145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:29]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna það strax í byrjun að ég er enginn sérfræðingur í málefnum varðandi þróunarsamvinnu en ég undrast samt mjög þessa harkalegu andúð gegn breytingu sem mér sýnist í fljótu bragði að sé formbreyting. Hún er rökstudd með því að sú þekking sem er í ráðuneytinu nýtist betur, þau verkefni sem skarast o.s.frv., og það verða ofboðslega harkaleg viðbrögð. Hér vorum við í vor að ræða þetta mál dögum saman og það virðist ætla að endurtaka sig núna.

Ég get alveg skilið mismunandi sjónarmið í þessu og ég held að menn séu löngu búnir að koma þeim fram. En þegar maður verður var við alla þessa harkalegu andúð við frumvarpið fer maður að velta því fyrir sér hvort einhvers staðar sé fiskur undir steini. Auðvitað áttar reynslulítill þingmaður eins og ég sig ekki á því hvað það gæti verið.

Ég verð þó að segja eitt: Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að litlar stofnanir, fámennar stofnanir, eins og búið er að gera hér varðandi mörg ráðuneyti, séu óhentugar, óheppilegar. Það fjarlægir í fyrsta lagi hin pólitísku markmið, það verður sjálfstæðara að því leytinu til og pólitísk ábyrgð ráðherra verður óljósari.

Ég held að alla jafna eigum við að fara í hina áttina, að styrkja ráðuneytin, nýta mannskapinn betur, gera þau öflugri, ábyrgðina sýnilegri, (Forseti hringir.) jafnvel þó að Davíð Oddsson hafi ekki verið sammála því. (Forseti hringir.)(Gripið fram í: Taka Vegagerðina þá inn.) — Þess vegna. En ekki svona litlar stofnanir, því að þær verða aldrei öflugar einar og sér.