145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[14:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála því að opinbera fjárfestingarstigið hefur verið mjög lágt. Við gagnrýndum það reyndar sérstaklega á síðasta kjörtímabili að menn hefðu dregið um of saman með fjárfestingar ríkisins. Nú hefur fjárfesting atvinnuveganna tekið töluvert við sér og er að ná langtímameðaltali, a.m.k. ef horft er aftur til ársins 1980, en það breytir því ekki að við erum með lágt fjárfestingarstig hjá ríkinu. Það sem við höfum kannski helst áhyggjur af er að við séum ekki að gæta nægilega vel að innviðunum.

Ég tel að það komi vel til greina að nýta tækifærið ef svigrúm gefst til að bæta þarna töluvert í á næstu árum, en við megum ekki gleyma því að við erum að halda hlutfallinu á einhverju lengsta samfellda hagvaxtarskeiði sem við höfum lifað þannig að með því að við höldum hlutfalli af landsframleiðslu þá erum við að nafnvirði alltaf að framkvæma meira og meira. Það kemur sem sagt aðeins á móti. Ég hef ekki skoðað það nægilega (Forseti hringir.) vel sem spurt er um, hvort þetta sé skilgreint of þröngt, (Forseti hringir.) en það er alveg rétt að það hlýtur að þurfa að horfa til fjárfestingar fleiri aðila en bara stóru framkvæmdanna.