145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:06]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að ef þetta blandast of sterklega og ef viðskiptasjónarmiðin eru farin að ráða því með hvaða hætti við veljum okkur viðfang þegar við erum að leggja fé af hendi innan þróunarsamvinnugeirans sé það mjög óæskilegt. Þannig var það auðvitað hér áður fyrri, gleymum því ekki að við rákum bæði sjómannaskóla og komum á fót útgerð í Namibíu sem endaði náttúrlega í íslenskum höndum, en það leið ekki á löngu þangað til heimamenn voru búnir að ná því undir sig og ekki við miklar vinsældir allra hér á Íslandi.

Ég held sem sagt að það sé líka erfitt að minnsta kosti að plata framandi þjóðir, ef það er það sem hv. þingmaður á við. Í okkar tilviki er það einfaldlega þannig að þegar Íslendingar koma til Malaví og gefa þeim heilan spítala sem kostar 700 milljónir þá skapar það óneitanlega vild gagnvart Íslendingum. Það er vel hugsanlegt að sú vild birtist með einhverjum hætti í viðskiptum milli þjóðanna í framtíðinni en í dag eru að heita má engin viðskipti á millum þeirra þriggja ríkja sem við höfum átt í mestum samskiptum við.

Flaggskip þróunarsamvinnunnar hafa verið skólarnir, einkum og sér í lagi jarðhitaskólinn. Það er einfaldlega þannig að við höfum menntað svo stóran hluta af vinnuafli þeirra í jarðhitaiðnaðinum að þegar ráðherra eins og ég kom til dæmis til Indónesíu, gríðarlega stórs lands, og Filippseyja mátti heita að nánast helmingurinn af millistjórnendum í jarðhitafyrirtækjunum þar hefði verið menntaður á Íslandi. Það skapar vild. Þeir vildu óðfúsir kaupa meiri þekkingu af Íslandi o.s.frv. Ég tel ekki að slíkt fyrirkomulag hafi nokkru sinni verið hugsað til þess að skapa einhver viðskiptatengsl en þau hafa gert það. Það var þó frekar aukaafurð af því en menn hafi beinlínis lagt í það þegar þeir hófu þetta fyrir áratugum síðan.