145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[17:11]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki viss um að þetta hafi verið andsvar en ég vil bara þakka hv. þingmanni andsvarið og ég er glöð að við skulum vera fleiri sem viljum að það kristallist hugmyndafræðilegur ágreiningur í nálgun mála í pólitík. Okkur greinir á um leiðir að markmiðum en við sem hér erum höfum væntanlega öll það að markmiði að búa til sem best lög fyrir þá sem eiga heima í landinu, það er okkar hlutverk númer eitt, tvö og þrjú, en pólitískur ágreiningur um leiðir er alltaf fyrir hendi.

Ég fagna því sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði hér og ég mun halda áfram að taka undir með honum tali hann í þessa veru.