145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[18:05]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Upphafið að andsvari hv. þingmanns við mig var út frá því sem ég talaði hér um, þ.e. breytingu á virðisaukaskattskerfinu gagnvart áfengi og gagnvart veitingastöðum. Eins og ég sagði í ræðu minni, og sagði fyrir ári, er það tvímælalaust breyting til bóta vegna þess að hún mun auka skilvirkni — ég man ekki nákvæmlega hvaða fallegu orð eru notuð í frumvarpinu, um það þegar skatti er skotið undan. Vonandi kemst það bara í gegn og engin ástæða til að ætla annað.

Þetta er kerfisbreyting sem hefur legið fyrir í mörg ár að væri skynsamlegt að gera en loksins farið í það núna, eftir því sem maður les í frumvarpinu, vegna þess að nefnd var skipuð sem fór í gegnum þetta dæmi og lagði þetta til.

En varðandi lýðheilsusjónarmiðin og raunhækkun, þ.e. að verð á áfengi og tóbaki lækki ekki að raun heldur lækki í takt við verðbólgu, þá ítreka ég það sem ég sagði áðan og er stuðningsmaður hv. þingmanns hvað það varðar: Já, við eigum að láta það hækka samkvæmt verðlagshækkunum þannig að það haldi raungildi sínu en lækki ekki.