145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[16:23]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra að þarna liggur munurinn á milli hægri manna og vinstri manna. Þegar hægri menn telja stöðuna vera þá að við séum komin út úr hruninu, eftir það sem þá gerðist, þann niðurskurð sem við þurftum að fara í og veikingu á stoðum velferðarkerfisins við hrunið, og við séum komin á þann stað að við getum lækkað skatta og auðvitað eigi að byrja á að lækka skatta hjá ríkasta fólkinu í landinu, á útgerðinni sem malar gull og svo af stóriðjunni. Þetta eru forgangshóparnir sem hægri stjórnin vill lækka skatta á. Það er hins vegar sjálfsagt að halda öryrkjum og ellilífeyrisþegum undir lágmarksviðmiðum.

Það er áreiðanlegt að þarna liggur munurinn á milli áherslna hægri stjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar. Ég held að það hafi komið skýrt fram í þeim umræðum sem við höfum átt hér í dag.

Við viljum þrepaskipt tekjuskattskerfi. Mér finnst góður möguleiki á því að skoða bilin á milli þrepa. Mér finnst líka sjálfsagt að athuga hvernig það kemur út fyrir fólk að fjölga þrepum, en það er glapræði og mikið tilgangsleysi að rétta fólki sem er með milljón á mánuði 3 þús. kr. og vera síðan með þjóðarsjúkrahúsið þannig að myglusveppur grasserar af því að ekki er hægt að setja 1,5 milljarða í viðhald þar, svo dæmi sé tekið. Við erum í vandræðum út um allt í velferðarkerfinu, en hægri stjórninni finnst forgangsverkefni (Forseti hringir.) að hæstv. fjármálaráðherra og ég og Kári Stefánsson fáum 3 þús. kr. meira í budduna (Forseti hringir.) á mánuði.