145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[19:18]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er freistandi að fara inn í þá umræðu sem hér var undir lokin í andsvörum hv. þm. Brynjars Níelssonar við ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, þar sem þeir ræddu hvort skatthlutfall væri hátt eða lágt á Íslandi. Þá hljótum við að horfa til samanburðar ríkja. OECD birtir reglulega upplýsingar um það, reyndar með varnaðarorðum um að samanburður geti verið varasamur með tilliti til lífeyrisskuldbindinga og millifærslna af ýmsu tagi, en engu að síður er það svo að í þeim samanburði eru Íslendingar einhvers staðar í kringum meðaltal en þegar litið er til Norðurlandanna þá erum við langt undir skatthlutfallinu sem tíðkast þar. Það er þannig 36% á Íslandi, 48 í Danmörku, 44 í Svíþjóð og 43 í Noregi og í Finnlandi. Til samanburðar ef við förum í aðrar lendur, þá eru Kanadamenn með rúmlega 30%, 31% og Bandaríkjamenn eru með 25%.

Þá erum við kannski komin að kjarna þeirrar umræðu sem hefur farið hér fram í dag að skatthlutfallið segir ekki alla söguna. Lágt skatthlutfall er ekki þar með ávísun á betri lífskjör fyrir fólkið. Í Bandaríkjunum þarf fólk að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu og menntun í ríkari mæli en gert er á Norðurlöndunum svo dæmi sé tekið, þannig að þegar við höldum inn í samanburð þá þurfum við að skoða þá þætti líka.

Þessi umræða hér í dag hefur verið afar fróðleg. Ég hef fylgst með henni nokkurn veginn frá upphafi þó ég hafi ekki verið staddur hér í salnum og þakka ég þar tækninni að hægt er að fylgjast með umræðunni annars staðar. Umræðan um þetta frumvarp sem fjallar að uppistöðu til um breytingar í skattkerfinu hefur verið í senn tæknileg og hún hefur verið pólitísk. Farið hefur verið yfir ýmsar breytingar sem tillögur eru hér gerðar um frá tæknilegu sjónarhorni og hvaða afleiðingar þær hafi í för með sér og síðan hefur verið hin hefðbundna pólitíska umræða þar sem við sjáum mjög skýrar markalínur á milli vinstri sjónarmiða annars vegar og hægri sjónarmiða hins vegar. Hvernig birtist það? Hin hefðbundna nálgun hægri manna á skattaumræðuna er sú að skattar séu fyrst og fremst tæki til að afla tekna fyrir ríki og sveitarfélög, til að afla tekna fyrir samneysluna. Það nægir vinstri mönnum ekki. Þeir vilja að sjálfsögðu nýta skattkerfið til að afla almannaþjónustunni tekna en vilja jafnframt nota skattkerfið til tekjujöfnunar. Þess vegna tek ég undir með hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur sem sagði í ræðu sinni í dag að henni hrysi ekki hugur við ýmsum flækjum í kerfinu ef þær væru til að stuðla að þessu markmiði, að aukinni og jafnari tekjudreifingu í samfélaginu.

Hv. þm. Brynjar Níelsson sagði áðan að hann hefði viljað ráðast í jafnvel meiri skattalækkanir en á móti hafa svigrúm til að hækka launin meira í landinu þannig að tekjur fólks yrðu bættar. Þá erum við að horfa til alls vinnumarkaðarins með betri launum og þá hugsanlega einnig með minni skattbyrði. En þá er á það að líta og mig langar til að tefla þessari röksemd fram að skattarnir og millifærslurnar í skattkerfinu koma ekki einvörðungu einstaklingum og fjölskyldum til góða heldur atvinnulífinu líka. Þannig fáum við kerfi sem er þannig vaxið að í stað þess að greiða fólki laun eins og það þurfi að standa straum af menntun barna allt lífið, af sjúkum einstaklingi í fjölskyldunni allt lífið, af því að þurfa að afla húsnæðis allt lífið, í stað þess að hafa slíkt kerfi þá búum við til millifærslukerfi sem er hagkvæmara fyrir einstaklinginn og fjölskyldurnar en atvinnulífið líka. Það er skynsamlegt fyrir atvinnulífið að hafa kröftugt millifærslukerfi sem kemur í veg fyrir að við miðum allar launagreiðslur við áföll eða erfiðleika eða einhver tímabundin verkefni sem eru á vegi hvers manns og hverrar fjölskyldu einhvern tíma á lífsleiðinni. Þess vegna höfum við búið til kerfi af þessu tagi.

