145. löggjafarþing — 6. fundur,  15. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[22:38]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég geri ekki annað en að lesa það sem fram kemur í greinargerð með frumvarpinu þar sem vísað er í starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar og hvað um þá verði nái frumvarpið fram að ganga. Nú kann að vera að forstöðumaður stofnunarinnar sé ráðinn á öðrum forsendum en aðrir, en hann er starfsmaður og hann heyrir undir þá klásúlu sem hér er. Ég hefði haldið að skref sem hæstv. ráðherra gæti stigið núna við þessa umræðu væri að lýsa því yfir að nái þetta frumvarp fram að ganga þá sé það ásetningur hans að ráða forstöðumanninn að nýju til starfa eða á sömu forsendum og mundi eiga við um aðra starfsmenn og segir frá í greinargerð með frumvarpinu. Ég held að það væri nokkuð sem þyrfti að koma fram við umræðuna hér í kvöld eða á morgun eða hvenær sem það nú er sem frumvarpið verður látið ganga til umfjöllunar í nefnd. Áður en það gerist þurfum við að fá þetta skýrt og fá skýra yfirlýsingu frá hendi hæstv. utanríkisráðherra um að hið sama eigi við um forstöðumann stofnunarinnar og aðra starfsmenn hennar eins og skýrt er kveðið á um í greinargerð með frumvarpinu.