145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[21:34]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna að mér finnst tveir dagar um formbreytingu, og að byrja á þriðja degi, langur tími. Guð forði okkur frá því að eyða svona miklum tíma í allar formbreytingar hér eftir. (Gripið fram í.) — Það hvað við eigum að eyða í þróunarsamvinnu, hvernig stjórnmálamenningin er, það er allt önnur umræða, við skulum taka hana síðar. Ég nálgast auðvitað málið almennt út frá skoðun minni á því hvernig fyrirkomulag eigi að vera í ráðuneytunum. Þess vegna styð ég þetta.

Vel má vera að það geti verið skynsamlegt að efla þróunarsamvinnuna, útvíkka hana, þá gætu hugsanlega verið komnar forsendur fyrir stofnun af þessu tagi. En eins og þetta er í dag lít ég ekki svo á að best sé að hafa þetta í sérstofnun heldur gæti það nýst betur innan ráðuneytisins, vegna þess að verkefnin skarast, þar er líka ýmis sérfræðiþekking sem gæti nýst, frekar en að hafa þetta svona hvort í sínu lagi.

Mín vegna má sameina ráðuneytið Þróunarsamvinnustofnun og láta þetta heita eitthvað allt annað. Ég er bara að segja að ég nálgast þetta algjörlega út frá prinsippum mínum varðandi stjórnsýsluna og hvað geti hugsanlega nýst langbest. Þetta er ekki aðeins spurning um að gera við eitthvað sem er ekki bilað heldur líka að gera bílinn eða tækið enn betra en það er.