145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[16:59]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá er það ljóst, þingmaðurinn vill halda þremur þrepum. Ég er andsnúin því og tel að þessi skattkerfisbreyting sem hér er komi einmitt lágtekjufólkinu til góða. Við breytingu á skattkerfinu árið 2010 var neðsta skattþrepið í 24,10%. Í dag og miðað við þær breytingar sem gerðar verða fer það niður í 22,5%. Það hlýtur að vera til bóta fyrir þá sem lægst hafa launin. Þar að auki hafa neðri viðmiðunarmörk neðra þrepsins verið hækkuð úr því sem var, 200 þúsund, í rúm 290 þúsund.

Ef þessi breyting á skattkerfinu og hækkun viðmiðunarmarka er ekki lágtekjufólki til góða er ég ótrúlega léleg í reikningi, sem ég held að ég sé ekki.