145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[16:25]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er svo sannarlega hægt að segja að hér hafi átt sér stað áhugaverðar umræður í dag um þetta tekjuskattsfrumvarp og fjárlagafrumvarpið sem slíkt eins og gefur að skilja enda eru kannski helstu áherslurnar sem þar birtast akkúrat tekjuforsendurnar. Þær felast meðal annars í fyrirhuguðum skattalækkunum sem hér voru ræddar rétt áðan og ég verð að segja það og hef sagt það áður að ég skil ekki hvernig hægt er að tala um hallalaus fjárlög, hvernig hægt er að tala um afgang af ríkissjóði þegar við erum svona vanfjármögnuð langt inn í framtíðina. Það eru innviðir okkar, næstum því hverjir sem þeir eru, hér var síðast nefnd velferðarþjónustan, sjúkrahúsin, ekki bara Landspítalinn heldur víða. Auðvitað er allt til góða sem gert er, 100 milljónir settar í heilsugæsluna, það er ekki verið að halda því fram að það sé ekki af hinu góða en það þarf bara miklu meira. Það á líka við um almannatryggingarnar, samgöngumálin og menntamálin. Við erum í raun ekki risin úr ösku hrunsins, ekki að fullu þó að við höfum stöðugt verið að færast upp á við frá því að hér var hafist handa 2009. Við erum ekki komin á þann stað að við getum leyft okkur að afsala okkur tekjum eða lækka skatta sem kemur sumum betur en öðrum eins og hér hefur verið rakið svo vel. Það er alveg skýrt að það er ekki stefna okkar vinstri grænna að fækka skattþrepum eins og hér er lagt upp með og hefur komið skýrt fram.

Hér er svolítið gumað af góðu gengi og því er ástæða til að ræða það að í frumvarpinu er gert ráð fyrir mun meiri verðbólgu en stofnanir fá bætta með uppfærslu vegna verðlags sem er 3,78%, en það er gert ráð fyrir 4,5% verðbólgu. Hvað þýðir það í rauninni? Erum við að tala um að það eigi að beita niðurskurði eða svokölluðu aðhaldi eins og svo gjarnan er sagt núna? Bankastofnanir eru líka enn þá að fá töluvert mikið til sín sem felst m.a. í því að hér hefur ekki verið tekið á verðtryggingunni eða ekki tekið á því hvort hægt sé að festa t.d. prósentuna á milli innlána og útlána til að reyna að stemma stigu við því. Það er athyglisvert að frumjöfnuðurinn mun ekki batna nema um 20 milljarða fram til ársins 2019 sem er ekki nema 0,2% af vergri landsframleiðslu. Fjármagnskostnaður lækkar ekki nema um 12 milljarða, vissulega er það mjög gott en ekki mikið miðað við þær miklu yfirlýsingar sem hér hafa fallið um niðurgreiðslu skulda og annarra þátta. Þá veltur maður því fyrir sér hvort það sé þá staðreynd að hér eigi að selja ríkiseignir, hvort sem það er Landsbankinn eða Landsvirkjun eða hvaða aðrar eignir sem ríkið á, því að einhvers staðar þarf að taka þessa peninga.

Svo er það þetta bil sem hér verður til, eins og hér var talað um áðan, það er tugir milljarða, ekki einungis vegna þeirra tekna sem þegar er búið að afsala sér vegna þess að ákveðið hefur verið að framlengja ekki tiltekna skatta heldur líka vegna þeirra skattalækkana sem hafa komið fram nú þegar og eiga að ganga í gildi á næsta ári. Þá er verið að hvetja hér til mikillar þenslu, mikillar einkaneyslu ef hún á að brúa þetta bil, þá tugi milljarða sem tekjutap ríkissjóðs nemur í raun og veru miðað við að þetta nái allt saman fram að ganga. Arðgreiðslur fara minnkandi, við vitum það líka, það er alveg ljóst að þær hafa verið í hæstu hæðum. Þetta bil hlýtur að verða brúað eins og ég nefndi með því að selja ríkiseignir.

Það er heldur ekki að ástæðulausu sem hér hefur enn og aftur verið vakin athygli á því að þeir sem betur standa í samfélaginu njóta góðs af því sem ríkisstjórnin ætlar að fara fram með því að það er beinlínis sett fram í fjárlagafrumvarpinu, í Stefnum og horfum, og í þessum bandormi sem við ræðum hér, þetta er bara sýnt myndrænt og eðli málsins samkvæmt ræðir fólk það.

