145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[16:18]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Skattstefna Samfylkingarinnar er alveg skýr og stendur í samþykktum hennar. Við viljum þrepaskipt tekjuskattskerfi sem hefur það ríka hlutverk að afla ríkissjóði tekna. Við teljum að jöfnunarhlutverkið sé ekki síður mikilvægt og viljum passa að skattkerfið skili því einnig.

Það sem hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er að boða hér, með því frumvarpi sem við ræðum, er að dregið verði úr jöfnunarhlutverki skattkerfisins. Er hæstv. ráðherra ósammála því?

Mér finnst sjálfsagt að fara í skattalækkanir ef við erum þannig stödd að við getum gert það. Við stöndum nú frammi fyrir stórkostlegu vandamáli í heilbrigðisþjónustunni. Við erum með fjöldatakmarkanir í framhaldsskólum. Við ætlum að halda örorku- og ellilífeyrisþegum undir lágmarkslaunum, svo að dæmi sé tekið. Vegakerfið er í molum eftir að draga þurfti saman eftir hrun. Svona mætti lengi telja. Á meðan verkefnin eru næg tel ég ekki ástæðu til að fara út í skattalækkanir þó að mér finnist þær sjálfsagðar þegar staðan er þannig. En jöfnunarhlutverkið vil ég varðveita og það viljum við í Samfylkingunni.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra bara á móti: Finnst honum við vera komin á þann stað með velferðarkerfið, með stöðu öryrkja og ellilífeyrisþega, með stöðu framhaldsskólanna, að við getum dreift þúsundköllum til þeirra sem betur eru staddir í samfélaginu, ekki bara með þessum breytingum heldur með öðrum breytingum sem hægri stjórnin hefur staðið fyrir?