145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[17:39]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki fjarri því að þetta séu 50 milljarðar, þetta eru nafnverðstölur sem ég lagði saman, að vísu bara mjög lauslega, yfir síðastliðin tvö og hálft ár. Þetta yrði að minnsta kosti mjög fljótt að 50 milljörðum vegna þess að þessir tekjustofnar eins og aðrir eru vaxandi og gæfu fljótt meira af sér.

Segjum að við skiptum þessu í þrennt eða fernt. Við segðum að einn þriðja eða einn fjórða af þessu ætluðum við að setja í fjárfestingu í framtíðinni beinlínis, í innviðum, í samgöngum, í fjarskiptum og undirstöðuhlutum til að reka heilbrigði- og menntakerfið o.s.frv. Segjum að við settum þá einn þriðja eða einn fjórða í lækkun skulda. Við segðum: Við byrjum bara strax á því, setjum einn fjórða, ef það á að fara upp í fjórðungana, í að hefja inngreiðslur á lífeyrisskuldbindingar framtíðarinnar. Við eigum ógreiddan reikning upp á 430 milljarða plús í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og klukkan tifar. Ef ekki á núna á árum batnandi afkomu ríkisins og efnahags að byrja inngreiðslur inn á þá skuld þá spyr ég: Hvenær? Eigum við líka að skilja það eftir handa börnunum okkar? Það væri hægt að nota eitthvað af þessum fjármunum í það. Það væri geysilega ábyrg og félagsleg reisn yfir því að fara strax að takast á við þann vanda um leið og betur árar þannig að við skildum hann ekki bara eftir handa börnunum okkar. Annars kemur 25–30 milljarða högg á ríkið þegar sjóðurinn tæmist upp úr 2025.

Einn fjórðung hefði ég verið alveg tilbúinn til að skoða í markmiðsmiðaðar skattalækkanir, t.d. að lækka almenna tryggingagjaldið nokkurn veginn í takt við lækkandi atvinnuleysi. Með því værum við að styðja við bakið á mannaflsfrekri starfsemi, á nýsköpun í atvinnulífinu, hjálpa litlum fyrirtækjum sem oft eru með langstærstu útgjöld sín í formi launakostnaðar o.s.frv.