145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[15:02]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það liggur fyrir að grundvallarágreiningur er um skattstefnu ríkisstjórnarinnar, sem birtist í þessu plaggi, þ.e. framhald þeirrar skattstefnu sem við höfum séð í umræðum um fjárlög, bæði síðustu og þarsíðustu, grundvallarágreiningur um hvernig eigi að dreifa byrðunum og grundvallarágreiningur um hvernig eigi að skipta gæðunum. Hann birtist hér í samræðum í andsvörum.

Grundvallarágreiningur er um hvort við viljum hafa þrepaskipt skattkerfi eða flatt skattkerfi, grundvallarágreiningur um hvort við viljum að skattkerfið sé nýtt beinlínis sem tæki til að skila auknum jöfnuði, og grundvallarágreiningur um það líka hversu langt eigi að ganga í þessum málum.

Svo að maður taki kannski stærstu tíðindi þessa bandorms þá er það auðvitað það að fyrirhugað er að fækka þrepum í þrepaskipta skattkerfinu þannig að þau verði tvö en ekki þrjú. Það er vissulega áfangi á þeirri leið, eins og hæstv. ráðherra hefur talað um, sem talar fyrir þeim breytingum, að einfalda kerfið, en það er líka áfangi í því að fletja kerfið út, að draga úr jöfnunaráhrifum skattkerfisins. Það eru fleiri áfangar sem núverandi ríkisstjórn hefur náð í því að fletja kerfið út og draga úr jöfnunaráhrifum og þar nægir að nefna þá ákvörðun að framlengja ekki auðlegðarskattinn, svo að dæmi sé tekið. Vissulega er þetta gamalkunnugur ágreiningur úr stjórnmálum, en umræðan á alþjóðavettvangi hefur verið að breytast mjög mikið um þessi mál. Ég notaði tækifærið í ræðu minni um fjárlagafrumvarpið og ætla að gera það aftur hér til að ræða þetta.

Við sjáum til dæmis stofnanir á borð við OECD — stofnun sem seint mundi kallast mjög róttæk þegar kemur að efnahagsmálum, seint yrði kölluð einhver kommastofnun — sem sendir út í desember 2014 skýrslu þar sem ríkisstjórnir OECD-ríkjanna eru hvattar til þess að gera beinlínis breytingar á skattkerfum sínum til þess að auka jöfnuð. Þetta er rökstutt með því — og við hæstv. ráðherra höfum nú rætt þetta áður — að ekki aðeins sé jöfnuður mikilvægur í sjálfu sér, þ.e. að mikilvægt sé að jafna kjör almennings í hverju landi, heldur sýni gögn og dæmi fram á það með nokkuð óyggjandi hætti að hagsæld þeirra ríkja þar sem jöfnuður er mikill sé meiri en hinna.

Nú kynnu stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar að svara því til að það sé þegar mikill jöfnuður á Íslandi og það er rétt að talsverður árangur hefur náðst, sérstaklega í því að jafna tekjur. En við erum samt með þá stöðu að ójöfnuður hefur aukist jafnt og þétt hér á landi þegar kemur að því hvernig auðnum er skipt.

Við erum með tölur frá þessu ári sem sýna okkur að ríkasta 1% íslenskra skattgreiðenda á 25% alls auðsins. Ef við tökum ríkustu 10% þá eiga þau næstum því 75% alls auðs á Íslandi. Svo erum við með stóra hópa sem eiga minna en ekki neitt, þ.e. skulda meira en þeir eiga. Þetta er ójöfnuður sem elur af sér meiri ójöfnuð og það er annað sem við þurfum að hlýða á, og gengur núna í alþjóðlegri umræðu, að þeir sem eiga mestan auðinn hafa líka mestu tækifærin til að auka við þann auð.