Frumtekjurnar lækka um 2,5% á næstu fjórum árum þannig að það lítur út fyrir það að stefna hægri stjórnarinnar sé að eyða æ minna af tekjum okkar í sameiginlegan rekstur heilbrigðis-, mennta- og velferðarkerfis. Við verðum líklegast með lægstu frumútgjöld allra Norðurlandanna og jafnvel lægri en Bretland. Það er auðvitað í takt við það sem þau samfélög hafa orðið fyrir sem hafa verið undir svona mikilli hægri stjórn til langs tíma.

Varðandi fjárfestinguna var einmitt vakin athygli á því fyrr í dag og á fundi fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar í gær að hún rétt hangir í 1 eða 1,5% af vergri landsframleiðslu. Við erum að draga úr viðhaldi og hér er einungis gert ráð fyrir stóriðjuframkvæmdum en t.d. ekki öllum þessum hótelbyggingum sem hér er verið að reisa sem eru meiri og stærri en t.d. framkvæmdir á Bakka í krónum og aurum. Það er auðvitað svolítið sérstakt að inn í forsendurnar sé alltaf tekin bara stóriðjustefnan en ekki einhverjar aðrar mælingar í atvinnuvegafjárfestingu, t.d. í nýsköpun eins og ég sagði eða hótelbyggingum, sem ég hef reyndar miklar áhyggjur af. Það er ekki síst í ljósi þess ef gengissveiflurnar verða miklar hefur maður áhyggjur af því að ferðaþjónustan verði orðin of skuldsett í ljósi þess sem ég var að segja. Ég held að það sé mjög raunverulegt áhyggjuefni af því að ferðamönnum fjölgar ekki endalaust. Það er mjög aðkallandi að við fáum fram einhverja almennilega hagtölugerð fyrir ferðaþjónustuna, hvernig staðan er í rauninni í þessari stefnumótun.

Eins og ég sagði áðan var ákveðnum tekjum afsalað og það að manni sýnist að hlutirnir séu að fara í sama kunnuglega horfið er kannski meðal annars fólgið í því að arður og söluhagnaður var hár liður í fjárlagagerðinni fyrir hrun en féll svo niður um það leyti sem að við urðum nánast gjaldþrota þjóð. Nú er þetta aftur á uppleið og orðið 60% af heildartölunni þannig að það er raunveruleg ástæða fyrir því þegar fólk talar um að því finnist við vera að hverfa svolítið aftur til þess sem áður var. Það má líka halda því til haga af því að þessari ríkisstjórn hefur verið frekar illa við auðlegðarskattinn að hann er enn að skila inn á næsta ár, það eru svona eftirhreytur sem skila um það bil milljarði. Þannig að það kemur sér enn til góða hjá þessari ríkisstjórn sem nýtur þess að hafa úr því að spila.

Varðandi forgangsröðunina getum við auðvitað talað lengi og mikið um að verið sé að gera betur við þá sem betur standa. Það er gert ráð fyrir 3% hækkun á viðmiðunarfjárhæðum til barnabóta og það segir hér um vaxtabótareglur, með leyfi forseta:

„Að óbreyttum lögum munu því vaxtabótareglurnar færast í sitt fyrra horf um næstu áramót og við það mun stuðningur ríkissjóðs í formi vaxtabóta dreifast á fleiri fjölskyldur, þ.e. fjölskyldur sem ekki njóta bóta í dag, en á sama tíma lækka bætur þeirra fjölskyldna sem notið hafa hámarksbóta (tekjulágar og eignalitlar fjölskyldur).“

Þegar hlutirnir standa svona svart á hvítu í frumvarpi sem hægri stjórnin ber hér fram er tæplega hægt að bera á móti því þegar stjórnarandstaðan á þingi heldur því fram að verið sé að gera betur við þá sem betra hafa það.

