145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[19:11]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það hafi t.d. verið rangt hjá hæstv. ríkisstjórn að lækka í þrígang gjöld fyrir veiðileyfi. Því var haldið fram af þingfélögum eða flokksfélögum hv. þingmanns áður en hann settist á þing að þau áform sem hæstv. ríkisstjórn hafði uppi í þeim efnum mundu ganga af sjávarútveginum dauðum. Þau voru nú samt keyrð í gegn með þeim árangri að þrátt fyrir það sem einn ágætur útgerðarmaður kallaði hengingaról um háls útgerðarinnar þá sigldi í kjölfarið besta ár sem útgerðin og sjávarútvegurinn hefur nokkru sinni notið og í kjölfar þess kom annað ár sem var betra. Með öðrum orðum, þessi skattheimta sem er auðvitað í eðli sínu, a.m.k. eins og ég lít á hana, öðruvísi en venjuleg tekjuskattheimta, virtist ekki hafa komið í veg fyrir fjárfestingar hjá þeim.

Hv. þingmaður verður að gera sér grein fyrir því að ég er honum sammála um að óhófleg skattheimta og óhóflegur tekjuskattur getur bæði leitt til þess að frumkvæði dvínar og það dregur úr fjárfestingum en við erum svo órafjarri því í því skattumhverfi sem er á Íslandi og sem síðasta ríkisstjórn skildi eftir að það geti nokkurn tíma raungerst, enda sér hv. þingmaður það núna. Eru ekki fjárfestingar meiri en nokkurn óraði fyrir í greinum eins og t.d. ferðaþjónustu? Það er alveg eins og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir sagði fyrr í dag, menn gleyma að leggja saman þegar menn eru að tala um fjárfestingar í atvinnuvegum, þeir gleyma því alltaf að það er að finna grúa lítilla fjárfestinga sem saman verður mjög stór í greinum sem ekki rata inn í greinargerðir fjármálaráðuneytisins. (Forseti hringir.) Ég er með öðrum orðum að undirstrika það að ég tel að við séum fjarri því að vera komin að þeim mörkum að við séum að fæla einstaklinga eða fyrirtæki frá því að sýna áræði sitt í verki.