Það eru auðvitað leiðir til þess að berjast gegn slíkri misskiptingu og ein þeirra leiða er að nýta skattkerfið til jöfnunar, til dæmis að nota tekju- og skattstofna á borð við auðlegðarskattinn. Þarna liggur grundvallarágreiningur, ekki bara í íslenskum stjórnmálum heldur líka annars staðar í heiminum, en ég er þó nokkuð hissa á því að íslensk stjórnvöld hlusti ekki meira eftir því þegar stofnanir á borð við OECD koma með svona leiðbeiningar. Það er það sem við erum að sjá annars staðar í Evrópu og á Vesturlöndum að farið er að ræða þessi mál af mun meiri alvöru. Það er verið að ganga fram fyrir skjöldu, eins og ég segi: Hagfræðingar sem seint mundu teljast til hins róttæka vinstris segja að ekki þurfi bara að beita skattkerfinu til jöfnunar innan ríkjanna, það þarf að beita því á milli ríkjanna. Við sjáum að fjármagnið ferðast á milli landa og þar opnast allar dyr — það virðist vera að för fjármagnsins í þessum heimi sé á einhvern hátt frjálsari en för fólksins eins og við sjáum um þessar mundir — og þess vegna þarf samstarf ríkja til þess að sporna gegn þessari misskiptingu, þ.e. ef Vesturlönd vilja halda sínum sessi sem samfélög þar sem er mikill jöfnuður og þar sem hagsæld er mikil.

Um þetta snýst ágreiningurinn og þess vegna lýsi ég hér með andstöðu minni við það að fækka þrepum í skattkerfinu. Til viðbótar má svo spyrja hvort skynsamlegt sé að ráðast strax í skattalækkanir. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson fór aðeins út í þá umræðu, sem býr því að baki. Ljóst er að þó að skatttekjur hafi aukist verðum við líka að átta okkur á því að þegar hér varð hrun árið 2008 má segja að ýmsir skattstofnar hafi sofnað. Þeir eru að vakna núna, sem betur fer, af því að erum að horfa á bjartari tíma í efnahagsmálum og ríkisfjármálum. En ég tel engan veginn að tímabært sé að ráðast í skattalækkanir, það tel ég ekki vera. Í sjálfri kerfisbreytingunni kristallast pólitískur ágreiningur um það hvernig samfélag við viljum reka.

Ég spurði hæstv. ráðherra áðan um það hvernig verðlækkanir hefðu skilað sér. Þar sem hæstv. ráðherra eyddi talsverðri stund í að ræða afnám tolla í ræðu sinni sem talsverða kjarabót fyrir almenning þá held ég að það sé nú svo að ef stjórnvöld ákveða á hverjum tíma að ráðast í aðgerðir, hvort sem það eru skattalækkanir, virðisaukaskattsbreytingar, niðurfellingar tolla með það að markmiði, eins og hér var sagt, að það ættu að vera kjarabætur fyrir almenning, þá hlýtur það líka að vera á ábyrgð stjórnvalda að fylgjast með því að þær kjarabætur skili sér.

Það er rétt sem kom fram í máli hæstv. ráðherra, það var dálítið erfitt að mæla það hvernig síðustu virðisaukaskattsbreytingar skiluðu sér í verðlagið, en það er líka vegna þess meðal annars að ráðist var í slíkar breytingar um áramót, sem var gagnrýnt talsvert á sínum tíma, það væri erfiður tími til mælinga, á tímum sem útsölur stæðu yfir og annað slíkt sem hefði líka bein áhrif á verðlag. Ef við erum að nýta þetta sem rök í umræðu um að breytingar á sköttum, tollum og öðru slíku eigi að skila sér í kjarabótum til almennings, sem það getur vissulega gert, þá þurfa stjórnvöld auðvitað að hafa virkt eftirlit með því. Mér finnst ekki hægt að vísa ábyrgðinni á hendur neytendum eða verkalýðshreyfingunni sem annast verðlagseftirlit, við þurfum þá að átta okkur á því og fá það nokkuð nákvæmlega skilgreint hvort þær breytingar sem verið er að greiða atkvæði um hér í þessum sal með ákveðnum röksemdum hafi skilað þeim árangri sem til var ætlast.

