145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[14:56]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Allt hefur sinn tíma. Í þessu ágæta frumvarpi eru margar áherslur sem ég get alveg tekið undir en það fer eftir umhverfinu hverju sinni hvort ráðlegt er að ráðast í það.

Hæstv. fjármálaráðherra er náttúrlega eðlilega glaður yfir því að hann boðar hér skattalækkanir sem eru einhvers staðar á bilinu 8 milljarðar, eins og hann slær á sjálfur, þ.e. lækkun á tekjuskatti. Ég spyr þá hæstv. fjármálaráðherra: Telur hann að öllu yfirveguðu að það sé ráðlegt við þær aðstæður sem við búum við núna? Við vitum að það er að aukast spenna í hagkerfinu. Á næsta ári fara af stað fjórar meiri háttar framkvæmdir og ég ímynda mér að Seðlabankinn verði allt næsta ár önnum kafinn bara við það að halda lokinu á sjóðandi potti og hann gerir það auðvitað með þeim gamalkunnu aðferðum sem við þekkjum.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Finnst honum ekki að hann sé að auka við eldiviðinn undir þennan pott? Ég bendi á að Seðlabankinn hefur talað með þeim hætti að það sé varasamt að fara í tekjuskattslækkanir við svona aðstæður, eins og mörgum kom á óvart. (Forseti hringir.) Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins varaði beinlínis við því. Þarna finnst mér sem Seðlabankinn og ríkið togi ekki ækið í sömu átt.