145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:40]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það er heldur dapurlegt finnst mér að ræða þetta mál við þær aðstæður sem nú eru komnar upp. Ég felli mig ekki við vinnubrögð hæstv. ráðherra. Það er margt sem ég felli mig ekki við í stefnu hans en það er allt annað mál. Hæstv. ráðherra hefur fullkomlega lögmætar ástæður til að hafa allt aðrar pólitískar skoðanir en ég. Ég tek því bara eins og hverju öðru hundsbiti þó að það skelli kannski í hvoftum þegar menn eigast við um það. Ég verð hins vegar að segja að ég hélt að hæstv. ráðherra væri yfir það hafinn að tíðka vinnubrögð af þessu tagi. Ég get ekki sagt annað.

Mér rann í skap undir ræðu hæstv. ráðherra þegar hann talaði um stofnunina. Mér fannst í annarri hverri setningu ýjað að því að stofnunin stæði sig ekki nógu vel, hún væri ekki alveg í takti, hlutirnir væru ekki nógu vel reknir. Hæstv. ráðherra notaði orð eins og tvíverknað, það þyrfti að samræma stofnunina eða málflutning hennar við utanríkisstefnuna og það þyrfti að hagræða betur. Alls staðar gægist það fram í máli ráðherrans að stofnunin sé ekki að standa sig. Það er eins og hún sé í einhvers konar uppreisn gegn hæstv. ráðherra. Þetta kom fram aftur og aftur í fyrra líka en ekki með sama hætti og hérna áðan og þó liggur það algerlega ljóst fyrir að þessi stofnun fær alls staðar fyrirmyndareinkunnir, hjá starfsmönnum ráðuneytisins, hjá þróunarnefnd OECD, hjá öllum þeim sem hafa tekið hana út. Mér finnst þetta vera fast að því óboðlegt, ég vil ekki nota sterkari orð.

Þegar maður sér það síðan að hæstv. ráðherra fer til Afríku til að heimsækja samvinnulönd okkar þar og tekur með sér hóp ráðuneytisstarfsmanna en gætir þess vendilega að sneiða hjá því að taka forstjóra stofnunarinnar með eða einhverja starfsmenn hans, sem aldrei hefur gerst áður, þá fer maður auðvitað að hugsa. Er eitthvað að persónulegum samskiptum þarna af hálfu ráðherrans? Þegar það kemur svo fram hjá hæstv. ráðherra hér í andsvari við mig áðan að hann er beinlínis búinn að ákveða að ráða ekki aftur mann, sem hann sjálfur lýsir sem einstökum, vandvirkum og sérstökum starfsmanni, þá lyktar þetta af meiru en einelti. Mér sýnist þetta farið að lykta af hefndarleiðangri vegna þess að stofnunin hefur leyft sér að hafa málfrelsi og starfsmenn hennar hafa leyft sér að tala og gefið umsagnir til okkar í utanríkismálanefnd. Það er eins og hæstv. ráðherra sé kominn í einhvers konar persónulegt ferðalag gagnvart yfirmönnum stofnunarinnar. Slíkt þolum við ekki á hinu háa Alþingi. Svona vinnum við ekki. Það eru mörg ár síðan vinnubrögð af þessu tagi voru látin átölulaus hér.

Mér finnst sem hæstv. ráðherra hafi af þeirri umræðu sem fram fór á síðasta ári ekkert lært og ekkert skilið. Hann virðist bersýnilega ekki hafa fylgst með þróun umræðunnar. Hann kemur hingað og talar við okkur um að það hafi verið í framhaldi af úttekt, sem við okkur var sagt að væri ekki úttekt heldur einungis undanfari að frekari úttekt, sem farið er í það að fá sérstakan starfsmann Rauða krossins til að gera skýrslu fyrir hæstv. ráðherra og í framhaldi af því hafi komið í ljós að það þurfi að breyta stofnuninni. Rökin sem hæstv. ráðherra færir fyrir því, hverjar ástæðurnar eru fyrir því og hverju þarf að breyta, koma aldrei fram.

