145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:27]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var óvænt svar og alls ekki það sem ég var að fiska eftir. En er það þannig að hæstv. ráðherra sé að segja okkur að hann sé búinn að ákveða að endurráða ekki forstöðumann ÞSSÍ, burt séð frá því hvort þetta frumvarp verði samþykkt eða ekki? Bíddu, er það þannig að hæstv. ráðherra sé kominn í hefndarleiðangur gegn starfsmönnum ÞSSÍ? Ég á ekki eitt einasta orð, frú forseti. Þessi tiltekni forstjóri hefur í reynd borið af mörgum öðrum, hefur áunnið sér virðingu og þökk, ekki síst vegna þess að honum hefur tekist að afla erlends fjár í gríðarlegum mæli hér til samlags við íslensku framlögin.

Þetta eru svo óvænt tíðindi að mér verður eiginlega orðfall, herra forseti. Mér sýnist að það sem mætti líka kalla það, eftir að hafa hlustað á ræðu hæstv. ráðherra, allar þær ýjanir sem þar koma fram gagnvart stofnuninni, að þetta sé einhvers konar einelti af hálfu (Forseti hringir.) hæstv. utanríkisráðherra gagnvart þessari mætu stofnun.