Þetta tengist ákvörðunartöku almennt hér í þinginu. Hér er oft verið að taka ákvarðanir með einhver sjónarmið að leiðarljósi sem allir geta sagt að séu bara nokkuð göfug og eigi rétt á sér, en síðan er því ekkert fylgt eftir. Því er ekkert fylgt eftir hvort markmiðin hafi skilað sér. Mér finnst þetta mikilvægt. Þó að þetta sé kannski ekki grundvallarmál pólitískt þá snýst þetta um vinnubrögð Alþingis, hvernig við vinnum, hvað við gerum, hvernig við fylgjum ákvörðunum okkar eftir. Ekki er nægjanlegt að taka einhverjar ákvarðanir hér, hvort sem það er meiri hlutinn eða allir sem taka þær ákvarðanir, og segja svo: Þetta hlýtur að skila sér. Það er engin aðferðafræði til að vinna eftir.

Ég gerði opinbera fjárfestingu aðeins að umtalsefni áðan. Ég hef áhyggjur af því hversu lág hún er í sögulegu samhengi, sérstaklega í ljósi þess að fjárlagafrumvarpið sem nú liggur fyrir — þó að þar sé búið að boða fjárfestingu á sviðum rannsókna og nýsköpunar, sem ég fagna, sjáum við til að mynda þessa afar mögru samgönguáætlun, sem er heldur magrari en þegar hæstv. innanríkisráðherra setta hana fram í vor og kemur engan veginn til móts við breytingartillögu þáverandi meiri hluta í umhverfis- og samgöngunefnd, hvað þá breytingartillögu minni hlutans, sem bættist ofan á.

Þetta er mál sem er rætt um allt land og snýst um opinbera fjárfestingu. Ég ítreka að ég held að hafa þurfi aðeins metnaðarfyllri framtíðarsýn þegar kemur að opinberum fjárfestingum sem birtist í þeirri langtímaáætlun sem þessi frumvörp hér byggjast á. Metnaðarfyllri framtíðarsýn þegar við horfum upp á innviði þar sem þurft hefur að spara á undanförnum árum, þar sem ekki hefur verið svigrúm til að bæta í innviðina, þar þarf að bæta úr.

Í ljósi þess sem ég nefndi áðan með atvinnuvegafjárfestinguna velti ég aðeins fyrir mér og ég spurði sérstaklega um það á fundi efnahagsnefndar í gær hvað þessi mikla atvinnuvegafjárfesting innihéldi. Þá voru þessi stóru verkefni nefnd. Við sjáum gríðarlega atvinnuvegafjárfestingu innan ferðaþjónustunnar núna, þar nægir að nefna allar þær hótelbyggingar sem verið er að reisa, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu heldur víða um land. En þar þarf líka að bæta hlut hins opinbera og þar þarf hugsanlega hreinlega að endurskoða hvernig hið opinbera leggur fjármagn — hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur bent á að ekki hafi náðst að koma með mótframlög á móti öllum þeim framkvæmdum sem sótt hefur verið um í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Þurfum við þá ekki aðeins að velta fyrir okkur hvort það sé endilega rétta leiðin til að ná að byggja upp innviði fyrir ferðaþjónustu í ljósi þess að við sjáum mjög mikla þörf víða um land?

Ég þykist vita að hv. þingmenn, eins og sú sem hér stendur, hafi nýtt sumarfríið til þess að ferðast um landið og taka stöðuna á vinsælum ferðamannastöðum. Það er alveg ljóst að þar þarf að ráðast í innviðafjárfestingu og mér finnst ekki hægt að bera forminu við til að segja að ekki verði bætt í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, sérstaklega þegar við erum að horfa upp á þessa lágu opinberu fjárfestingu.

