145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[18:40]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um uppsetningu fjárlagafrumvarpsins en boð mitt um aðstoð við uppsetningu á því, þá mögulega á næsta ári, stendur enn og ég vona innilega að hæstv. fjármálaráðherra þiggi það að ári svo að við fáum efnisyfirlit meðal annars í þetta blessaða fjárlagafrumvarp.

Fyrir það fyrsta langar mig að setja spurningarmerki við breytingu á skattþrepum. Lagt er til að færa skattþrepin niður í tvö, einungis í lægra skattþrep og hærra skattþrep. Að sama skapi er verið að lækka skatta á skattþrepunum en þeim fjölgar sem eru í hærra skattþrepinu. Það þýðir að sjálfsögðu að um skattahækkanir er að ræða, ekki satt, hæstv. fjármálaráðherra? Er þetta ekki í rauninni skattahækkun þar sem við erum með fleiri í hærra þrepinu? Við erum náttúrlega að tala um auknar tekjur sem eru þá skattahækkun í raun og veru. Þó að það sé verið að lækka einhverjar prósentutölur þá þýðir það ekkert endilega að um raunskattalækkanir sé að ræða. Þetta er sérstaklega varhugavert skref, að mínu mati, í ljósi þeirra breytinga á kjarasamningum sem voru til að mynda gerðir við lækna og hjúkrunarfræðinga. Mun þessi raunskattahækkun, eins og ég vil kalla þetta, taka alla þá breytingu sem varðar launakjör þessa mikilvæga starfsfólks samfélagsins beinlínis til baka? Hvaða áhrif mun þetta hafa?

Nú fagna ég sérstaklega afnámi tolla en það er þó ljóst að mikilvægustu vöruflokkunum er haldið fyrir utan þessar aðgerðir, þ.e. landbúnaðarvörum og annarri matvöru. Það hlýtur að vera afar brýnt að afnema þessa tolla á matvörur. Öllum ætti að vera ljóst að um er að ræða sérstaka verndarstefnu fyrir íslenska bændur og íslenskan landbúnað. Ég er því sammála hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur um að við þurfum að taka þessa landbúnaðarumræðu í heild sinni, hvort við viljum vernda íslenskan landbúnað og af hverju þá og með hvaða hætti. Erum við sem þjóð til í að borga hærra verð fyrir matvöru til þess að vernda íslenskan landbúnað? Er virkilega ekki hægt að fara einhverja aðra leið til að stuðla að nýsköpun í íslenskum landbúnaði? Mér finnst þetta spurningar sem er mjög vert að íhuga og fara yfir.

Mér finnst einnig mjög áhugavert að sjá framlagið til þjóðkirkjunnar hækka um tæpar 73 milljónir, auk þess sem sóknargjöldin hækka í krónutölu. Forseti, þarna er ég aftur sammála hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur um að það verði að fara að hefja þá vinnu að skoða þennan samning ríkis og kirkju. Í raun og veru erum við búin að vera að borga fyrir kirkjujarðirnar í rúma öld. Þetta fyrirkomulag er stórkostlega úrelt í alþjóðasamhengi, að ausið sé af skattfé fólks í þetta trúfélag. Ég legg til að við tökum þessi mál öll til heildarskoðunar og vöndum okkur við það. Fólk verður að fá að velja sér trúfélag sjálft og trúfélögin verða að fá að ákveða það sjálf hvaða félagsgjöld þau innheimta og hvernig. Ef Ásatrúarfélagið vill til dæmis byggja sér hof hljóta félagsmenn í því félagi að taka sameiginlega ábyrgð á því og hækka sín félagsgjöld meðan á byggingu þess stendur. Hið sama ætti auðvitað að gilda um þjóðkirkjuna.

Í þriðja lagi, sem ég vil endilega fá að ræða við hæstv. fjármálaráðherra, er að lagt er til í frumvarpinu að frítekjumark vegna leigutekna verði hækkað. Það er að mínu mati mjög gott skref, mjög þarft skref. Hins vegar þarf að vera kýrskýrt að um langtímaleigu sé að ræða en ekki skammtímaleigu til ferðamanna. Það þarf að tryggja að þessi aðgerð sé í rauninni í þágu leigjenda á hinum almenna vinnumarkaði þar sem mikil samkeppni er um íbúðarhúsnæði, sér í lagi á höfuðborgarsvæðinu.

Umbætur á leigumarkaðnum eru gríðarlega mikilvægt efni hér. Ég mundi gjarnan vilja sjá meira af umbótum í þágu leigjenda. Margir vildu gjarnan velja að vera á leigumarkaði. Fleira getur ráðið því en eingöngu fátækt eða úrræðaleysi. Ástæða þess að fólk hefur kosið að vera á leigumarkaði þarf ekki endilega að vera fátækt eða eitthvert úrræðaleysi heldur einfaldlega af því að það vill ekki eiga hús. Það getur verið fílósófísk ástæða fyrir því. Séreignarstefnan er ekkert gallalaus. Hún er beinlínis vond ef hún á að vera eini valmöguleikinn. Séreignarstefnan er ekki einu sinni raunverulegur valmöguleiki fyrir fólk eins og mig sem er nýskriðin úr námi og á engar eignir eða pening ef út í það er farið. Ég veit um marga sem kjósa miklu frekar að vera á leigumarkaðnum. Það getur falið í sér frelsi fyrir fólk en þá einungis ef umhverfið er í lagi og valkostirnir eru raunverulegir. Það þarf að ræða leigjendavalkostina raunverulega, ekki bara á grundvelli félagslega kerfisins eða sem einhverja neyðarbraut fyrir fátækt fólk heldur á sem breiðustum grundvelli.