145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[16:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þegar Samfylkingin lagði til að við mundum lækka skattinn á laun frá 250–350 þús. kr. þá hefði það líka gerst fyrir laun sem eru þar fyrir ofan. Á meðan menn voru að skríða yfir það 100 þús. kr. bil hefðu menn fengið lægri skatta á laun sín og það hefði skilað sér upp allan launastigann.

Hér er spurt hvort við höfum efni á því að lækka skatta á sama tíma og margir eiga erfitt með að ná endum saman. Ég segi: Við getum gert hvort tveggja. Við erum að bæta kaupmátt öryrkja og við erum að bæta kaupmátt ellilífeyrisþega. Þurfum við að gera betur? Já, við þurfum að gera betur. Við þurfum að gera það á hverju ári, smám saman, að hækka kaupmáttinn og hafa fyrir því traustan, sterkan grunn í efnahagsmálum sem við erum að leggja fram hér með langtímaáætlun í ríkisfjármálum. Þá munum við geta aukið kaupmáttinn á hverju ári og bætt stöðu þessara hópa.

Við erum að gera mjög mikið strax á næsta ári. Við bættum kaupmátt þessara hópa árið 2014. Það gerðist líka á þessu ári og mun gerast út árið og svo erum við að hækka bætur verulega um næstu áramót, meira en áður.

Svar mitt er þess vegna: Já, það er augljóslega tími núna til að lækka skatta. Það er ágætt að það komi bara skýrt fram að Samfylkingin telur hvorki efnahagslegar aðstæður til staðar til að lækka skatta né heldur að við eigum að nýta það svigrúm sem er í efnahagsmálum til þess að fara í slíkar aðgerðir, við eigum frekar að hækka útgjaldastigið. Þar erum við ósammála. Ég held við verðum að fara varlega í að auka mjög á útgjaldastig ríkisins. Ég hef heyrt hugmyndir um að menn eigi að fjármagna það með frekari skattahækkunum. Það er kannski ágætt að það komi bara fram hér í umræðunni að sá reginmunur er á efnahagsstefnu okkar og stjórnarandstöðunnar, að því er mér virðist, að hún vill hækka skatta. Þegar eru nokkur frumvörp komin fram. Formaður Samfylkingarinnar boðaði hér í gær aukna skatta á ferðaþjónustuna og aðra slíka. Á sama tíma erum við að draga úr sköttum og láta tímabundna skatta falla niður, sem voru lagðir á við mjög erfiðar aðstæður í efnahagsmálum, og svo erum við að lækka aðra (Forseti hringir.) skatta. Í þessu kristallast kannski áherslumunurinn á milli stjórnar og (Forseti hringir.) stjórnarandstöðu. Við viljum lækka skattana, hinir ætla að hækka þá.