145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[17:46]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Það er sannarlega rétt, eins og einhver þingmaður sagði hér áðan, að bandormurinn sem hæstv. fjármálaráðherra flytur núna hefur oft verið verri en sá sem hér kemur fram. Ef við förum bara aftur til hrunáranna, sem ég ræði oft hér, og þess sem síðasta ríkisstjórn þurfti að ganga í gegnum eftir hrunið, niðurskurð, skattahækkanir o.fl., þá er í raun og veru alveg með ólíkindum að það skuli vera hægt að leggja svona bandorm fram núna þar sem farið er í ýmsar skynsamlegar aðgerðir en líka aðrar miður góðar og valda deilum eins og við höfum heyrt hér í dag.

Ég ætla að skauta aðeins í gegnum þetta frumvarp nú við 1. umr. og staldra fyrst við breytinguna á skattþrepi í tekjuskatti einstaklinga. Ég hef svo sem ekki miklu við það að bæta sem hér hefur verið sagt af flokkssystkinum mínum í Samfylkingunni um þetta. Það er sennilega rétt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði áðan að það væri í raun og veru verið að búa til kosningabæklingana fyrir næstu kosningar. Það er verið að búa til bæklinga þar sem hægt er að segja: Við lækkuðum skatta á einstaklinga. Það á ábyggilega að virka vel á þessa umræðu. En eins og ég segi er verið að gera það meðal annars vegna þess tekjur flæða inn í ríkissjóð af starfseminni í landinu sem er sem betur fer að rísa og ástandið að batna. Sú ríkisstjórn sem nú er að störfum og hefur verið í tvö ár nýtur líka ávaxtanna af því sem síðasta ríkisstjórn þurfti að leggja á sig þegar hún lagði grunn að endurreisn landsins. Þess vegna er ég ekki sammála því sem hæstv. forsætisráðherra sagði í stefnuræðu sinni um að allt þetta hefði gerst frá og með apríllokum 2013 þegar ríkisstjórnarskipti urðu í landinu. Það vantaði eiginlega bara í þessa stefnuræðu að góður árangur íslenska karlaliðsins í knattspyrnu hefði líka verið núverandi ríkisstjórn að þakka og ríkisstjórnarskiptum, en það var ekki.

Að öllu gamni slepptu þá er eins og hér hefur komið fram verið að fara í breytingar á tekjuskattskerfinu, taka út milliþrepið sem á að gerast á kosningavetrinum, rétt fyrir kosningar. Það minnkar auðvitað jöfnunaráhrifin sem þessi þriggja þrepa skattur hefur. Síðan getum við talað um það endalaust hvernig þeim peningum verður ráðstafað. Hvernig fer þetta? Hvað verður skorið niður? Það má til dæmis spyrja sig að því vegna þess að það er list hins ómögulega að leggja á skatta og reyna að mynda sem mesta sátt í landinu. Þess vegna spyr ég: Er rétt að lækka þessa skatta núna, á sama tíma og við látum til dæmis fæðingarorlofið vera óbreytt þannig að mjög margir treysta sér ekki til að taka fæðingarorlof, hafa bara ekki efni á því?

Við erum að breyta vaxtabótunum og skera þær niður um 1,5 milljarða. Það er sagt vera vegna þess að skuldastaðan hafi minnkað hjá almenningi í landinu. Jú, sannarlega er það rétt, en á sama tíma er verið að taka þessa peninga, þ.e. skera vaxtabæturnar niður, og setja í átak í húsnæðismálum, sem er vel, en við skulum hafa í huga að það er gert með þessum niðurskurði.

Aldraðir og öryrkjar fá ekki þær bætur sem þeir eiga að fá frá og með 1. maí sl. vegna þess að ríkisstjórnin hefur ákveðið að láta það koma til framkvæmda um næstu áramót og svíkja þar með þetta fólk um þann ávinning sem það á að fá líka með samningum sem voru gerðir við aðila vinnumarkaðarins og leggja grunn að 300 þús. kr. lágmarkslaunum eftir tvö eða þrjú ár. Aldraðir og öryrkjar eiga auðvitað að njóta þess líka. Það var alltaf í mínum huga, við þær skelfilegu aðstæður að þurfa að ráðast að þessum þjóðfélagshópum og lækka bætur þeirra og tekjutengja meira og meira, að þessu yrði að skila til baka við fyrsta tækifæri. Þegar hagur ríkissjóðs mundi skána ætti þetta að koma við fyrsta tækifæri til baka. Því miður urðu ríkisstjórnarskipti og ný ríkisstjórn hafði ekki áhuga á að gera það sem ég er að tala um.

