145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:11]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til laga sem virðist hafa eitt skýrt markmið, þ.e. að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun Íslands og færa starfsemina undir regnhlíf utanríkisráðuneytisins. Það er marghamrað á þessu í frumvarpinu, í greinargerð frumvarpsins. Hér segir til dæmis á bls. 5 í greinargerðinni, með leyfi forseta:

„Samkvæmt frumvarpinu flytjast verkefni ÞSSÍ frá stofnuninni til ráðuneytisins og stofnunin er lögð niður.“

Þetta kemur ítrekað fram í frumvarpinu.

Hvað geri ég, gamall formaður BSRB, þegar kerfisbreytingar eru kynntar? Ég byrja á því að skoða kaflann um starfsmannamál. Ég staðnæmist við það sem þar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Í bráðabirgðaákvæði í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að við færslu starfsemi ÞSSÍ til ráðuneytisins verði öllum starfsmönnum ÞSSÍ boðið starf í ráðuneytinu.“

Þetta er góð yfirlýsing. Hún væri góð ef hún væri sönn, en hún er ósönn. Við fengum að vita það hér fyrr í kvöld í upphafi umræðunnar að forstöðumanni ÞSSÍ hefði verið skrifað bréf og honum tilkynnt að hann verði sviptur starfi sínu nái þetta frumvarp fram að ganga. Þetta eru vinnubrögð sem við sættum okkur ekki við og eigum ekki að sætta okkur við. Ég óska eftir því að hæstv. utanríkisráðherra komi hér með skýringar á því, í ljósi þeirrar gagnrýni sem komið hefur fram við umræðuna um þetta ákvæði, um þetta atriði, hvort það geti virkilega verið rétt að standa eigi á þessu, að svipta starfsmanninn, forstöðumanninn, starfi sínu. Nú hefur það komið fram í máli hæstv. ráðherra að hér sé um mjög góðan og gegnan starfsmann að ræða eftir því sem ég hef heyrt á máli hæstv. utanríkisráðherra. Þess vegna þurfum við að fá nánari skýringar á því sem hér er uppi á borðum. Ef það er rétt að bréf af þessu tagi hafi verið ritað núverandi forstöðumanni Þróunarsamvinnustofnunar þá stangast það á við það sem segir í greinargerðinni með frumvarpinu, vegna þess að þar er sagt að starfsmönnum stofnunarinnar verði boðið starf innan veggja ráðuneytisins á því sviði sem Þróunarsamvinnustofnun starfar, en það á við um alla nema þennan eina starfsmann. Við þurfum að fá nánari skýringar á því. Það skiptir máli.

Almennt um kerfisbreytingar hjá fyrirtækjum og hjá opinberum stofnunum þá geta þær verið heilsusamlegar. Það getur verið gott og gagnlegt að ráðast í kerfisbreytingar. En þá þurfa menn að hafa skýr markmið. Til hvers? Menn breyta ekki bara til að breyta.

Ég hef verið formaður BSRB á þriðja tug ára, 21 ár. Ég hef kynnst mörgum tilraunum og framkvæmd kerfisbreytinga hjá hinu opinbera. Það hefur verið mjög misjafnlega að því staðið, en það er alltaf slæmt að hefja vegferðina í óeiningu. Mér sýnist að þetta frumvarp eða þær tillögur sem hér liggja fyrir geri það einmitt. Um frumvarpið og um þessar fyrirhuguðu kerfisbreytingar ríkir mikil óeining. Það er ósætti um þessar breytingar. Þá verð ég að segja að sá sem vill breyta og er svo ákafur í að breyta að hann leggur þetta fram sem sitt fyrsta frumvarp, eins og hæstv. utanríkisráðherra gerir, hefur á sínum herðum nokkuð sem heitir sönnunarbyrði. Hann þarf að sannfæra okkur þingheim um hvers vegna ráðast eigi í þær breytingar. Það er ekki vegna peninga — okkur er sagt það — það á ekki að spara neitt á þessu, en það eina sem eitthvert hald er í efnislega kemur fram í greinargerðinni á tveimur stöðum. Ég leyfi mér að vitna í greinargerðina á bls. 6, með leyfi forseta:

„Með því að færa starfsemi ÞSSÍ inn í ráðuneytið er verið að tryggja að öll samskipti við erlend ríki og stofnanir á sviði þróunarsamvinnu séu samstillt og í takt við utanríkisstefnu Íslands, auk þess sem íslensk stjórnvöld tali þá einni röddu um þróunarsamvinnu á alþjóðavettvangi.“

Gerum við það ekki? Er það ekki gert? Þurfum við ekki að fá rök fyrir þessari staðhæfingu, þessari fullyrðingu? Auðvitað er mikilvægt að Íslendingar og íslensk stjórnvöld tali einni röddu á erlendum vettvangi þar sem við erum að kynna okkar stefnu. En gerum við það ekki? Þarf ekki að skýra á hvern hátt það er ekki gert?

Hér segir enn í greinargerð með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Með breytingunum næst betri heildarsýn á málaflokkinn og betur verður tryggt að stefnu Íslands í málaflokknum sé framfylgt.“

Er það ekki gert? Þurfum við ekki að fá málefnaleg rök um þetta, um þessar meintu brotalamir? Er það ekki þetta sem við eigum þá að vera að ræða? Ekki er nóg að slá fram fullyrðingum af þessu tagi án einhverra efnislegra raka. Um það á málið að sjálfsögðu að snúast því að sönnunarbyrðin hvílir hjá þeim sem vill breyta.

