145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[15:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég er sammála því að miklu skiptir að fyrirtækin leiti allra leiða til að koma sér í stöðu til að greiða hærri laun, það er grundvallaratriði að virk samkeppni sé um starfsfólk og gott verðlag í landinu, lægra verðlag, meiri framleiðni, en á endanum tel ég ljóst að þetta verður samstarfsverkefni. Það þarf að vera góður samstarfsgrundvöllur milli vinnuveitenda og launþegahreyfingarinnar um að ná slíkum markmiðum og stjórnvöld hér, þingið, ríkisstjórnin, í samvinnu við þessa aðila, þurfa til dæmis að skapa réttu hvatana þannig að greinar þar sem framleiðnin er meiri blómstri í landinu þannig að fleiri verðmæt störf verði til.

Ég ætla að leyfa mér að vekja athygli á skýringarmynd á bls. 32 í fyrra hefti fjárlagafrumvarpsins, sem við erum svo sem ekki að ræða núna, en þar er dregið upp hvernig launakostnaður á framleidda einingu hefur þróast á Íslandi síðastliðin ár. Sérstaklega er athyglisvert að sjá þetta tíu ár aftur í tímann en myndin nær þó aftur til ársins 1999. Þar kemur fram að launakostnaður hefur einmitt vaxið langt, langt umfram þennan kostnað við hverja framleidda einingu á Íslandi, langt umfram það sem gerst hefur annars staðar, sem er meginástæðan, eins og ég horfi á hlutina, fyrir hærra verðlagi hér og þar með hærra vaxtastigi.

Það er sammerkt með þeim þjóðum sem eru í efnahagslegum erfiðleikum að þar hefur að jafnaði verið gengið lengra í launahækkunum sem hlutfalli á móti framleiðsluaukningu en í löndum þar sem meiri stöðugleiki ríkir og kaupmáttur hefur verið traustari. Þá vísa ég til dæmis til Þýskalands.

Þetta breytir því ekki að ég get tekið undir með hv. þingmanni að það er ekki þannig að fyrirtækin geti verið stikkfrí og bara lagst aftur í sófann og sagt: Heyrðu, ef laun hækka þá bara veltum við því öllu út í verðlagið. Menn verða að standa sig og þar skiptir samkeppnin máli.