Það var minnst á sveitarfélögin áðan. Ég hef heyrt marga sjálfstæðismenn hjóla í Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög fyrir slæma niðurstöðu reikninga þeirra miðað við sex mánuði. Virðulegi forseti, í greiningum sem hafa verið birtar um afkomu sveitarfélaga þá er þessi afkoma eingöngu verri vegna launahækkana. Og þegar menn tala um Reykjavík held ég að menn ættu nú að horfa á annan kaupstað ekki langt frá, þ.e. Kópavogsbæ, til að ræða þetta. Þess vegna er það alveg fullgild spurning og fullgilt sjónarmið hvort hefði kannski átt að koma til móts við sveitarfélögin. Ég segi það sem gamall sveitarstjórnarmaður og ráðherra sveitarstjórnarmála að það hefði alveg eins mátt hugsa sér að sveitarfélögin fengju stærri hlut úr þessum pakka.

Síðan skulum við hafa eitt af þessum atriðum í huga þegar ég segi að tekjur flæði inn í ríkissjóð. Afkoma atvinnurekstrarins er sem betur fer mjög góð. Við höfum upplýsingar um það, m.a. á fundi atvinnuveganefndar í morgun með Samtökum atvinnulífsins og ýmsum fulltrúum innan þeirra samtaka, að það er metafkoma hjá sjávarútveginum um þessar mundir. Það er meðal annars vegna þess að olíuverð er sögulega lágt í heiminum. Ríkissjóður græðir líka mikið á mörgum ferðamönnum. En við skulum hafa það í huga að olían getur hækkað og ferðamennirnir geta líka hætt að koma. Sumir hafa nefnt sem dæmi að síldin hvarf 1967 og menn geta tekið dæmi af ferðamönnum sem hafa hætt að koma. Þá verður þessi sýn ekki eins glæsileg og nú.

Virðulegi forseti. Tíminn er skammur. Ég segi fyrir mitt leyti varðandi lið 3.2 sem er kallaður Hækkun á frítekjumarki á leigutekjum. Þetta er ágætisskref sem þarna er stigið. Hvers vegna er það ekki stigið til fulls eins og við jafnaðarmenn höfum lagt til? Við höfum lagt til að ef einstaklingur leigir út eina íbúð til langtíma, ekki til ferðamanna, þá verði það með fullkomnum skattafslætti. Hér er stigið smáskref í þá átt. Af hverju að vera að gera það á þann hátt sem hér er gert sem er talið hafa 400 millj. kr. áhrif á ríkissjóð til lækkunar? Ég held að atriðið sem við jafnaðarmenn höfum lagt til sé mjög mikilvægt í tengslum við húsnæðisskortinn og svimandi hátt leiguverð í landinu. Aðilar gætu þess vegna útbúið aðra íbúð í húsinu sínu eða eiga íbúð sem þeir leigja til ferðamanna og sæju sér frekar hag í því að leigja hana til langs tíma til almennings og fengju skattafslátt út á. Ég held að slík aðgerð mundi svínvirka.

Ég er mjög hrifinn af þeirri breytingu sem er verið að gera á tilfærslu virðisaukaskatts og áfengisgjaldi. Ég nefndi það hér fyrir ári þegar breytingar á virðisaukaskattskerfinu voru lagðar hér fyrir Alþingi. Í frumvarpinu er farið um það orðum eins og veltufrávik og tekjuskilvirkni o.s.frv. Ég er alveg sannfærður um að þessi breyting, sem er, nota bene, ekki þannig að hún lækki verð á áfengi heldur er verið að færa það til, hækka áfengisgjaldið en lækka virðisaukaskattinn niður í 11%, muni stuðla að betri skilum til ríkissjóðs á sölu áfengra drykkja á veitingastöðum. Það var nefnilega mjög sérstakt að vínið væri með 24% virðisaukaskatt en það sem sett var út í vínið var með 11% og ýmislegt annað sem þar var inni. Það var kannski bara allt of mikill möguleiki á mistökum, skulum við kalla það, á hvaða takka var ýtt hvað þetta varðar.

Ég hef ekki tíma til að fara út í ýmislegt annað hvað varðar ferðaþjónustuna og skil á virðisaukaskatti. Í raun eru dæmi um dálítið furðulegar reglur þar um en ég vísa í fyrri ræðu mína um virðisaukaskatt fyrir ári síðan hvað það varðar, þ.e. hvernig menn geta rekið ferðaskrifstofu, fengið 100 þús. kr. greiðslu frá ferðamanni og geta stýrt því sjálfir í hvað greiðslan er sett, hvort sem það er matur, sala á víni eða leiðsögn. Sumt af því sem ég tel upp er án virðisaukaskatts.

Verðlagsuppfærsla krónutöluskatta og gjalda 2,5% til marks um verðbólgu. Vafalaust er rétt að þessi gjöld eigi að halda sínu verðgildi. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra, sem er því miður ekki í salnum en hefur setið hér í allan dag, hvort það sé ekki tryggt að það sé verið að hækka líka það gjald sem lendir hjá Vegagerðinni til viðhalds og reksturs vegakerfisins í landinu.

Hér er boðuð breyting á virðisaukaskattskerfi fólksflutninga því að greinilega voru gerð þau mistök við síðustu lagagerð að hópferðabifreiðafyrirtæki fengu að telja fram innskatt vegna áfanga við reksturinn, þar með talið þegar menn keyptu nýja bíla, og þá verið að fella út í leiðinni að virðisaukaskattur sé endurgreiddur þegar gamlir bílar eru seldir. Þetta er líka, held ég, mjög skynsamleg aðgerð. Hér er svo verið að framlengja enn einu sinni tímabundnar heimildir til að fella niður virðisaukaskatt af kaupum á bifreiðum sem eru knúnar með rafmagni, vetni eða tengiltvinnbifreiðum. Þetta er alveg hiklaust til bóta. Þessi aðgerð var, ef ég man rétt, gerð í tíð síðustu ríkisstjórnar og hefur fjölgað umhverfisvænum bílum í landinu og hefur þar með ekki síst sparað mikinn innflutning á eldsneyti, sem við þurfum alltaf að flytja inn og kostar okkur mikið af gjaldeyri sem við eigum ekkert allt of mikið af. Ég segi fyrir meitt leyti að þetta eigi ekki að vera til eins árs, ég held að það eigi að vera til lengri tíma. Ég spyr jafnframt hæstv. fjármálaráðherra: Eru einhver önnur gjöld af þessum umhverfisvænu bílum sem ríkissjóður innheimtir eða er hér verið að fella allt niður? Ef ekki er verið að fella allt niður þá er ég þeirrar skoðunar að við hér á Alþingi eigum að stíga skrefið til fulls og fella niður öll gjöld af umhverfisvænum bílum og stefna þar með að umhverfisvænni samgöngum eins og við höfum samþykkt hér á Alþingi.

Barnabætur og vaxtabætur hef ég ekki tíma til að fara í gegnum núna en ítreka það sem ég sagði áðan um að verið væri að fara í vaxtabótakerfið og lækka vaxtabætur vegna lægri skulda. Það má líka spyrja: Hefði ekki verið eðlilegt að hafa vaxtabæturnar hærri og koma til móts við þá sem skulda enn allt of mikið? Lagfæringin í skuldaleiðréttingunni hjá þeim sem fengu hámarksskuldaleiðréttingu, 4 milljónir, og skulduðu 25 milljónir þegar það var — það er ekkert langt í það, miðað við verðbólgu og annað, að sá ávinningur hverfi; sumir segja eitt ár, aðrir segja tvö ár.

Ég er sammála því sem hér kemur fram um einföldun á stimpilgjaldinu og tel hiklaust að það eigi að vera þannig hvað varðar fyrstu íbúð burt séð frá því hvort hún er til eigin nota eða ekki enda er það erfitt í framkvæmd. Umboðsmaður Alþingis hefur gert athugasemdir við þetta, svo ég tali nú ekki um dæmi sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir nefndi hér áðan, ef það er virkilega þannig þá hvet ég efnahags- og viðskiptanefnd til að fara í gegnum það mál. Jafnframt er yfirskattanefnd falið úrskurðarvald í staðinn fyrir fjármálaráðuneyti. Það er alveg hiklaust til bóta.

Með starfsendurhæfingarsjóðum er í raun og veru verið að fella úr gildi ákvæði til laga um tryggingagjald. Það verður væntanlega minna en verður þó 650 milljónir á árinu 2016. Ég hika ekki við að halda því fram að starfsendurhæfingarsjóðirnir skila miklum árangri, eins og Virk sem komið var á vegna samstöðu aðila vinnumarkaðarins.

Kostnaður við rekstur Fjármálaeftirlitsins. Auðvitað á fjármálakerfið að borga þann rekstur.

Ég er efins um að rétt sé að skera niður framlag til umboðsmanns skuldara. Ég þekki dæmi af afspurn frá fólki sem þar hefur farið í gegn að þar er verið að vinna virkilega gott verk og þar er verið að hjálpa skuldsettum heimilum miklu meira en gert var með aðgerðum ríkisstjórnarinnar til skuldaniðurfærslu.

Ég ætla hér í lokin, virðulegi forseti, að fagna því alveg sérstaklega að ríkisstjórnin skuli stíga fram og standa betur við samninginn við þjóðkirkjuna, sem er gamall samningur sem menn þurftu að skerða eins og annað á erfiðleikatímanum. Hér er stigið fyrsta skref til að koma til baka og greiða þjóðkirkjunni það sem hún á samkvæmt samningi, ekki veitir af, virðulegi forseti, hvort sem er til reksturs kirkna, viðhalds eða umsjónar og eftirlits með kirkjugörðum. Þetta eru bara hlutir sem eiga að vera í lagi. Þjóðin hefur sagt sitt um þjóðkirkjuna í stjórnarskrá og við eigum að standa við þann samning sem þar var gerður. Hér er stigið fyrsta skref í átt til þess að skila (Forseti hringir.) kirkjunni einhverju af því sem tekið var af henni í hruninu og ég fagna því alveg sérstaklega.