145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[15:22]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þegar hv. þm. Kristján L. Möller var samgönguráðherra og mikil óáran ríkti var ráðist í meiri samgöngubætur og framkvæmdir en nokkru sinni fyrr í Íslandssögunni og mér er til efs að það verði nokkru sinni toppað.

Það var ekki bara vegna þess að hv. þingmaður var einóður um slíkar framkvæmdir og áhugamaður heldur vegna þess að ríkisstjórnin var þá að berjast um á hæl og hnakka við að skapa fjárfestingar, búa til fjárfestingar, búa til störf og þess vegna gerðu menn stórvirki í vegabótum þá.

Staðan er þannig núna að við sjáum að atvinnuleysi er líklegast komið niður í 4%, ætli það verði ekki komið niður í 2,7–3% á næsta ári, það er það sem við lítum svo á í dag að sé nánast jafnvægið í samfélaginu. Þetta hlutfall samfélagsins er endranær í því að skipta um störf. Við töldum áður, þegar ég var miklu yngri, að jafnvægisatvinnuleysi væri 1–1,5% en með svona flóknara samfélagi tel ég að þetta hafi hækkað.

Í reynd er ég að segja að við erum á góðri leið með að útrýma atvinnuleysi þannig að það er ekki sama nauður sem rekur til þess að ríkið ráðist beinlínis í framkvæmdir til að skapa atvinnu eins og við gerðum. Vitaskuld er það rétt hjá hv. þingmanni að ýmsar framkvæmdir eru mjög brýnar og þá verður að horfa sérstaklega til þess. En ég held að ekki sé rangt hjá ríkisstjórninni að halda heldur aftur af sér við samgönguframkvæmdir núna en ég er sammála hv. þingmanni um að viturlegt væri að teikna upp slíkar framkvæmdir þegar ljóst er að fjárfestingar í atvinnuvegunum munu heldur dvína.

Að því er varðar síðan skattkerfið og jöfnuð er ég sammála þingmanninum um það. Það er athyglisvert að reikna saman þær tölur sem verið er að minnka skatta um, 5 milljarða í fyrra, 8 milljarða núna, 5 milljarða í tolla. Hvað leggur þetta sig á? Upphæðina sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði hér í gær að þyrfti til að bæta kjör aldraðra og öryrkja til að þau stæðust samjöfnuð við lægstu laun.