Svo ég taki annað dæmi þá sagði þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins hér áðan um sóknargjöld og framlög til kirkjunnar að að sínu mati væri þetta ekki nógu gott. Þetta ætti að vera prívatmál hvers og eins hvað væri látið af hendi rakna til trúfélaga. En horfum á þetta með hliðsjón af sögunni og veruleikanum. Við þekkjum samfélög sem reyndu að úthýsa öllum trúarbrögðum og gera þau að engu. Það var í austurvegi hér á síðustu öld og svo höfum við líka þjóðfélag þar sem það er prívatmál fólksins hvernig það fjármagnar sínar kirkjur og sín trúfélög og við þekkjum þar miklar söfnunarherferðir og trúboða sem fara mikinn. Við þurfum að horfa til þess hvaða leið við viljum fara. Ég er ekki ósáttur við það kerfi sem við höfum, að láta fjármuni úr samfélagssjóðum renna til ekki bara þjóðkirkjunnar heldur til trúfélaga almennt og til Siðmenntar. Við breyttum því á síðasta kjörtímabili að Siðmennt fær núna sóknargjöld og önnur trúfélög einnig. Þegar við hugsum dæmið þannig að þetta eigi bara að vera manns prívatmál þá breytast kannski viðhorfin þegar móðir manns deyr og það þarf að jarða hana. Þá er til eitthvað sem heitir kirkja, orgel og söfnuður og ofnar í kirkjunni til að hita hana upp o.s.frv. Þetta eru sóknargjöldin. Og um sóknargjöldin voru gerðir samningar á milli ríkis og kirkju sem var ekki alls kostar staðið við í kjölfar hrunsins og menn hafa verið að leiðrétta þetta síðan smám saman og ég beitti mér fyrir því sem innanríkisráðherra að það yrði gert.

Ég vildi bara skjóta þessu inn sem röksemd í þessa hugsun. Ég er ekki að tala fyrir hönd þjóðkirkjunnar eða eins tiltekins safnaðar heldur horfa til þess hvernig samfélag við viljum smíða að þessu leyti, hvort við viljum þessa miklu samkeppni á trúarsviði eða hvort við viljum hafa einhverja kjölfestu sem minna fer fyrir svona svipað og malandi köttur sem er við bæjardyrnar hjá okkur. (Gripið fram í.) Malandi köttur, ég segi þetta af góðvilja, ég er að tala um að ég vilji standa við þá samninga sem gerðir hafa verið, ég meina þetta ekki illa og ef einhver tekur því þannig þá biðst ég afsökunar á því, það var ekki hugsunin. Ég er að reyna að leggja áherslu á að þetta sé allt á hófsemisnótum og að ég vilji ekki samkeppni á þessu sviði.

