145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[20:57]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef áður lýst reynslu minni af þessu máli sem nýjum ráðherra. Þetta var fyrsta málið sem var komið með til mín. Ég held að þetta sé fyrsta málið, sem starfsmenn ráðuneytisins sem höfðu sérstakan áhuga á því að taka þennan málaflokk inn í ráðuneytið, koma alltaf með til nýs ráðherra og ég held einfaldlega að hæstv. ráðherra hafi fallið fyrir þessu og ætli að koma þessu í gegn. En á því er kannski líka önnur skýring — hæstv. ráðherra hefur engin önnur mál. [Hlátur í þingsal.] Ef þingmálaskráin er skoðuð kemur í ljós að fyrir utan það sem er náttúrlega orðið eitt af hans kóngsins járni og arbeið, að koma hingað með metfjölda af EES-málum sem hann spólar í gegnum þetta þing hraðar en nokkur fyrri ráðherra, þá er ekkert mál annað. (Gripið fram í.) Það er hugsanlegt að það sé málafæð eða hugmyndafæð sem veldur þessu.

Ég tek auðvitað eftir því og finnst skrýtið að það er ekkert sérstakt sem hæstv. ráðherra ber fyrir brjósti sér. Jú, fyrir utan að leggja niður ÞSSÍ vill hann efla vestræna samvinnu, ná betra sambandi við Bandaríkin og bersýnilega hefur hæstv. ráðherra talað af sér í þeim efnum því að eftir síðasta samtal hans við einn af þeim vararáðherrum sem hann talaði við í Bandaríkjunum fór sá í fjölmiðla og sagði að hann hefði beðið Bandaríkin um að koma aftur með herinn til Íslands í einhverjum mæli. Enginn tók mark á því eins og má sjá á því að ekki nokkur einasti maður í þinginu bað um sérstaka umræðu. Það er dálítið hættulegt hlutskipti þegar ráðherra er kominn á það stig að jafnvel þingið er hætt að taka mark á honum þegar kemur að alvörupólitík.

Að því er varðar síðan fortíðina þá fullyrði ég það að a.m.k. síðasta áratuginn hefur Þróunarsamvinnustofnun farið ákaflega vel með fé að því marki að fyrir því liggur dómur Ríkisendurskoðunar sem segir ítrekað að þetta sé fyrirmyndarstofnun (Forseti hringir.) og gerir aldrei neinar athugasemdir við reikninga hennar.