145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:55]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir skörulega ræðu eins og hans er von og vísa. Þar er á ferðinni maður sem þekkir gríðarlega vel til þessara mála, m.a. sem fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra og eins maður með gríðarlega langa þingreynslu. Það er einmitt þess vegna sem mig langar til að spyrja hv. þingmann. Þó svo að í öðru orðinu sé talsvert verið að mæra Þróunarsamvinnustofnun þá virðist í hinu orðinu vera nauðsynlegt að leggja stofnunina niður, eins og þetta frumvarp ber með sér. Þá vil ég spyrja hv. þingmann hvort hann muni til þess að Þróunarsamvinnustofnun Íslands hafi einhvern tíma ekki farið vel með það fjármagn sem henni hefur verið úthlutað og treyst til að nota í verkefni sem stuðla að því að hjálpa fátæku fólki úti í heimi. Man þingmaðurinn eftir því að það hafi einhvern tíma komið fyrir að stofnunin hafi ekki staðið undir nafni eða því sem henni er treyst fyrir?

Svo vil ég líka spyrja út í DAC-rýnina sem von er á á næsta ári. Getur hv. þingmaður ímyndað sér hvers vegna hæstv. ráðherra liggur svona á? Hvers vegna þurfi að drífa (Forseti hringir.) í þessum breytingum núna áður en sú rýni kemur?