145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2016.

2. mál
[19:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir líflega umræðu hér í dag. Það er ekki oft sem frumvörp verða tilefni til að taka svona breiða umræðu eins og við höfum gert í dag og hún hefur að verulegu leyti snúist um skattkerfisbreytingarnar og tollana. Mér finnst að umræðan hafi verið málefnaleg og það hafi verið tekist á hér af heiðarleika með rökum sem hver sér dálítið sínum augum. Mér finnst hafa komið fram óvenjumörg sjónarmið um ástæður fyrir því að ekki væri rétt að lækka skattana og gjöldin eða það ætti að gera það einhvern veginn öðruvísi. Það hefur verið mikil fjölbreytni í vali á rökum gegn málinu.

Menn hafa nefnt að það væri óheppilegt fyrir efnahagsástandið að fara í þessar skattalækkanir en í hinu orðinu tala oft þeir hinir sömu um að rétt væri að auka útgjaldastig ríkisins. Það finnst mér ekki ganga upp sem röksemdafærsla, það verður að gilda eitt fyrir efnahagsástæðurnar, annaðhvort er svigrúm til að slaka á aðhaldinu eða ekki. Ég tel að það sé rétti tíminn núna til að létta undir með heimilunum og fara í þessar skattkerfisbreytingar og tollabreytingar. Við erum meðal annars að gera það í áföngum vegna þess að við erum að horfa til ástandsins í efnahagslífinu og við viljum líka hafa augun á afgangi í ríkisfjármálunum og skapa svigrúm fyrir góðan afgang.

Umræðan um áhrifin af skattkerfisbreytingunum fyrir ólíka tekjuhópa hefur verið lífleg. Ég held til haga í þeirri umræðu að eftir sem áður, eftir þessar breytingar, verður 700 þús. kr. maðurinn með meiri skattbyrði en 600 þús. kr. maðurinn og hann verður með meiri skattbyrði en 500 þús. kr. maðurinn og koll of kolli. Skattbyrðin vex eftir því sem við förum ofar. Þetta leiðir af samspili persónuafsláttar og tveggja eða eftir atvikum þriggja þrepa kerfis. Það má í raun og veru segja í tilefni af umræðu um mörg skattþrep að við séum með óendanlega mörg skattþrep eins og stundum er bent á í þessari umræðu. Þegar maður skoðar það alveg ofan í kjölinn þá er sá sem hefur 701 þús. kr. með meiri skattbyrði en sá sem hefur 700 þús. kr. Það er því ekki allt sem sýnist þegar menn eru að telja til þúsund krónurnar sem skila sér í launaumslagið með skattbreytingunni eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson vék svo sem ágætlega að. Þetta er ekki alveg einfalt með það samspil af prósentum og krónum. Aðalatriðið er að eftir sem áður erum við með skattkerfi sem hefur ákveðið félagslegt tillit. Það er meiri skattbyrði eftir því sem launin hækka en við léttum undir með millitekjufólki. Ég minni á að þetta var aðgerð sem tengdist gerð kjarasamninga og spilaði mjög saman við þá áherslu sem var lögð á hækkun lægstu launa. Ef menn vilja tína til hvernig kaupmáttur lægstu launa er að breytast þá væri fróðlegt að taka saman í eitt graf umsamdar kjarabætur og skattalækkanir og sjá hvernig það virkar til að skila miklu til þeirra sem eru með lægst launin.

Töluvert hefur verið rætt um bótakerfin í dag. Ég hef svo sem engu sérstöku við þá umræðu að bæta nema það skiptir máli fyrir getu okkar til að halda áfram að bæta kjör þeirra sem þurfa á aðstoð annarra að halda að vera með góða viðspyrnu í ríkisfjármálunum og við erum að styrkja stöðu þeirra. Við erum að auka kaupmátt bóta á hverju ári og höldum því áfram á næsta ári. Þetta skiptir máli. Eftir situr að það er hópur í samfélaginu sem á afar erfitt með að ná endum saman og það er enginn ágreiningur um það hér í þinginu. En við getum ekki leyst það í eitt skipti fyrir öll með einni aðgerð. Við þurfum einfaldlega að setja okkur enn metnaðarfyllri markmið um að styðja enn betur við þennan hóp.

