145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[16:41]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps. Ég mun gera hér að umtalsefni m.a. breytingar á skattkerfi vegna þess að það er ljóst í þeirri umræðu sem hér er að í pólitík greinir fólk og flokka á um leiðir að markmiðunum. Það er nokkuð ljóst. Við sjálfstæðismenn og eins og sumir kalla hægri menn höfum alla tíð talað fyrir lágum sköttum og einföldu skattkerfi. Nú er verið er að taka önnur skref af þessari ríkisstjórn í lækkun skatta og þegar þau tvö skref sem hér eru kynnt til sögunnar verða að veruleika verður neðra þrep skattkerfisins 22,5% og efra skrefið verður í kringum 36%. Þessi skattbreyting, þessi einföldun á skattkerfinu kemur best þeim sem lágar hafa tekjur og millitekjur. Þeir sem eru með 700 þús. kr. á mánuði og þar fyrir ofan borga áfram það prósentustig sem er í dag.

Hér hefur enginn úr hópi vinstri manna verið sáttur við það sem verið er að gera, að það sé verið að lækka skatta á lágtekjufólk og millitekjufólk en halda skattprósentunni á 700 þús. kr. og þar fyrir ofan. Það er eiginlega með ólíkindum að heyra þetta samhliða því sem menn tala um að nýta eigi skattkerfið sem jöfnunartæki, þegar komið er til móts við lágtekjufólk og millitekjufólk þá á að gera hlutina einhvern veginn öðruvísi. En þessi breyting á miðþrepinu sem hér er kynnt, og það ættum við þingmenn flestir að vita, var ein forsenda þess að skrifað var undir kjarasamninga á síðastliðnu vori. Hún var ein af forsendum þess að skrifað var undir þá kjarasamninga.

Þess vegna segi ég: Í pólitík greinir menn á um leiðir að markmiðum. Við í Sjálfstæðisflokknum, hægri menn, viljum með þessari einföldun á skattkerfinu koma til móts við þá sem lægri hafa tekjur og millitekjur en halda sömu prósentu áfram í efra þrepinu, og reyndar er bilið lækkað úr 840 þús. kr. ef ég man rétt niður í 700 þús. kr. fyrir þá sem greiða þá í efra þrepinu, sem er þriðja þrepið í dag. Og þar að auki voru neðri viðmiðunarmörkin líka hækkuð í skattbreytingunum 2014.

Þessi ríkisstjórn lagði upp með það að einfalda skattkerfið og hér eru tekin stór skref í þá veru. Þessar skattbreytingar leiða til aukinna ráðstöfunartekna hjá öllum launþegum en þó kemur þetta sér sérstaklega vel fyrir millitekjuhópa. Ég fagna að sjálfsögðu þessum skattbreytingum og tel þær af hinu góða og hefði jafnvel viljað sjá gengið lengra í þá veru.

Mig langar líka að nefna að í síðustu fjárlögum voru vörugjöld afnumin og nú er verið að taka annað skref. Tollar verða felldir niður af fleiri vöruflokkum og það mun væntanlega skila fólkinu í landinu, sama hvort það er á lágum tekjum eða háum tekjum, auknum ráðstöfunartekjum. Margir vilja gera hlutina öðruvísi og það er þá fínt, en við sem erum hlynnt því að afnema vörugjöld og afnema tolla fögnum að sjálfsögðu þessum breytingum. Það hefur verið rætt um að fyrra skrefið muni ná til fatnaðar og skófatnaðar og síðara skrefið til annarrar vöru. En þá hafa menn komið hér og sagt að hér sé ekki verið að lækka tolla á matvörum. Það er ekki sérstaklega verið að fagna því að verið sé að lækka tolla á fatnaði og skófatnaði. Nei, það er ekki verið að lækka tolla á matvöru en staðreyndin er hins vegar sú að æðimargar tegundir matvöru eru án tolla. Hins vegar er kannski grundvallaratriðið í því þegar fólk í þessum sal segir að ekki sé verið að lækka tolla á matvöru að við erum að tala um landbúnaðarafurðir. Það er sjálfsagt grunnurinn og það er bara allt önnur umræða sem þingmenn sem og þjóðin þarf að taka hvort menn vilji vernda íslenskan landbúnað og þá með tollum, verðtollum og magntollum eða hvort menn vilja fara aðrar leiðir. Ég er ein þeirra sem vilja að lækkaðir verði bæði magntollar og verðtollar af innflutningi matvara, kjöts og osta og fleiri vara, vegna þess að ég hef tröllatrú á íslenskum landbúnaði og ég held að hann og gæði hans muni alltaf standa fyrir sínu. En það er umræða sem á að taka á öðrum stað, ekki í tengslum við almenna lækkun tolla heldur það hvort við viljum fara í gerbreytingu á tollum á landbúnaðarafurðum almennt og þá hvernig. Í flestum löndum sem við berum okkur saman við þá er landbúnaður varinn með einhvers konar ríkisstyrkjum á sama hátt og gert er hér með ríkisstyrktum landbúnaði og við verjum sömuleiðis með magntollum og verðtollum og ég segi það enn og aftur, ég er ein þeirra sem vilja gjarnan að það verði skoðað frekar.

