa frammi fyrir einhliða beitingu á dagskrárvaldi forseta. Slíkt mun alltaf enda í umræðum um form en ekki pólitískt innihald.