Ég velti ýmsu fyrir mér þegar við skoðum skattstefnuna, svo að ég komi aftur að henni, sem hér birtist. Fram kemur hér að kerfisbreytingarnar muni sérstaklega hafa áhrif á millitekjuhópana og áhrifin verði mest við þrepamörk efra þrepsins eða við 700 þús. kr. á mánuði en nefnt er að meðallaunatekjur einstaklinga séu um það bil 600 þús. kr. á mánuði. Það eru meðaltekjur. Ef við tækjum miðgildi tekna og bærum það saman væri þetta líklega talsvert lægra. Stóra spurningin, sem ég sit eftir með, eftir að hafa farið yfir fjárlagafrumvarpið annars vegar og þennan tekjubandorm hins vegar, er sú staða sem við horfum upp á í samfélaginu. Núna eru til dæmis einstök aðildarfélög, sem standa í kjarasamningum við ríkið, að halda baráttufund seinna í dag og minna á sig, vilja fá kjarabætur sambærilegar þeim sem þeir aðilar sem settir voru undir gerðardóm fengu samkvæmt ákvörðun gerðardóms.

Það er djúpstætt ósætti í samfélaginu um það hvernig við getum skilgreint einhverja grunnframfærslu. Við höfum oft rætt það hér í tengslum við umræður um kjaramál að um kjaramál, til að mynda annars staðar á Norðurlöndum, standi miklu minni átök, að mun meiri sátt sé milli aðila um það hvernig eigi nákvæmlega að haga kjarabótum. Það tengist auðvitað beint inn í það hvernig við stjórnum efnahagsmálum og ríkisfjármálum okkar. Við horfum upp á það hér að gert er ráð fyrir hærri verðbólgu en gert er ráð fyrir í verðbólgumarkmiðum Seðlabankans. Við lýsum yfir ákveðnum áhyggjum af þenslu, af áhrifum skattalækkana á þenslu og ræðum það svo hvernig nákvæmlega þetta kemur út fyrir einstaklingana. En það sem við þurfum að ná sátt um, áður en við getum náð sátt um það hvernig við klárum kjarasamninga, er að við náum einhverri sátt um hvað við teljum ásættanlegt til að lifa af í samfélaginu.

Ég held að það sé kannski munurinn á okkar samfélagi og Norðurlöndunum, sem við berum okkur svo gjarnan saman við, að við erum með ákveðin framfærsluviðmið, opinber framfærsluviðmið, og síðan erum við með kjör, hvort sem við nefnum öryrkja og eldri borgara, sem nú hafa verið í umræðunni, eða lægst launuðu hópana, sem eru fjarri þessum framfærsluviðmiðum. Ef við horfum á stöðuna og skoðum þessi framfærsluviðmið þá eru þau jú vissulega að mæla hvað það kostar að lifa og síðan horfir fólk á launaseðilinn og þar er það með allt annan veruleika.

Sá stöðugleiki sem við óskum okkur, þ.e. að tekjubandormurinn, að fjárlögin endurspegli ákveðinn stöðugleika, lága verðbólgu, að við sjáum fram á framtíðarspá þar sem við teljum okkur hafa fyrirséð hvað muni bera við í efnahagsmálum þjóðarinnar — ég held að við náum honum ekki fyrr en við náum einhverri sátt um hvað við köllum grunnframfærslu í þessu landi og að kjör fólks séu í einhverju samræmi við það. Það er umhugsunarefni.

Mér finnst þetta vera stóra málið, það sem almenningur spyr okkur stjórnmálamenn um þegar við segjumst vera að ræða fjárlög; við erum að ræða vöxt og við erum að ræða afgang á fjárlögum, þá er það það sem fólk spyr um. Hvernig stendur á því að kjörin í landinu fylgja því ekki hvað það kostar að lifa? Mér finnst þetta vera úrlausnarefni fyrir okkur sem störfum í stjórnmálunum, hvernig við getum náð sátt um einhverja grunnframfærslu og náð að reka efnahagslífið með þeim stöðuga hætti að við þurfum ekki að horfa upp á annan vetur á borð við þann sem við áttum í fyrra þar sem mikið gekk á í kjaramálum þjóðarinnar. Ef við viljum leitast eftir því að ná svipuðum stað og önnur Norðurlönd hafa gert, eins og margir hafa sagt hér í ræðustól, þá held ég að þetta sé fyrsta skrefið.