145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[14:54]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra svarið. Ég lít hins vegar ekki á þetta sem verðlagsforsendur, ég lít á það sem heilbrigt viðskiptaumhverfi að tollar og vörugjöld — vörugjöldin voru 45 ára gamalt fyrirbrigði sem átti að vera millistig þegar Ísland gekk í EFTA. Tollar eru gamalt fyrirbrigði til að byggja upp viðskiptahindranir. Þeim tíma er lokið og ég tel eðlilegt að ljúka ferlinu og að tekjuöflun ríkissjóðs samanstandi af neyslusköttum, tekjusköttum, þjónustugjöldum og því um líku en tollar og mismunun á milli viðskiptalanda eiga að vera úr sögunni. Ég sem nefndarmaður í efnahags- og viðskiptanefnd mun þá horfa á þetta út frá því sjónarhorni og svo er náttúrlega spurning hvað aðrir þingmenn gera.

Ég hef lokið máli mínu, virðulegur forseti.