145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[15:49]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum alveg hjartanlega sammála um það, ég og hæstv. ráðherra, að samkeppni er af hinu góða, mjög svo af hinu góða.

Ég vil nefna hvað varðar þá mynd sem hann benti á í fylgiritinu með fjárlagafrumvarpinu að formaður efnahags- og viðskiptanefndar hafði mjög miklar efasemdir um að hún gæti verið rétt á kynningarfundi sem haldinn var í gær. Ég ætla svo sem ekki að fara út í það.

Ég gerði hins vegar þær athugasemdir við myndina að ég vildi ekki endilega sjá hvernig breytingin hefði orðið, heldur vildi ég gjarnan sjá hvert hlutfall launakostnaðar er hér miðað við það sem gerist í útlöndum. Hver er munurinn á launum á Íslandi og í útlöndum? Hver er munurinn á því hvað fólk fær í laun á Íslandi og hvað það þarf að borga fyrir matarkörfuna á Íslandi? Munurinn er slíkur að unga fólkið fer og það kemur hingað til að eiga hér sumarhús. Er það þjóðfélagið sem við ætlum að byggja upp? Nei, takk.