145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Það er gott að vera kominn til starfa í þinginu aftur, hitta þingmenn og starfsmenn þingsins. Ég vona að við eigum eftir að láta gott af okkur leiða í vetur, þingið verði starfsamt og það sem við gerum hér og segjum megi standa við, við getum treyst því sem við lofum.

Virðulegi forseti. Í Fréttablaðinu á föstudaginn var viðtal við Björk Vilhelmsdóttur, borgarfulltrúa og varaþingmann Samfylkingarinnar, um veikleikavæðingu félagsþjónustunnar. Það er ekki alveg ný umræða. Hún hefur átt sér stað áður, átti sér stað á þinginu síðastliðinn vetur í velferðarnefnd. Til að fyrirbyggja allan misskilning þá á frumvarp velferðarráðherra um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, skilyrði fjárhagsaðstoðar, ekki á neinn hátt við öryrkja í samfélaginu. Frumvarpið er loforð til sveitarfélaganna um að setja reglur um skilyrðingar fjárhagsaðstoðar og er það grundvöllur til að hjálpa fólki til sjálfshjálpar. Frumvarpið fjallar í raun um framtíðarheill þeirra sem hafa að engu að hverfa.

Félagsþjónustan í Hafnarfirði tók upp slíkar reglur í samstarfi við atvinnulífið í bænum. Þar voru fleiri hundruð manns á félagsaðstoð. Með samstarfi við atvinnulífið voru sköpuð yfir 100 störf í sveitarfélaginu og einungis við þrjá eða fjóra einstaklinga sem voru á fjárhagsaðstoð þurfti að beita þremur eða fjórum skilyrðingum. Það er mikilvægt að við hjálpum fólki til sjálfshjálpar. Það er ekki verið að þrengja að fólki með þessu. Við erum að hjálpa fólki til að koma út úr myrkrinu og sjá birtuna. Veikleikavæðing fólks og samfélagsins er böl.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna