145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[18:02]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Sá sem hér stendur er spar á tóbak nema ef til vill neftóbak þegar hv. þingmaður otar því að honum. En það er annar handleggur.

Ég hafði ekki gert mér grein fyrir þessari raunlækkun hvað varðar tóbaksgjaldið, þessum 2,5%. Ég segi aðeins fyrir mitt leyti: Er það ekki þannig að í meðförum efnahags- og viðskiptanefndar verður þessi 2,5% tala rúnnuð af miðað við þær upplýsingar sem við höfum um verðbólgu áður en við samþykkjum þetta fyrir jól?

Ég er alla vega ekki sammála því að við séum í raun að lækka verð á áfengi og tóbaki, það á að hækka — og þar með talið neftóbakið sem hækkaði verulega í tíð síðustu ríkisstjórnar sem hv. þingmaður sat í og stuðlaði að. (ÖS: Það var Steingrími að kenna.) En það er annar handleggur.

En hvað þessa raunlækkun varðar eða hækkun þá vil ég vísa því yfir á fjármálaráðherra og að hann svari því hvort sú sé raunin eða hvort þessi tala muni taka breytingum í meðförum efnahags- og viðskiptanefndar.