145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[17:06]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er bara staðreynd að sá sem hefur 1 millj. kr. á mánuði mun fá þrefaldan ávinning í krónum talið á við hinn sem hefur 300 þús. kr. á mánuði miðað við þær breytingar og þær forsendur sem kynntar eru í greinargerð með frumvarpinu.

Það er algerlega ljóst hvar hjartað slær hjá þeirri ríkisstjórn sem nú fer með völd. Forgangsröðunin sýnir það, hún er öll í þágu þeirra sem betur mega sín. Eins og við sjáum er mulið undir hátekjufólk og þetta eru aðgerðir sem koma til viðbótar við afslátt af veiðigjöldum sem stórútgerðinni er fenginn, við ráðaleysi sem uppi er í málefnum ferðaþjónustunnar sem þó er öflugasti atvinnusprotinn í samfélagi okkar, ein öflugasta stoðin. Það er allt á sömu bókina lært og ég verð að segja eins og er að það er hálfátakanlegt (Forseti hringir.) að sjá þessar áherslur miðað við öll þau brýnu verkefni sem uppi eru í velferðarmálum og annarri innviðauppbyggingu.