145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[19:39]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við stóðum frammi fyrir gríðarlegu tekjuhruni hjá sveitarsjóðum og hjá ríkissjóði og við gerðum tvennt í senn, að hækka skatta og að skera niður útgjöld og reyndum að fara einhvern hyggilegan milliveg í þeim efnum. Það sem ég held að okkur hafi tekist best upp með hafi verið áherslubreytingarnar sem við gerðum í sköttunum vegna þess að ég held að þær hafi verið réttlátar. Það leikur sér enginn að því að leggja á skatta. Við erum að bregðast við vanda sem við stöndum frammi fyrir og reyna að verja velferðarkerfið og verja þá sem lakar standa.

Ég sagði að hv. þm. Brynjar Níelsson gerði gott í því að kannast við sjálfan sig sem hægri mann en ég ætlaðist nú ekki til að hann gerðist svona opinskár eins og hann gerðist núna í seinna andsvari og legðist gegn öllu sem mér fannst vera bara réttlæti. Ég hélt að við gætum sameinast um að reyna að búa til réttlátt skattkerfi sem hlífði þeim sem hefðu lægstu tekjurnar en létu þá hina sem eru aflögufærir og búa við best kjörin greiða meira í okkar sameiginlegu sjóði. Það eru hlutir sem margir í efri kantinum eru alveg sammála, fólk sem hefur nóg og miklu meira en nóg og við eigum ekki að skirrast við að beita skattkerfinu að mínu mati til að jafna kjörin í landinu og koma hér á réttlátara samfélagi. Ég er alveg viss um að innst inni vill hv. þingmaður það þó að okkur greini á um leiðir. En þarna er greinarmunur á nálgun hægri manna og félagshyggjumanna til vinstri.