Ég vil líka taka undir með hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur sem ræddi um vörugjöld af bifreiðum almennt, að þau verði einfaldlega lækkuð, ekki bara að við afnemum undanþágur á vörugjöldum. Það eru ekki vörugjöld og aðflutningsgjöld að ég hygg af t.d. rafmagnsbílum. Þeir njóta sérstöðu miðað við dísil- og bensínbíla og síðan hafa, eins og hér hefur komið fram, bílaleigur fengið undanþágu frá vörugjöldum og verið er að draga úr því í áföngum. Ég fagna því og einnig því að þetta sjónarmið hefur komið fram og tek heils hugar undir að það á að lækka vörugjöld af bifreiðum til einstaklinga, ekki bara til fyrirtækja og vegna atvinnutækja heldur og til einstaklinga og ekki bara sumra heldur allra.

Ég vil líka gera að umtalsefni breytingar á stimpilgjöldum en persónulega hef ég viljað ganga lengra. Ég vil að það komi fram við þessa umræðu að í reglugerð frekar en í lögum er fólki mismunað eftir sambúðarformi og það á við við skilnað. Ef fólk er skráð í sambúð og skilur og annar aðilinn kaupir hluta eignar af hinum þá ber að borga af því stimpilgjald þegar skráningunni er breytt. Ef fólk er í vígðri sambúð hvort heldur er af presti eða fógeta þá er þetta stimpilgjald ekki innheimt. Mér finnst fáránlegt að árið 2015 séum við að mismuna fólki við skilnað eftir sambúðarformi. Og af því að ég sé að hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar situr hér í salnum þá beini ég þeim orðum mínum til hv. formanns að hann fari gegn þessu og leiðrétti þennan mismun.

Framkvæmdasjóður aldraðra. Hér er gert ráð fyrir 3% hækkun á gjaldi og áfram verður heimilt að færa úr þessum sjóði yfir til rekstrar hjúkrunarheimila. Nú veit ég ekki alveg hvort það er almennt eða hvort það er til þeirra hjúkrunarheimila þar sem sveitarfélög hafa fjármagnað byggingu hússins og tekið lán fyrir allri byggingunni og borgað af því sem síðan kemur að ríkið greiðir ákveðin leigugjöld, hvort það sé hluti af því sem verið er að fjármagna með gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra. Ég tek hins vegar undir að það er ekki boðlegt til langs tíma, þótt við höfum einhvern tíma þurft að redda okkur á milli ára vegna lélegs árferðis, að færa úr stofnkostnaði yfir í rekstur. Það á bara yfir höfuð ekki að gerast.

Síðan sé ég hér í þessu frumvarpi að sóknargjald hækkar og þá væntanlega önnur gjöld til trúfélaga. Það breytir engu þótt ég sé hluti af þjóðkirkjunni og hafi alltaf verið og ekki hygg ég á að segja mig úr henni, mér finnst samt að þessu eigi að breyta. Það á hvorki að greiða sóknargjöld eða innheimta sóknargjöld né heldur að greiða það út úr ríkissjóði eða til annarra trúfélaga eða þess háttar. Þetta á bara að vera einkamál fólks og það á að sjá um það sjálft.

Eins og ég sagði í upphafi þá kristallast umræðan um þetta frumvarp til laga um forsendur fjárlagafrumvarps eftir flokkum, eftir áherslum í pólitík. Ég fagna því vegna þess að við erum kjörin hér inn af ólíkum hópum samfélagsins, af fólki sem hefur ólíkar pólitískar skoðanir. Og fólk með ólíkar pólitískar skoðanir á ekki alltaf hér í þessum sal að vera í einhverju málamiðlunarhlutverki, hvorki sjálfstæðismenn, samfylkingarfólk, vinstri grænir, framsóknarmenn né aðrir. Það á bara að kristallast hér á þingi þar sem fólk er kjörið inn vegna þess að það stendur fyrir ákveðnar pólitískar skoðanir, kristallast í atkvæðagreiðslum um mál að hér er pólitískur ágreiningur á milli flokka sem birtist í málefnum og nálgun málefna. Við eigum að vera órög við að láta þann pólitíska ágreining kristallast vegna þess að það er lýðræði í landinu og fólk getur þá kippt út fulltrúum ef það er ekki ekki sömu pólitískrar skoðunar.

Að lokum ætla ég að leyfa mér að fagna hér einu í fjárlagafrumvarpinu, ég tók ekki þátt í umræðunni þá, en það eru framkvæmdir á Alþingisreitnum. Ég fagna því að við ætlum loksins að hafa kjark og dug til að klára þá framhlið sem er hér við Alþingishúsið og á þeim gömlu húsum sem standa við hlið Alþingishússins og halda áfram endurgerð Skjaldbreiðar. Það held ég að verði þinginu til sóma. Miðað við þá fjárhæð sem hér liggur fyrir á að vera unnt að ljúka utanhússfrágangi hússins og hefjast handa við innanhússfrágang og miðað er við að endurgerð hússins verði að fullu lokið árið 2017. Ég held að þar sé Alþingi sómi sýndur.