145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:31]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Við höfum svolítið ólíkt tímaskyn, ég og hv. þingmaður, því að þegar hann kemur og segir að við höfum rætt þetta mál dögum saman í vor þá var það nú svo að við ræddum það í heila tvo daga. Það kalla ég ekkert sérstaklega langa umræðu.

Við hv. þingmaður deilum greinilega ekki tímaskyni. Hann horfir ekki mikið á langar japanskar bíómyndir eins og ég og hefur ekki sömu þolinmæði gagnvart viðfangsefnunum sem við nálgumst. (Gripið fram í.) Ég verð að viðurkenna að við vorum rétt að hefja þessa umræðu á öðrum degi, en það kann að vera að hv. þingmaður hafi aðeins minna þolgæði fyrir löngum umræðum.

Hvað varðar það sem ég nefndi: Já, þetta er formbreyting. Og eins og ég sagði í upphafi ættum við, ef við ættum að vera að ræða eitthvað í þessum sal um þróunarsamvinnu, að vera að ræða þá staðreynd að við stöndum ekki einu sinni við markmið hæstv. ráðherra frá í vor þegar kemur að framlögum til þróunarsamvinnu.

Við stöndum ekki við það sem Alþingi Íslendinga, allir þingmenn utan einn, samþykkti hér á síðasta kjörtímabili. Við stöndum okkur ömurlega þegar kemur að framlögum til þróunarsamvinnu. Það er það sem við ættum að vera að ræða hérna, það er inntak málsins. Það er það sem ég á von á að við verðum gagnrýnd fyrir þegar við fáum á okkur jafningjarýni, þ.e. að við séum að setja okkur hér markmið, sem þingmenn allra flokka samþykkja, og svo sé ekki staðið við þau af því að það kemur ný ríkisstjórn. Þá telja menn að sú nýja ríkisstjórn hafi endurnýjað umboð til þess að breyta öllu, meira að segja því sem þeir samþykktu í gær. Það er náttúrlega eitthvað að íslenskri stjórnmálamenningu.

Mér finnst að við ættum að vera að ræða það. Mér finnst að við ættum að vera að ræða þessa ömurlegu frammistöðu. Mér finnst að við ættum að vera ræða það hvernig hægt er að snúa baki við markmiðum sem maður samþykkir í gær, bara af því að maður er skyndilega kominn í meiri hluta. Það ættum við að vera að ræða.

Formbreytingin sjálf — jú, við höfum rætt hana í tvo daga og erum nú að ræða hana þriðja daginn, byrjuðum fyrir klukkutíma eða svo. Eins og ég sagði áðan sé ég ekki alveg rökin fyrir breytingunni. Ég velti því fyrir mér (Forseti hringir.) af hverju við erum að verja tíma þingsins í að ræða slíka formbreytingu, sem ekki hafa verið færð nægilega sterk rök fyrir, þegar við ættum að vera að ræða hitt, (Forseti hringir.) ... (Gripið fram í: Heyr, Heyr!)