Í verstri stöðu tel ég að þeir séu sem hafa ekki kost á því að sækja sér atvinnutekjur eða eftir atvikum hafa engan lífeyrissjóð. Þetta á til dæmis við um þá sem hafa lokið sinni starfsævi og lífeyrissjóðurinn er ekki til staðar, hver sem ástæðan er, það geta verið ólíkar ástæður fyrir því, og eru ekki í færum til að vinna sér inn neinar launatekjur. Þetta fólk er í erfiðastri stöðu og við heyrum það mjög skýrt frá samtökum eldri borgara. Þess vegna skiptir mjög miklu máli að ljúka vinnunni við endurskoðun almannatrygginga og skoða hvernig við getum byggt fyrir þau göt sem eru í almannatryggingakerfinu og valda ákveðnu misgengi milli hópa í ólíkri stöðu. Endurskoðun tryggingakerfisins skiptir líka miklu máli þegar kemur að stöðu lífeyrisþega. Mín skoðun er sú að það væri mikil framför fyrir það kerfi að horfa meira til starfsgetu öryrkja en hina læknisfræðilegu örorku eins og kerfið er í dag. Um þetta er ekki alger samhljómur með öryrkjum en það samtal er samt enn þá lifandi.

Við erum með þessu frumvarpi að gera fjölmargar aðrar breytingar. Ég hef talað í dag talsvert um neysluskattana. Ég er algerlega ósammála því að með brottfalli neysluskatta, og þá er ég að vísa annars vegar í vörugjöld sem við höfum þegar fellt niður og tollana, séum við með einhverjum hætti að grafa alvarlega undan tekjustofnum ríkisins. Við skulum hafa það í huga að kakan er að stækka, það er vöxtur í landsframleiðslunni. Við verðum með meiri landsframleiðslu á næsta ári en við höfum í dag og ef spár ganga eftir árið þar á eftir. Þegar kemur samdráttarskeið, sem vissulega mun gerast fyrr en síðar, þá skulum við vonast til þess að það verði ekki með þeim hætti að verulegur samdráttur verði í landsframleiðslunni enda er það yfirleitt þannig þegar menn fara í gegnum slaka að hagkerfið hættir að vaxa. Þá höfum við þann grunn, þann stofn eða það magn í landsframleiðslunni sem við höfum verið að byggja undir árin þar á undan. Það er ekki hægt að útiloka samdrátt í landsframleiðslunni. Við lentum svo sannarlega í því hér á árunum eftir hrunið en við höfum unnið þann slaka aftur upp og í millitíðinni þurfum við að leggja áherslu á að lækka skuldirnar og búa í haginn fyrir þá stöðu sem þá kemur upp.

Þetta hefur verið lífleg umræða. Það hefur verið komið víða við. Ég hef reynt að bregðast við hér í andsvörum við því helsta sem að mér hefur verið beint. Ég ætla ekki að nota allan minn ræðutíma til að fylla út í frekari umræðu um þessi mál. Ég ætla að leggja það til að málið gangi til efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu og óska henni velfarnaðar og býð fram alla aðstoð sem við í ráðuneytinu getum veitt til að skýra málið frekar ef eftir því verður leitað. Menn hafa borið það hér upp í dag hvort ég hefði eitthvað á móti því að málinu væri breytt. Að sjálfsögðu ekki. Það er komið á forræði þingsins og það á við um tollana eins og margt annað. Menn hafa velt því fyrir sér hvort við ættum að flýta gildistöku tollaákvæða fyrir einstakar vörur. Það getur vel verið að það eigi að koma til skoðunar. Ég ætla ekki að leggjast á móti því.

Þetta er á margan hátt tímamótamál. Já, það eru breytingar í skattkerfinu. Þær eru ekki grundvallarbreytingar en þær eru mikilvægar við þær aðstæður sem núna eru uppi vegna stöðunnar á vinnumarkaði og til að halda áfram að létta undir með heimilunum. Tollarnir eru algert tímamótamál og í mjög góðu samræmi við stjórnarsáttmálann og þá stefnu sem áður hefur verið mörkuð. Ef við ljúkum þessu kjörtímabili með afnámi almennra vörugjalda og þessara tollaflokka sem eru í raun og veru að daga uppi í tekjuöflunarskyni þar sem þeir eru komnir niður í um 1% af tekjum ríkisins væri það gríðarlega mikill ávinningur fyrir allan íslenskan almenning.

Þá læt ég máli mínu lokið.