145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[15:58]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Rétt út af þessu síðastnefnda þá mun tryggingagjaldið lækka um næstu áramót um 0,14% í samræmi við áður lögfestar breytingar á því. Ég skil vel að menn velti fyrir sér hvers vegna það lækki ekki meira og áherslurnar hafi verið aðrar. Satt best að segja var verið að vinna með þá hugmynd á fyrri hluta þessa árs að leggja jafnvel meiri áherslu á lækkun tryggingagjalds en aðra skatta í ljósi þess hvernig horfur voru á þeim tíma í ríkisfjármálum. Síðan hefur staðan batnað nokkuð og það sem kannski mestu skiptir er að þetta tengist sterkt niðurstöðu kjarasamninganna, þ.e. það var mikilvægt til þess að loka kjarasamningalotunni að sýna á spilin varðandi tekjuskattsbreytingar. Ég vil taka fram hér að þetta er í mjög eðlilegu og beinu framhaldi af áður boðuðum breytingum á tekjuskattskerfinu þannig að það var mér í sjálfu sér mjög að skapi að stíga þessi skref núna. Ég nefni þetta vegna þess að ég er sammála því sem hv. þingmaður segir að það skiptir máli að finna leiðir til að lækka tryggingagjaldið áfram. Við mátum það svo að þetta væri betri forgangsröðun að þessu sinni og að við ættum ekki að ganga lengra í lækkun skatta eða gjalda í þessu fjárlagafrumvarpi en tryggingagjaldið verður áfram í forgangi.