Það eru auðvitað eitt og annað í þessu frumvarpi sem vert er að rekja, t.d. umboðsmaður skuldara, ég hef haft áhyggjur af því að verið sé að skera hann of skart niður. Ég tel að við séum ekki komin alveg á þann stað enn þá. Þá eru það almannatryggingar, sem er liður 3.18, ég held að frítekjumarkið þyrfti að hækka í takt við launaþróun, en það er núna 109.600 kr. á mánuði. Það er í raun það eina sem hlýtur að geta talist sanngjarnt að gera. Í ljósi þess að við erum alltaf að fjölga þeim til þátttöku sem eiga við örorku að stríða þá má það ekki vera svo að fólk geti ekki sinnt sáralitlu starfi öðruvísi en að verða skert, það er ekki hvetjandi. Við viljum reyna að búa til hvetjandi kerfi.

Ég verð líka að segja um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða að ég er ekki sammála þeirri nálgun sem ráðherra málaflokksins hefur haldið fram, að ekki hafi verið hægt að nýta þær fjárheimildir sem samþykktar hafa verið vegna seinagangs eða annars hjá þeim sem þessa fjármuni áttu að fá. Það er vegna þess að það er ákveðið á fjáraukalögum, ákveðið á ríkisstjórnarfundi, ekki gegnum fjárlög, að veita fjármuni í þetta. Þetta kemur seint fram sem verður til þess að þeir aðilar sem hafa hugsað sér að fara í einhverjar úrbætur fá jafnvel ekki mannskap til þess eða eitthvað annað stendur í vegi, en það er ekki vegna seinagangs, alla vega ekki samkvæmt þeim sem ég hef heyrt í.

Hér hefur mikið verið rætt um tekjuskattinn og það þarf svo sem ekki að fara nánar ofan í það, það hefur verið gert ítarlega. Mig langar að velta upp hér 42. og 43. gr., þar er Framkvæmdasjóði aldraðra enn þá ætlað að kosta rekstur hjúkrunarrýma. Ég hefði viljað sjá það fellt niður, því breytt. Þetta fé er auðvitað fyrst og fremst ætlað í nýbyggingar eins og við þekkjum en ekki í rekstur. Það þarf að byggja upp þennan sjóð og þessi nýting er auðvitað ekki samkvæmt reglum og lögum um hann heldur er þetta frávik. Ég held að við hefðum átt að nýta tækifærið og lagfæra það.

Í lokin verður maður að lýsa miklum vonbrigðum með ákveðna þætti eins og fjarskiptamálin, að þar sé ekki sett meira í. Miðað við það sem er áætlað hér og ef framlögin verða um það bil svona þá held ég að það verði á næstu 20 árum sem fjarskiptamálin verði komin í viðunandi horf. Það er alveg ljóst að það þarf að bæta mjög mikið í þetta ef þetta á að vera í lagi, tryggja búsetu, tryggja jöfn tækifæri til atvinnu. Ég átti satt að segja von á því að sett yrði meira í þennan lið.

Það vantar líka tillögur um hvernig eigi að koma til móts við fólk sem býr við þungan lækniskostnað og þá meina ég ekki bara vegna þess að það þarf að leggjast á spítala heldur vegna þeirra sem koma langt að. Það er ekkert hér sem heitið getur sem fer inn í flugið, en um það skilaði nú þverpólitísk nefnd niðurstöðu. Ég hefði viljað sjá það hérna inni. Svo get ég auðvitað ekki látið hjá líða að ræða um Vegagerðina sem ég hef gert oft og mikið. Mér þykir það óskaplega dapurt að sjá eins og kom fram í máli hæstv. innanríkisráðherra að hún kemur til með að leggja fram áætlun þar sem gert er ráð fyrir mun minni framkvæmdum, bæði viðhaldsframkvæmdum og öðrum framkvæmdum, en í þeirri sem við sáum í vor og það, þegar við fáum á sama tíma myndir af hræðilegu ástandi á þjóðvegi 1 í Berufjarðarbotni, er eiginlega ekki nokkrum manni bjóðandi.

Virðulegi forseti. Nokkrir liðir að lokum. Ríkisstjórnin er að hækka sjálfa sig um 23 milljónir. Í samanburði hækka vasapeningar ellilífeyrisþega um 40 milljónir. S-merkt lyf lækka raungildi um 16 milljónir, ríkissaksóknari lækkar um 11 milljónir. Þetta er auðvitað ekki ásættanlegt og við þurfum að taka þetta til endurskoðunar þegar við fjöllum um þessi mál og fjárlagafrumvarpið.