145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:00]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt í þeirri umræðu sem á sér stað hér í kvöld um þetta frumvarp að það liggi fyrir að Þróunarsamvinnustofnun er vel rekin og fer vel með sitt fjármagn. Ég held að það sé rosalega mikilvægt að það liggi fyrir og við munum eftir því.

En vegna þess að hv. þingmaður rifjaði það upp að þetta væri fyrsta málið sem ráðuneytið kemur með til utanríkisráðherra hvers tíma þá langar mig að velta því upp sem kemur fram í nýjustu jafningjarýni DAC, sem var framkvæmd á árinu 2012–2014, að það megi greina áberandi stefnubreytingar hvað varðar að tengsl þróunarsamvinnu og annarra utanríkismála séu sífellt að styrkjast og aukast og tengslin á milli utanríkisviðskipta, utanríkisstefnu og þróunarsamvinnu séu sífellt að verða meiri. Það kom fram í máli hæstv. ráðherra, og hv. þm. Össur Skarphéðinsson gerði reyndar að umtalsefni hérna áðan, að það ætti að samræma stofnunina með þessu við utanríkisstefnuna. Mig langar því að spyrja: Eru ríki heims í þeirri vegferð að breyta þróunarsamvinnu á þann hátt að hún verði meira á forsendum þeirra sem aðstoðina veita, þ.e. að gera hana pólitíska í starfi þess lands sem veitir aðstoðina og þá kannski síður í þágu þeirra sem aðstoðina þiggja og þurfa að byggja upp sín samfélög?