145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[19:13]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil minna hv. þingmann á það að síðasta ríkisstjórn og stjórnarandstaðan núna vildi hækka skatta bæði á ferðaþjónustu og útgerðina miklu meira en gert var. Við vorum skömmuð fyrir það að afsala okkur tekjum. Hvað hefði nú gerst í útgerð víða um land hefði verið farið að tillögum stjórnarandstöðunnar þegar hún var í ríkisstjórn? Ég er ekki viss um að útgerðin væri þá svona öflug eins og hún er í dag. Það er líka óvíst að það hefði gerst með ferðaþjónustuna, að hún væri eins öflug og hún er í dag. Það eru vaxtarbroddar. Og við megum ekki alltaf þegar við sjáum vaxtarbrodd segja: Nú verðum við að hækka álögur. Það getur haft mjög slæm áhrif og ég er ósammála hv. þingmanni um að skattar séu ekki háir hér. Þeir eru bara ansi háir, sérstaklega á millitekjufólk. Millistéttin er raunverulega mjög veikburða og hefur verið það mjög lengi og alveg frá því fyrir hrun.

Hv. þingmaður var að tala um hrunið alveg eins og það væri vegna þess að fjárfest hefði verið í Kárahnjúkavirkjun og öðru slíku, þá held ég að það sé ofsögum sagt. Það var auðvitað hrun fjármálafyrirtækja um allan heim. Við áttum bara erfiðara við að glíma við það. En gleymdu ekki einu, hv. þingmaður, að ríkisstjórnir sem höfðu verið á undan, sem sagt þegar hrunið varð og þar áður, höfðu greitt skuldir ríkissjóðs nánast alveg upp sem gerði að verkum að við gátum farið i alvöruendurreisn. Við megum ekki gleyma því, það er kannski mikilvægt að menn höfðu þá notað hinar auknu tekjur í umhverfi lágra skatta til að greiða niður skuldir ríkissjóðs. Það var afar mikilvægt í endurreisn íslensks efnahagslífs.