145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:30]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Þetta er einmitt lykilspurning sem verður gætt að sérstaklega. Það er mjög mikilvægt að sú þekking sem er innan ÞSSÍ, og er jafnframt innan þróunarsamvinnuskrifstofu ráðuneytisins, nýtist okkur samanlagt betur en hún í rauninni gerir í dag. Það verður allt gert til að tryggja að sú þekking sem er til staðar í dag tapist ekki við þessa yfirfærslu eða við þennan samruna.

Á báðum stöðum, hvort sem það er í ráðuneytinu eða innan ÞSSÍ, er mikil þekking og afbragðsmannskapur sem hefur sinnt þessu af mikilli alúð og það er það sem við viljum gæta sérstaklega að, að fólk fái að blómstra áfram í því umhverfi og þeim störfum sem það hefur sinnt fram að þessu.

Spurningar hafa vaknað um hvort starfsmenn ÞSSÍ verði hluti af því flutningsskylda kerfi sem er í ráðuneytinu. Það er einfaldlega verið að vinna með það og ég mun gera allt sem ég get til þess hreinlega að verða við þeim óskum sem starfsmenn hafa varðandi það hvort þeir vilji vera hluti af því eða vera með eitthvert annað kerfi. En aðalmálið er að við glötum ekki þeirri þekkingu sem er til staðar í þróunarsamvinnu hjá okkur í dag.