Nú er það svo að við erum að ráðast í kerfisbreytingar hjá hinu opinbera á ýmsum sviðum. Það er ein almenn lína sem er þar ráðandi, eitt almennt markmið. Hvað er það? Það á ekki bara við um Ísland, það á við víða um heim innan stjórnsýslu. Hið almenna markmið er þetta: Að reyna að greina á milli stefnumótunar og framkvæmdarinnar, að það séu ólíkir aðilar sem þar komi að málum. Þetta stefnir í gagnstæða átt.

Þróunarsamvinnustofnun á sér langa og merka sögu frá því á síðustu öld. Gerðar hafa verið ýmsar breytingar á fyrirkomulaginu þar á meðal á stjórn stofnunarinnar. Gerðar voru breytingar 2008, aftur 2012. Það sem þá var í reynd verið að gera var að færa stjórnina á margan hátt nær ráðuneytinu en halda fjarlægðinni í framkvæmdinni. Það sem verið er að gera núna er, að því er sagt er, að færa stjórnina örlítið frá ráðuneytinu en framkvæmdina inn í ráðuneytið. Það er slík þróun sem er þvert á það sem verið er að reyna að ná fram annars staðar í stjórnsýslunni með kerfisbreytingum sem þar eru á döfinni.

Hverjir skyldu tala fyrir slíkum breytingum hvað ákafast? Eru einhverjir kerfislegir þættir sem þar gætu verið skýrandi? Já, ég held það. Hverjir eru þeir og hvar liggja þeir? Þeir liggja í ráðuneytinu.

Nú vil ég ekki ætla starfsmönnum utanríkisráðuneytisins neitt illt, að sjálfsögðu vil ég ekki gera það, en ég vil bara tala um þá augljósu hagsmuni þeirra sem stýra ráðuneytum að fá mikla fjármuni undir sína vængi þar sem hugsanlega hægt er að skáka peningum fram og til baka. Það er ekkert óheiðarlegt sem ég er að tala um í þessu efni, ég er hins vegar að tala um afstöðu sem er líkleg til að vera til staðar í ráðuneytunum.

Við skulum ekki gleyma öðru, hæstv. forseti, að okkur hefur verið boðað að senn líti dagsins ljós í þingsölum frumvarp ríkisstjórnarinnar um opinber fjármál. Hvað felur það frumvarp í sér? Jú, meðal annars það að hlutverk framkvæmdarvaldsins, ráðuneytanna, styrkist á kostnað þingsins. Hvað þýðir það svo aftur? Ég minnist ábendinga sem komu frá hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur í umræðu um þetta mál síðasta vor. Hún varaði við ógagnsæi í tengslum við þessar breytingar, að gagnsæið væri meira ef stofnunin væri sjálfstæð og aðskilin frá ráðuneytinu.

Nú bendi ég á til viðbótar að við erum að fá frumvarp um opinber fjármál sem eykur verksvið og valdsvið ráðuneytanna. Það er á þeim forsendum, hæstv. forseti, sem ég leyfi mér að gagnrýna þessar breytingar fyrst og fremst. Þær stríða gegn þeim markmiðum sem almennt er stefnt að innan stjórnsýslunnar, að greina á milli stefnumótunar annars vegar og framkvæmdar hins vegar. Verið er að færa framkvæmdina inn í ráðuneytið undir vængi þess. Það er ekki heillavænlegt. Sú hætta er á ferðum að þetta verði ógagnsærra fyrirkomulag.

Ég gæti hins vegar skilið málið ef mjög skýr rök væru færð fyrir því að þetta væri á einhvern hátt til mikilla hagsbóta en ég kem ekki auga á þau rök, þau er ekki að finna í greinargerð með frumvarpinu. Þau var ekki að heyra í máli hæstv. utanríkisráðherra þegar hann talaði fyrir málinu. Það er bara þetta: Að leggja niður stofnunina og færa hana inn undir ráðuneytið. Það er ekkert nýtt að utanríkisráðuneytið og starfsmenn þess hafi óskað eftir því að koma á þessu fyrirkomulagi. Það hefur verið viðvarandi ósk innan ráðuneytisins í langan tíma vegna þess að litið er á það sem hagsmuni ráðuneytisins og því til styrkingar að fá þessa miklu fjármuni þangað inn og það vald sem því fylgir. Ég tel, hæstv. forseti, að við eigum að ganga í gagnstæða átt. Síðan er hitt að spyrja hvað liggi á.

Bent hefur verið á að þróunarnefnd OECD sé að vinna sérstaka úttekt á fyrirkomulagi eða skipulagi þróunarsamvinnumála og að niðurstöður þeirrar úttektar liggi fyrir á næsta ári. Eigum við ekki að bíða eftir þeirri úttekt? Er ekki ráð að bíða eftir henni?

Þegar Íslendingar gerðust aðilar að því samstarfi OECD var gerð skýrsla um Ísland sérstaklega, eða það kom fram í skýrslu skírskotun til fyrirkomulagsins á Íslandi. Ég sakna þess að ekki sé nákvæmar sagt frá því í þeirri greinargerð hvað þar kom fram vegna þess að þar voru engar fordæmingar á ferðinni nema síður sé.

Nei, hæstv. forseti. Ég tel að setja eigi þetta mál á ís og við eigum að bíða eftir úttekt DAC-nefndarinnar. Hinu vil ég ekki bíða eftir, að heyra rökstuðning hæstv. utanríkisráðherra fyrir því að forstöðumaður stofnunarinnar skuli sviptur starfi sínu nái þetta frumvarp fram að ganga.