145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[18:07]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Krónutölugjöldin hækkuðu ekkert á þessu ári. Við lögðum það inn í verðlagsforsendur þessa árs að gera það sem við gætum til að halda aftur af hækkun verðlags og vorum með allar hækkanir krónutölugjalda á núlli á árinu 2015. Á næsta ári erum við að hækka um 2,5% eins og við höfðum rætt um í yfirlýsingu fyrir jól 2013 þar sem talsverð umræða hafði farið fram um það að ef ríkið ætlaði alltaf að áskilja sér vænta verðbólgu næsta árs þá væri ríkið í sjálfu sér að ýta undir að verðbólguvæntingar mundu ganga eftir. Þá var mörkuð sú stefna fyrir kjörtímabilið að við mundum ekki hækka þessi gjöld umfram 2,5%.

Aðeins varðandi rafbílana. Ég get tekið undir það með hv. þingmanni að það eru ágætisrök fyrir því að skapa hvata, a.m.k. tímabundið, til að opna markaðinn hér heima fyrir rafbíla, umhverfisvæna bíla, svo að íslenskur almenningur sjái kosti þess að nýta þá og við fáum reynslu af því að nota þá hér við okkar aðstæður. En það verður samt að skoða þetta í stóra samhenginu og spyrja: Ef allir keyra um á rafbílum, hvernig ætlum við þá að fjármagna þann hluta sem kemur í gegnum eldsneytisgjöldin fyrir samgöngukerfið? Ætlum við að fella þann kostnað bara af bílunum almennt eða ætlum við að ná því einhvern veginn öðruvísi? Það má ekki gleyma því að í raun erum við að kaupa í mörgum tilvikum miklu dýrari bíla, senda meiri gjaldeyri til að sækja þessar bifreiðar til útlanda vegna þess að framleiðslukostnaður þeirra er enn þá langt yfir því sem gerist með aðrar bifreiðar. Þegar maður horfir á eldsneytissparnaðinn þarf að hafa í huga (Forseti hringir.) að gjaldeyrir fer út og það er einmitt þess vegna sem ég tel mikilvægt að við förum yfir þessi kerfi í heild sinni. (Forseti hringir.) En ég er sammála því að það er kostur að fjölga rafbílum á Íslandi.