145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:26]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ágætisspurning hjá hv. þingmanni og ég þakka honum fyrir andsvarið. Það er mikilvægt að við höfum málefni starfsmanna á hreinu og að um þau sé vandlega fjallað og varlega gengið. Við höfum sagt að allir þeir starfsmenn sem eru fastráðnir hjá ÞSSÍ, hvort sem það er hér heima eða erlendis, muni fá sambærilegt starf. Unnið er að því og við gerum ráð fyrir að þetta frumvarp verði samþykkt. En verði það ekki munu menn að sjálfsögðu bregðast við því og væntanlega reka stofnunina áfram í sömu mynd o.s.frv.

Ef þingmaðurinn er að velta fyrir sér hvort forstöðumanni ÞSSÍ hafi verið sagt að hann yrði ekki endurráðinn er það nú þannig að samkvæmt starfsmannalögunum er skipun forstöðumanns tímabundin til fimm ára. Hún er í eðli sínu tímabundin ráðning. Forstöðumanni ÞSSÍ var því sent erindi þar sem sagt var að ráðning hans yrði ekki framlengd í ljósi þess að þessi (Forseti hringir.) fyrirætlan er fyrir hendi. Verði það hins vegar þannig, ég skal alveg upplýsa hv. þingmann um það hér, að málið verði ekki samþykkt mun ég að sjálfsögðu auglýsa þessa stöðu eins og vera ber og skal samkvæmt lögum.