145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:35]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér sýnist á öllu þessu máli að þetta sé eins konar persónuleg „vendetta“ hæstv. ráðherra gagnvart forstöðumanni stofnunar sem hefur ekki hikað við að segja sína skoðun á fundum nefndarinnar og sem hefur ekki hikað við það að svara öllum spurningum okkar. Í álitinu sem hann skrifaði undir fyrir hönd stofnunarinnar kemur alveg skýrt fram að fundir sem starfsmenn stofnunarinnar höfðu verið á með DAC-nefndinni eru gróflega rangtúlkaðir af ráðuneytinu. Þetta upplýsti forstöðumaðurinn á sínum tíma en það var alveg undir blálok þingsins þannig að ekki gafst tóm til að ræða þetta hér, en þetta liggur fyrir.

Vegna þess að hæstv. ráðherra tekur þessa afstöðu er mjög erfitt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að hann sé í leiðangri gegn þessari stofnun og forstöðumanni hennar. Það er frekar undirbyggt með þeirri staðreynd að þegar hæstv. ráðherra fer í heimsókn til Afríku til samvinnulanda tekur hann með sér hóp starfsmanna úr ráðuneytinu, en engan úr yfirstjórn stofnunarinnar. Mér er ekki kunnugt um að það hafi gerst áður, a.m.k. rekur mig ekki minni til þess. Það er fullkomlega óeðlilegt þegar menn fara að skoða verkefni á vegum tiltekinnar stofnunar að forstöðumaður stofnunarinnar sé útilokaður frá þeirri ferð. Þegar maður leggur þetta saman þá blasir við stjórnsýsla sem er á einhverju allt, allt öðru plani en við höfum kynnst.

Mig langar til þess að spyrja hv. þm. Ögmund Jónasson: Telur hann að sú afstaða ráðherrans gagnvart forstöðumanninum sem birtist í andsvari ráðherrans hérna áður og kemur fram í því að hann tilkynnti honum það að hann yrði ekkert endurráðinn, sé í andstöðu (Forseti hringir.) við viðeigandi ákvæði þessa (Forseti hringir.) frumvarps sem hann hefur í höndum?