Fyrr á þessu ári var gefin út skýrsla af þremur fræðimönnum, Faure, Long og Prizzon, sem komið var til okkar í utanríkismálanefnd undir blálok umfjöllunar okkar á síðasta þingi. Það er dálítið merkilegt að lesa þá skýrslu. Þar kemur í ljós að fyrirkomulag ÞSSÍ fellur í þann flokk þar sem finna má meiri hluta slíkra stofnana. Með öðrum orðum, þó að það komi fram aftur og aftur í greinargerð hæstv. ráðherra að íslenska fyrirkomulagið og ÞSSÍ sé alveg séríslenskt, sem væri út af fyrir sig allt í lagi, þá er það ekki þannig. Þetta er úttekt hlutlausra fræðimanna sem ég veit ekkert hvort hafa komið til Íslands. Þeir skoðuðu einfaldlega fyrirkomulag margra stofnana á borð við ÞSSÍ í mörgum löndum út frá heimildum sem þeir höfðu undir höndum og komust að því að ÞSSÍ og uppbyggingin á henni og uppbyggingin á íslenskri þróunarsamvinnu er í þeirri kategoríu sem meiri hluti landa fellur í. Það er ekkert að því. Fyrir utan það kemur ítrekað fram í greinargerðinni frá DAC-nefndinni, sem við fengum, að sú nefnd sem skoðaði þessi mál í undanfara þess að Ísland sótti um aðild að þróunarnefnd OECD að allt virtist vera í feikilega góðu lagi. Þar var hvergi talað um tvíverknað, hvergi talað um að það þyrfti með einhverjum hætti að breyta hlutunum til að það yrði meira samræmi á milli utanríkisstefnunnar og ÞSSÍ. Þvert á móti kom fram í þeirri úttekt DAC-nefndarinnar að það væri gott samstarf á milli ÞSSÍ og utanríkisráðuneytisins. Það kom fram að hlutirnir virtust ganga ákaflega smurt. Það sem var hins vegar sagt í DAC-skýrslunni var að miðað við þær áætlanir sem voru uppi á þeim tíma og reyndar samþykktar, um stóraukin fjárframlög til þróunarsamvinnu á Íslandi, þá kynni að vera að við þyrftum að skoða betur með hvaða hætti við höguðum þessu. Það sem síðan blasti við og varð niðurstaðan var að hæstv. ráðherra hafði forgöngu um það að menn féllu frá þeirri miklu aukningu sem átti að verða. Staðan í dag er einfaldlega sú að við erum að „operera“ þróunarsamvinnuáætlun sem vantar í á næsta ári 4,7 milljarða frá því sem samþykkt var á sínum tíma þannig að sú forsenda sem í DAC-nefndinni var gefin upp sem tilefni til að skoða þetta sérstaklega er ekki lengur fyrir hendi.

Síðan verð ég að segja að mér finnst ráðuneytið ekki hafa farið rétt með þær ábendingar sem koma fram í DAC-skýrslunni af hálfu ráðuneytisins, bæði í greinargerð og í ræðum hæstv. ráðherra. Það kemur skýrt fram aftur og aftur að það sé í beinu röklegu samhengi við niðurstöðu DAC-skýrslunnar að þetta sé lagt fram, en það er ekki svo. Það kemur einungis á einum stað fram í DAC-skýrslunni að Ísland þurfi að skoða þróunarsamvinnu sína betur.

Hvaða atriði eru það sem við þurfum að skoða? Hvað er það sem vekur þessa afstöðu og þessa ábendingu DAC-nefndarinnar? Það er sú staðreynd að Ísland sker sig frá að því leyti að næstum því helmingurinn af því fjármagni sem fer samkvæmt skilgreiningum OECD til tvíhliða verkefna er ráðstafað af hálfu ráðuneytisins. Með öðrum orðum mætti draga þá ályktun af þessu að ráðherrann eða ríkisstjórn Íslands ætti að velta því fyrir sér hvort ekki væri best að fara þá leið að auka hlut ÞSSÍ.

Þá er rétt að rifja það upp sem kom fram á sínum tíma þegar starfsmenn ráðuneytisins gerðu enn eina atlöguna að utanríkisráðherrum sem þá sátu til að reyna að ná í gegn slíkri breytingu og töluðu við fyrrverandi utanríkisráðherra, Davíð Oddsson, um að fara nákvæmlega í þennan leiðangur. Hann lét skoða málið. Hvern lét hann skoða það fyrir sig? Ég veit að hv. þm. Brynjar Níelsson gleðst yfir því að vita að sá sem hafði yfirstjórn með þeirri skoðun er núverandi hæstv. menntamálaráðherra, maður sem við berum mikið traust til báðir tveir. Hver var niðurstaða þáverandi utanríkisráðherra, Davíðs Oddssonar, eftir að núverandi hæstv. menntamálaráðherra Illugi Gunnarsson hafði með flokki manna farið og skoðað þetta? Niðurstaðan varð þveröfug. Niðurstaðan varð sú að það ætti að víkka svið ÞSSÍ og láta ÞSSÍ taka yfir öll verkefni á sviði þróunarsamvinnu, ekki bara hin tvíhliða heldur líka marghliða verkefnin.

Davíð Oddsson og hæstv. menntamálaráðherra Illugi Gunnarsson eru ekki einir um þá skoðun. Við fengum í apríl umsögn frá félagsvísindasviði Háskóla Íslands sem Daði Már Kristófersson skrifaði undir og kom og flutti skýrt mál fyrir nefndinni. Þar kom það algerlega skýrt fram að sú ágæta stofnun, þar með Háskóli Íslands, sem innan sinna vébanda hefur mikla sérþekkingu á þessum málum, telur bráðræði að ráðast í það að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun. Þess utan er það afstaða þessarar merku stofnunar að það sé miklu vitlegra að fara þá leið sem Davíð Oddsson vildi fara á sínum tíma, þ.e. að flytja verkefnin frá utanríkisráðuneytinu til Þróunarsamvinnustofnunar.

