145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[17:35]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að við eigum líka að láta börnin okkar njóta þess, ég tel að við eigum að láta framtíðina njóta þess og það getum við gert með því að fjárfesta í innviðum sem eru að grotna niður þannig að það verk bíði ekki komandi kynslóða. Það getum við gert með því að borga bara einfaldlega hraðar niður skuldir þannig að valkostirnir eru margir. Það er ekki hægt að afgreiða umræðuna bara út af borðinu með því að auðvitað eigum við að gera vel við okkur sjálf á líðandi stundu. Við berum dálitla ábyrgð, menn nú á dögum og ráðandi kynslóð í þessu landi, á því sem hér gerðist. Mér finnst ekki alveg tímabært að við förum aðallega að hugsa um okkur sjálf og látum framtíðina algerlega öðrum eftir.

Það er auðvelt að telja upp þá sem fengu á sig langmestar skattahækkanir á síðasta kjörtímabili. Það voru auðmenn Íslands, 3–4 þúsund ríkustu fjölskyldurnar og einstaklingarnir í landinu sem fengu auðvitað á sig hressilega skattahækkun. Það var hátekjufólk sem fékk á sig fulla hækkun efsta þrepsins í þrepaskiptum tekjuskatti. Og það voru fjármagnstekjuhafar sem voru með miklar fjármagnstekjur og frítekjumarkið nýttist lítið fyrir. Þeir fengu á sig tvöföldun á skatti fjármagnstekna. Og millitekjuhópurinn, jú, vissulega hækkuðu skattar nokkuð á efri millitekjuhóp en þó mun minna og tekjulægstu einstaklingunum var með öllu hlíft við skattahækkunum. Reyndar kom það á daginn að skattbyrðin þar lækkaði heldur sem var ekki beinlínis markmiðið heldur að hafa það á núlli, svo þessu sé til haga haldið.

Hæstv. fjármálaráðherra getur vissulega talið upp ýmsa málaflokka sem fá ágætisúrlausn eða verulega úrbót sinna mála. En það eru aðrir hlutir sem er ekki mikil hamingja með. Hvað með fæðingarorlof sem ekki er lyft einu einasta hæti við? Hvað með vaxtabætur sem hríðfalla? Það er enn fólk sem finnur verulega fyrir afborgunum af húsnæðislánum, tekjulágt fólk sem mundi njóta þess vel að sett væri aðeins meira í vaxtabæturnar.(Forseti hringir.) Hvað með hlut aldraðra og öryrkja sem ekki fá sambærilegar hækkanir á sínum lífeyri og lægstu laun hækka um?