Síðan finnst mér stórfengleg umræðan sem hér hefur orðið í dag um jöfnuðinn og hvaða áhrif þessar skattkerfisbreytingar allar hafa. Það er ekki nóg með það að þessi ríkisstjórn líti á skatta fyrst og fremst sem tekjuöflun og telji mikla dyggð að draga úr henni, að skerða skattana og draga úr þeim, heldur hefur hún sýnt sig í að vera mjög ósanngjörn að mínu mati þegar til kastanna kemur. Eitt fyrsta verk sem hún framkvæmdi hér í þinginu var afnám auðlegðarskattsins sem að vísu var tímabundinn en við mörg vorum eindregið á því máli að það ætti að framlengja hann. Annað var meiri háttar afsláttur á veiðigjöldum og skattafsláttur og niðurfelling til stóriðju. Þetta er það sem hefur verið gert og menn hafa verið að reikna sig upp í 40–50 milljarða á ári sem allar þessar samanlögðu skattbreytingar hafa í för með sér. Síðan hafa þingmenn komið hingað upp og tekið hæstv. fjármálaráðherra á orðinu og rýnt í töfluna sem er að finna á bls. 12 í greinargerð frumvarpsins þar sem kemur fram hvaða afleiðingar fyrirhugaðar skattbreytingar munu hafa fyrir vasann á launamanninum. Þar fáum við nokkur tekjustig. Við fáum einstaklinginn með 300 þús. kr. á mánuði. Í næsta mánuði mun hann fá ívilnun upp á 1 þús. kr. rúmar, ef ég skil þetta rétt. 700 þúsund króna maðurinn fær 11.273 kr. í afslátt og milljón króna maðurinn 3.191 kr., en þúsundkallinn fær sá sem er með lægstu tekjurnar. Þetta er náttúrlega málið.

Þá segja menn: Þetta gera prósenturnar. Prósenturnar þýða náttúrlega að krónufjöldinn verður meiri eftir því sem tekjurnar eru hærri, það er alveg rétt. Þess vegna tölum við fyrir þrepaskiptum skatti með mismunandi prósentutölum til að draga úr þessum mun og við viljum stefna lengra í þá átt en hér er gert.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði hér í dag: Hvenær er þá ráðrúm til að lækka skatta ef ekki er hægt að gera það núna á þessum tímum? Þá segi ég: Ef við ætlum að gera það, ef við ætlum að lækka skatta þá skulum við byrja á rétta aðilanum. Ég er að horfa á skattálögur og hvert er ég að horfa? Ég horfi til sjúklinga. Ég horfi ekki bara til öryrkja og aldraðra, það má gera það líka og á að gera það og við eigum að hlusta á það sem þeirra samtök segja, en ég horfi á sjúklinga. Ég er að horfa á þá staðreynd að við höfum fengið í hendur skýrslur bæði frá Háskóla Íslands og frá Krabbameinsfélaginu. 2013 fengum við frá Krabbameinsfélaginu ítarlega skýrslu og í byrjun árs 2014, ef ég man rétt, skýrslu unna af félagsvísindadeild Háskóla Íslands, þar sem því er haldið fram að kostnaðarhlutdeild sjúklinga í rekstri heilbrigðiskerfisins sé komin upp í fimmtung, 20%. Það er ekki þessari ríkisstjórn að kenna og það má alveg eins horfa til síðustu ríkisstjórnar og þeirrar sem áður sat og þar áður. Við horfum upp á þróun sem hér hefur átt sér stað síðan 1990, þá hefur kostnaðarhlutdeild sjúklinga verið að aukast. Ég held að við höfum öll fréttir af því úr okkar fjölskyldum og okkar vinahópi þar sem einstaklingar sem glíma við erfiða sjúkdóma, t.d. krabbamein, borga mjög háar upphæðir í göngugjöld og alls kyns gjöld sem tengjast þessum sjúkdómum. Þá kann einhver að segja: Já, en eru ekki að koma fram tillögur um að setja þak á þetta? Mín gagnrýni á þær tillögur sem fram hafa komið eða ég þekki er að í stað þess að horfa á samfélagið allt þá er það þrengt niður í sjúklingamengi sem á að jafna sín í milli þannig að sykursýkissjúklingurinn borgi örugglega jafn mikið eða jafn lítið og krabbameinssjúklingurinn o.s.frv., þetta er mengið. Ég vil horfa til samfélagsins alls og ef við ætlum, hæstv. fjármálaráðherra, að draga úr sköttum og álögum á Íslandi þá eigum við að byrja á þessum hópi.