Ég held að við slíkar aðstæður þar sem eru uppi harðar deilur um þetta mál og þar sem ljóst er að ráðherrann getur ekki bent á neitt sem ekki er að virka í fari stofnunarinnar þá ættum við þingmenn að skoða þessa leið ákaflega vel. Ég held, eins og málum er komið, að við ættum að kanna það ákaflega vandlega hvort það gæti ekki orðið þróunarsamvinnu til framdráttar ef menn styrktu einfaldlega ÞSSÍ og færu þá leið að flytja öll verkefni á sviði þróunarsamvinnu yfir til hennar. Það mundi ég gera ef ég væri í sporum hæstv. ráðherra. Stæði ég í þeim sporum þá mundi ég líka í staðinn fyrir að efna til ófriðar um þetta mál taka stjórnarandstöðuna á orðinu þegar hún hefur sagt mörgum sinnum að hún sé reiðubúin til að skoða með mjög jákvæðum huga að fara að hlutlausri jafningjarýni DAC-nefndarinnar, sem á að koma árið 2016. Þar eru menn og konur sem eru að fara vel yfir þetta mál. Okkur var sagt að sú niðurstaða kæmi á næsta ári. Hvers vegna á að fara að breyta þessu fyrirkomulagi núna ef vitað er að á næsta ári fáum við úttekt helstu sérfræðinga sem völ er á? Það eru engin rök fyrir því, frú forseti, að fara þessa leið og flýta sér með þessum hætti.

Það er engu líkara en það sé orðinn kjarni utanríkisstefnu Íslands að leggja niður ÞSSÍ. Þegar ég hlustaði á ræðu hæstv. ráðherra í fjárlögunum, þar sem hann sat fyrir svörum og gerði grein fyrir þeim verkefnum sem áttu að vera ný og sem ráðuneytið bæri sérstaklega fyrir brjósti, þá heyrði ég ekki mikið talað um norðurslóðir. Ég heyrði ekki mikið talað um EES. Nei, það sem þar var talað um voru verkefni eins og að opna nýtt sendiráð í Strassborg aftur og koma upp einhverjum litlum kontor í kjördæmi ráðherrans til að flokka skjöl. Ef maður ber það síðan saman og leggur saman við þingmálalista hæstv. ráðherra þá er það alveg ljóst að aðaláherslan er á eitt mál og það er eina málið sem brýtur í blað hjá hæstv. ríkisstjórn í utanríkismálum, a.m.k. þetta árið, það er að leggja niður ÞSSÍ. Þetta ber auðvitað að tengja við það með hvaða hætti hæstv. ráðherra og hæstv. ríkisstjórn hefur gengið um þróunarsamvinnumálefnin.

Við skulum ekki gleyma því að hæstv. utanríkisráðherra var einn af þeim sem tóku fram fyrir hendurnar á þáverandi ríkisstjórn 2011, þegar menn gáfu í þegar sú ríkisstjórn kom hingað til þings með áætlun sem átti að ná til 2020 og gerði að sjálfsögðu ráð fyrir því að þegar Ísland næði sér upp úr öldudalnum mundum við gefa duglega í varðandi þróunarsamvinnu. Hvernig lyktaði því? Hæstv. ráðherra ásamt formanni Sjálfstæðisflokksins og mörgum úr þáverandi stjórnarliði tóku höndum saman um að auka við þetta. Mér er það minnisstætt hversu fögrum orðum hæstv. ráðherra fór um að þetta væri raunhæft. Hæstv. núverandi fjármálaráðherra gaf svo betur í og sagðist hafa skoðað markmiðið miðað við áætlanir um hagvöxt næstu ára og teldi það fyllilega raunhæft. Ég taldi á þeim tíma að ég væri kannski fullsvartsýnn á þá þróun sem fram undan væri og tók þessu fagnandi.

Í dag blasir þetta við: Munurinn á því sem hæstv. ráðherra samþykkti 2011 og því sem hann er að berjast fyrir í ríkisstjórninni núna gagnvart þróunarsamvinnu eru 4,7 milljarðar. Í fyrra kom hann og var þá komið miklu lægra hlutfall sem hann ætlaði að berjast fyrir að yrði sett í þróunarsamvinnu á þessu ári miðað við landsframleiðslu. Það vantar samt 500 milljónir. (Forseti hringir.) Það virðist sem það sé engin fyrirstaða þegar kemur að því að verja þennan hólma af hálfu hæstv. ráðherra. (Forseti hringir.) Það eina sem honum er umhugað um er að leggja niður stofnun sem hefur (Forseti hringir.) staðið sig vel og enginn hefur getað fundið nokkurn blett á.