145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:33]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að gera eina játningu, hún er þessi: Ég hef ekki íhugað vel þær breytingar sem verið er að gera tillögu um varðandi þróunarsamvinnunefnd og þá hugsanlega aðkomu þingsins. Ég varpa fram á móti, vegna þess að þetta eru mjög verðugar vangaveltur af hálfu hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur, hvort ekki hefði verið ærið verkefni fyrir okkur að takast á við hugsanlegar breytingar á stjórn þessarar mikilvægu stjórnsýslu. Til þróunarsamvinnu og þróunarmála fara miklir fjármunir. Ætli það séu ekki um 6,5 milljarðar kr. sem fara í slíkt. Ég veit ekki hvað það er mikið sem rennur í gegnum Þróunarsamvinnustofnun en það eru miklir fjármunir. Það er mjög mikilvægt að við vöndum þar vel til verka um aðkomu þingsins og aðkomu þeirra sem hafa stefnumótun með höndum eða koma að ráðgefandi starfi í því efni. Það hefur í raun verið gert á undanförnum árum, vísað hefur verið í skýrslu sem gerð var árið 2008 og lagabreyting á árinu 2012. Ég held að árið 2015 væri ágætlega til þess fallið að taka þennan þátt sérstaklega fyrir og ræða hann í stað þess að skófla öllu batteríinu inn í utanríkisráðuneytið eins og lagt er til í frumvarpinu. Það tel ég of stórt skref, ekki síst í ljósi þess að það ríkir mikil óeining um málið.